Fara í efni

Framtíð atvinnuuppbyggingar á Bakka

Málsnúmer 202006054

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Norðurþings - 330. fundur - 11.06.2020

Á undangengnum árum hefur verið ráðist í mjög umfangsmiklar innviðafjárfestingar sem stutt hafa við atvinnuuppbyggingu á svæðinu og hafa þær framkvæmdir eflt mjög samkeppnishæfni sveitarfélagsins. Þar má helst telja framkvæmdir við höfnina á Húsavík, jarðgangagerð um Húsavíkurhöfðagöng, orkuinniviðir hafa verið byggðir upp með gufuaflsvirkjun á Þeistareykjum og tenging raforkuflutningskerfisins milli Þeistareykja og Bakka eru allt þættir sem setja iðnaðarsvæðið raunverulega á kortið m.t.t. nýrrar/aukinnar framleiðslu á Íslandi.

Svæðið allt styður mjög vel við frekari atvinnuuppbyggingu og Bakki meðal fremstu svæða á landsvísu til að hýsa fjölbreyttan iðnað. Einnig er spennandi að horfa til þess hvort sérstök tækifæri geti falist í samspili og samstarfi PCC BakkiSilicon hf. og annarra fyrirtækja með það markmið að styrkja svæðið í anda hringrásarhagkerfisins.

Norðurþing, Landsvirkjun, PCC BakkiSilicon og fleiri hafa sameiginlegan hag af því að vinna náið saman til þess að Bakki haldi áfram að vaxa og dafna sem atvinnusvæði sem geti tekið á móti atvinnutækifærum sem byggja t.a.m. á sjálfbærri orkunýtingu. Þar eru hagsmunir Landsvirkjunar ríkir og hefur fyrirtækið þekkingu, mannafla og getu í að styðja við sveitarfélagið í frekari þróun Bakkaverkefnisins. Í því samhengi er nauðsynlegt að þróa skýra framtíðarsýn fyrir svæðið, greina enn betur tækifærin og skipuleggja sókn sem byggir á styrkleikum svæðisins og framtíðarsýn sveitarfélagsins í atvinnumálum í ljósi aukinna krafna um græna og loftslagsvæna starfsemi.

Sveitarstjóri óskar eftir umboði byggðarráðs til þess að leita til Landsvirkjunar og PCC BakkiSilicon um sérstakt samstarf samkvæmt ofangreindu. Í samstarfinu væri lögð sérstök áhersla á að sækja fram á grunni sjálfbærni og umhverfisvænnar starfsemi á Bakka.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að leita til Landsvirkjunar og PCCBakkiSilicon hf. um samstarf um frekari uppbyggingu á Bakka.

Sveitarstjórn Norðurþings - 104. fundur - 16.06.2020

Á 330. fundi byggðarráðs var ósk sveitarstjóra samþykkt um umboð til þess að leita til Landsvirkjunar og PCC BakkiSilicon um sérstakt samstarf um þróun næstu skrefa í uppbyggingu iðnaðarsvæðisins á Bakka. Í samstarfinu væri lögð sérstök áhersla á að sækja fram á grunni sjálfbærni og umhverfisvænnar starfsemi.

Kristján Þór óskar eftir umræðu um málið á fundi sveitarstjórnar.
Til máls tóku: Kristján, Bergur og Hjálmar.

Lagt fram.

Byggðarráð Norðurþings - 332. fundur - 02.07.2020

Til umræðu og yfirferðar er minnisblað sveitarstjóra um samantekt á stöðu atvinnumála og tækifæri til viðspyrnu vegna tímabundinnar framleiðslustöðvunar PCC BakkiSilicon hf.
Sveitarstjórnarfulltrúarnir Hjálmar Bogi Hafliðason og Hrund Ásgeirsdóttir sátu fundinn undir þessum lið.

Byggðarráð felur sveitarstjóra að útbúa drög að erindi til ríkisstjórnarinnar með ósk um fund þar sem farið verði yfir stöðuna og framtíð atvinnuuppbyggingar á svæðinu.

Byggðarráð Norðurþings - 335. fundur - 13.08.2020

Sveitarstjóri gerir grein fyrir stöðu mála í kjölfar fundar með fulltrúum ríkisstjórnarinnar um framtíð atvinnuuppbyggingar á Bakka frá í júlí sl.
Lagt fram til kynningar.