Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

71. fundur 23. júní 2020 kl. 13:00 - 14:40 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Silja Jóhannesdóttir formaður
  • Heiðar Hrafn Halldórsson aðalmaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason aðalmaður
  • Kristján Friðrik Sigurðsson áheyrnarfulltrúi
  • Guðmundur Halldór Halldórsson aðalmaður
  • Birna Ásgeirsdóttir varamaður
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Gunnar Hrafn Gunnarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
  • Þórir Örn Gunnarsson hafnarstjóri
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
  • Ketill Gauti Árnason starfsmaður í stjórnsýslu
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir þjónustu- og skjalafulltrúi
Dagskrá
Þórir Örn Gunnarsson hafnastjóri sat fundinn undir liðum 1-2.
Ketill Gauti Árnason Verkefnastjóri sat fundinn undir liðum 9-10.
Gunnar Hrafn Gunnarsson framkvæmda- og þjónustufulltrúi sat fundinn undir liðum 1-10 og 16.
Gaukur Hjartarson skipulags- og byggingarfulltrúi sat fundinn undir liðum 2-18.

1.Hafnasamband Íslands - Fundargerðir 2020

Málsnúmer 202001107Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum liggja fundargerðir 423. og 424. frá Hafnasambandi Íslands.
Lagt fram til kynningar.

2.Óskað er eftir leyfi til að mála gangbraut og afnotaleyfi af merktu svæði á hafnarstétt.

Málsnúmer 202006120Vakta málsnúmer

Norðursigling óskar eftir heimild til að mála gangbraut á móts við flotbryggju og hafa til umráða sérmerkt svæði sunnan og norðan við gagnbraut.
Skipulags- og framkvæmdaráð heimilar málningu gangbrautar og afnot af svæðinu í norður frá gangbraut í samráði við hafnastjóra. Ráðið samþykkir þetta með þeim skilyrðum að gengið verði frá svæðinu eins og komið var að því að tímabili loknu.

3.Fjárhagsáætlun Norðurþings 2021

Málsnúmer 202006044Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggja drög að vinnuáætlun vegna fjárhagsáætlunar 2021.
Lagt fram til kynningar.

4.Viðauki við fjárhagsáætlun 2020 - Skipulags- og byggingarmál/fjárfestingar

Málsnúmer 202006094Vakta málsnúmer

Á 70. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var samþykkt að styrkja framkvæmd við Hafnarstétt 7 - Naust um 10 milljónir króna. Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur til samþykktar viðauki við fjárhagsáætlun 2020 vegna þess.
Í viðaukanum er gert ráð fyrir að 10 milljónir króna verði fluttar af fjárfestingaáætlun ársins 2020 yfir á rekstur málaflokks 09 - skipulags- og byggingarmál.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir viðaukann.

5.Umsóknir um sumarstörf 2020

Málsnúmer 202004003Vakta málsnúmer

Minnisblað með samantekt vegna úrvinnslu umsókna sérstakra sumarstarfa vegna Covid-19 áhrifa er til kynningar fyrir skipulags- og framkvæmdaráði.
Lagt fram til kynningar.

6.Fyrirspurn um förgun á plasti á Melrakkasléttu.

Málsnúmer 202006108Vakta málsnúmer

Erindi frestað til næsta fundar.

7.Erindi frá umsjónamanni Hvamms vegna lagfæringa á gangstétt og götu við Litla-Hvamm

Málsnúmer 201908114Vakta málsnúmer

Fyrir liggur reikningur frá Garðvík ehf. með áföllnum kostnaði vegna endurnýjunar gangstéttar fyrir framan Litla Hvamm.
Reikningurinn var sendur á Dvalarheimili Aldraðra á Húsavík í byrjun mars 2019, en framsendur á Norðurþing í júní 2020 þar sem ljóst var að umrædd gangstétt er hvorki innan lóðar Hvamms né Litla Hvamms.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að greiða kostnaðinn.

