Fara í efni

Heimild til sölu fasteignarinnar Hafnarstétt 17 - Verbúðir

Málsnúmer 202006091

Vakta málsnúmer

Skipulags- og framkvæmdaráð - 71. fundur - 23.06.2020

Fyrir liggur ósk um söluheimild á Hafnarstétt 17 skv. fjárhagsáætlun 2020.
Meirihluti skipulags- og framkvæmdaráðs samþykkir söluheimild á Hafnarstétt 17 án uppskiptingar.

Undirritaðir telja heppilegra að skipta verbúðunum upp í séreignir og selja þær sem slíkar.

Heiðar Hrafn Halldórsson
Kristján Friðrik Sigurðsson

Hjálmar Bogi bókar:

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 gerir ráð fyrir sölu eigna. Rétt eins og árið áður. Það virðist knýjandi þörf fyrir að losa um eignir til að tryggja lausafé í rekstri sveitarfélagsins. Verbúðirnar á Húsavík voru byggðar árið 1965 með styrk frá ríkinu og hafa hýst margskonar starfsemi síðan þá. Lengst af voru verbúðir í húsnæðinu. Fyrir utan sjávarútveg hafa ferðaþjónusta, iðnaður, listviðburðir og félagasamtök verið í húsnæðinu. Starfsemin hefur verið fjölbreytt. Sveitarfélagið Norðurþing og Menningarfélagið Úti á Túni gerðu eitt sinn með sér samning varðandi afnot af þremur verbúðum á efri hæð að Hafnarstétt 17. Fræðslu- og menningarnefnd samþykkti samninginn enda fer fjölskylduráð með málaflokkinn.
Tilgangurinn með samningnum var að lífga upp á mannlíf á svæðinu og styðja við menningu og skapandi greinar á þann hátt að í verbúðunum var aðstaða fyrir listamenn og hönnuði auk viðburða sem stuðluðu að menningarlegum fjölbreytileika, nýsköpun og skapandi hugsun í samfélaginu. Í verbúðunum var boðið upp á vinnustofur fyrir listamenn, sýningarrými og tæknismiðju í samvinnu við söfn og stofnanir á svæðinu.
Nú standa verbúðir tómar og engin er innkoman af þeim. Því er möguleiki að bjóða félagasamtökum og öðrum afnot af húsnæðinu til að iðka og rækta starfsemi sína. Það er hlutverk fjölskylduráðs að draga slíkan vagn. Það skortir hinsvegar vilja og áhuga meirihluta sveitarstjórnar til að hlúa að mikilvægu félagsstarfi í samfélaginu.
Þak hússins er aðgengilegt frá aðalgötu Húsavíkur með yfirbyggðum svölum á efri hæð með aðgengi til bæði norðurs og suðurs. Engin umræða hefur farið fram hvernig mögulegri sölu skal háttað, hvort selja eigi alla eignina, skipta henni upp og selja í hlutum eða eiga og leigja undir margskonar starfsemi. Það væri hægt að setja ákveðna fjármuni í viðhald á hverju ári. En tímasetning á sölu eignarinnar með hagsmuni sveitarfélagssins í huga gæti ekki verið verri.