8.Hverfisráð Öxarfjarðar 2019 - 2021

Málsnúmer 201908036Vakta málsnúmer

Á 330. fundi byggðarráðs 11. júní var eftirfarandi bókað:
Byggðarráð vísar málum númer 1, 2, 4, 5 og 6 til skipulags- og framkvæmdaráðs.
Liður 1. umsögn um ljósmyndasýningu og var afgreiddur frá skipulags- og framkvæmdaráði 2. júní s.l.
2. Aðgengi að fuglaskoðunarhúsi á Kópaskeri.
4. Viðhald á leikvöllum/íþróttavöllum á Kópaskeri og í Lundi.
5. Umhirða og viðhald eigna/svæða sveitarfélagsins í Öxarfjarðarhéraði, tjaldsvæði, opin svæði, sundlaugin o.fl.
6. Sumarstörf innan Öxarfjarðarhéraðs á vegum sveitarfélagsins.
Liður 1- umsögn um ljósmyndasýningu 202040087
Bókað 2. júní. 2020- Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að sýningin sé sett upp innan lands Norðurþings svo fremi að gengið verði frá skiltum með öruggum hætti m.t.t. foks og ekki verði af varanlegt jarðrask.

Liður 2. Aðgengi að fuglaskoðunarhúsi á Kópaskeri.
Búið er að vinna drög að aðgengi og hönnun af SSNE og er í kynningu hjá eigendum og hagaðilum. Stefnt er að því að sækja um styrk til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða haustið 2020.

Liður 4. Viðhald á leikvöllum/íþróttavöllum á Kópaskeri og Lundi.
Á fundi Skipulags- og framkvæmdaráðs 9. júní síðasliðnum voru samþykkt stækkun og úrbætur við leikskólann við Lund samkvæmt óskum starfsmanna.

Skipulags- og framkvæmdráð vísar því til fjölskylduráðs að taka út leikvöll á Kópaskeri og meta ástand hans.

Liður 5. Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að taka saman áætlun um hirðingu og viðhald svæða austan Húsavíkur og leggja fyrir ráðið ásamt því að senda svar til hverfisráðs Öxarfjarðar. Einnig felur ráðið framkvæmda- og þjónustufulltrúa að svara hverfisráði varðandi viðhald eigna austan Húsavíkur skv. áætlun sem liggur fyrir.

Liður 6. Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að svara hverfisráði þessu erindi. Ráðið vísar þessum lið einnig til fjölskylduráðs.

9.Heimild til sölu fasteignarinnar Hafnarstétt 17 - Verbúðir

Málsnúmer 202006091Vakta málsnúmer

Fyrir liggur ósk um söluheimild á Hafnarstétt 17 skv. fjárhagsáætlun 2020.
Meirihluti skipulags- og framkvæmdaráðs samþykkir söluheimild á Hafnarstétt 17 án uppskiptingar.

Undirritaðir telja heppilegra að skipta verbúðunum upp í séreignir og selja þær sem slíkar.

Heiðar Hrafn Halldórsson
Kristján Friðrik Sigurðsson

Hjálmar Bogi bókar:

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 gerir ráð fyrir sölu eigna. Rétt eins og árið áður. Það virðist knýjandi þörf fyrir að losa um eignir til að tryggja lausafé í rekstri sveitarfélagsins. Verbúðirnar á Húsavík voru byggðar árið 1965 með styrk frá ríkinu og hafa hýst margskonar starfsemi síðan þá. Lengst af voru verbúðir í húsnæðinu. Fyrir utan sjávarútveg hafa ferðaþjónusta, iðnaður, listviðburðir og félagasamtök verið í húsnæðinu. Starfsemin hefur verið fjölbreytt. Sveitarfélagið Norðurþing og Menningarfélagið Úti á Túni gerðu eitt sinn með sér samning varðandi afnot af þremur verbúðum á efri hæð að Hafnarstétt 17. Fræðslu- og menningarnefnd samþykkti samninginn enda fer fjölskylduráð með málaflokkinn.
Tilgangurinn með samningnum var að lífga upp á mannlíf á svæðinu og styðja við menningu og skapandi greinar á þann hátt að í verbúðunum var aðstaða fyrir listamenn og hönnuði auk viðburða sem stuðluðu að menningarlegum fjölbreytileika, nýsköpun og skapandi hugsun í samfélaginu. Í verbúðunum var boðið upp á vinnustofur fyrir listamenn, sýningarrými og tæknismiðju í samvinnu við söfn og stofnanir á svæðinu.
Nú standa verbúðir tómar og engin er innkoman af þeim. Því er möguleiki að bjóða félagasamtökum og öðrum afnot af húsnæðinu til að iðka og rækta starfsemi sína. Það er hlutverk fjölskylduráðs að draga slíkan vagn. Það skortir hinsvegar vilja og áhuga meirihluta sveitarstjórnar til að hlúa að mikilvægu félagsstarfi í samfélaginu.
Þak hússins er aðgengilegt frá aðalgötu Húsavíkur með yfirbyggðum svölum á efri hæð með aðgengi til bæði norðurs og suðurs. Engin umræða hefur farið fram hvernig mögulegri sölu skal háttað, hvort selja eigi alla eignina, skipta henni upp og selja í hlutum eða eiga og leigja undir margskonar starfsemi. Það væri hægt að setja ákveðna fjármuni í viðhald á hverju ári. En tímasetning á sölu eignarinnar með hagsmuni sveitarfélagssins í huga gæti ekki verið verri.

10.Framkvæmdir á austursvæði Norðurþings.

Málsnúmer 202006101Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur samantekt frá umsjónarmanni eigna Norðurþings um viðhald eigna á austusvæði Norðurþings.
Lagt fram til kynningar.

11.Umsókn um breytingu á aðveitustöð Rarik á Húsavík

Málsnúmer 202006085Vakta málsnúmer

Óskað er eftir byggingarleyfi fyrir breytingum á aðveitustöð RARIK við Þeistareykjaveg. Breytingar fela í sér uppbyggingu uppstólaðs þaks auk einangrunar og klæðningar útveggja. Klæðningar á þaki og veggjum verða úr lituðu áli. Gluggar og hurðir verða endurnýjuð við framkvæmdirnar. Fyrir liggja teikningar unnar af Teiknistofu Arkitekta.
Skipulags- og framkvæmdaráð heimilar skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni þegar fullnægjandi gögnum þar að lútandi hefur verið skilað inn.

12.Deiliskipulag Þeistareykjalands - skipulagslýsing

Málsnúmer 202006081Vakta málsnúmer

Þingeyjarsveit kynnir þessa dagana skipulagslýsingu vegna fyrirhugaðrar deiliskipulagsvinnu fyrir Þeistareykjaland.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings telur að nokkur skoðanaágreiningur gæti verið um afmörkun Þeistareykjalands og telur rétt að leysa úr þeim ágreiningi áður en skipulagsmörk verða endanlega skilgreind eða halda skipulagsmörkum ella utan þeirra svæða sem ágreiningur kann að vera um. Að öðru leiti gerir skipulags- og framkvæmdaráð ekki athugasemdir við skipulagslýsinguna.

13.Ósk um samþykki fyrir endurgerð á þaki Stekkjarholts í Reykjahverfi

Málsnúmer 202006055Vakta málsnúmer

Örlygur Hnefill Örlygsson og Valgerður Gunnarsdóttir óska eftir samþykki til að byggja upp þak Stekkjarholts í Reykjahverfi til samræmis við áður samþykkta teikningu frá 1996.
Skipulags- og framkvæmdaráð heimilar skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni þegar fullnægjandi gögnum þar að lútandi hefur verið skilað inn til byggingarfulltrúa.

14.Ósk um samþykki fyrir breyttri afmörkun lóðarinnar Núpur lóð

Málsnúmer 202006078Vakta málsnúmer

Björg Guðmundsdóttir og Jón Ingimundarson óska eftir samþykki fyrir breyttri afmörkun lóðar undir fiskeldi í Núpsmýri. Lóðin er í fasteignaskrá skráð sem "Núpur lóð" og hefur landnúmerið 154.196. Þinglýst lóð er 20.000 m² en stækkar í 83.870 m². Ennfremur er þess óskað að sveitarfélagið samþykki útskipti lóðarinnar úr jörðinni. Loks er þess óskað að lóðin fái heitið "Núpsmýri". Fyrir liggur hnitsett lóðarblað af fyrirhugaðri afmörkun lóðarinnar.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við byggðaráð, í sumarleyfisumboði sveitarstjórnar, að afmörkun lóðarinnar verði samþykkt sem og útskipti hennar úr jörðinni Núpi. Ennfremur samþykkir ráðið lóðarheitið Núpsmýri.

15.Ósk um lóðarstofnun úr óskiptu landi jarðanna Ærlækjarsel 1 og 2

Málsnúmer 202006077Vakta málsnúmer

Landeigendur að Ærlækjarseli 1 og 2 óska eftir samþykki fyrir afmörkun lóðar úr óskiptu landi jarðanna tveggja. Lóðin er 1.000 m² eins og fram kemur á hnitsettu lóðarblaði sem fylgir umsókn. Lóðin hefur ekki verið fullnægjandi skilgreind áður, en er skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár undir heitinu "Ærlækjarsel 1 lóð" sem hefur landnúmerið 178.029. Á lóðinni stendur dæluhús F2233347. Óskað er eftir að lóðin fái heitið Ærlækjarsel HÖ1.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við byggðaráð, í sumarleyfisumboði sveitarstjórnar, að afmörkun lóðarinnar verði samþykkt. Ennfremur samþykkir ráðið lóðarheitið Ærlækjarsel HÖ1.

16.Ósk um leyfi fyrir bílastæði innan lóðar að Mararbraut 19

Málsnúmer 202006067Vakta málsnúmer

Lóðarhafar að Mararbraut 19 óska heimildar til að gera bílastæði innan lóðar. Meðfylgjandi erindi er rissmynd af staðsetningu bílastæðis.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir gerð bílastæðisins. Sé óskað niðurtektar kantsteins vegna aðkomu að bílastæðinu er lóðarhafa bent á að hafa samband við þjónustustöð sveitarfélagsins.

17.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn um rekstrarleyfi v/Kaupfélagið Raufarhöfn

Málsnúmer 202006095Vakta málsnúmer

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar umsagnar Norðurþings vegna umsóknar Klifaeigna ehf. um leyfi til veitingasölu í flokki II í "Kaupfélaginu" að Aðalbraut 24 á Raufarhöfn.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að veita jákvæða umsögn um erindið.

18.Umsókn um byggingarleyfi fyrir geymslu að Hveravöllum

Málsnúmer 202006099Vakta málsnúmer

Ragnar Hermannsson, f.h. Garðræktarfélags Reykhverfinga, óskar byggingarleyfis fyrir geymsluskemmu á starfssvæði fyrirtækisins að Hveravöllum í Reykjahverfi. Grunnflötur skemmunnar er 480 m² og þar að auki er reiknað með 185 m² millilofti. Húsið yrði klætt PIR samlokueiningum, bæði veggir og þak. Fyrir liggja teikningar unnar af Ragnari.
Skipulags- og framkvæmdaráð fellst á fyrirhugaða uppbyggingu og heimilar skipulags- og byggingarfulltrúa að veita byggingarleyfi fyrir mannvirkinu þegar fullnægjandi gögnum þar að lútandi hefur verið skilað inn.
Ráðið áréttar að tímabært sé að vinna deiliskipulag af svæðinu áður en til frekari uppbyggingar kemur.

Fundi slitið - kl. 14:40.