Fara í efni

Vinnumálastofnun - starfsstöð á Húsavík

Málsnúmer 202009006

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Norðurþings - 338. fundur - 10.09.2020

Árið 2014 lokaði Vinnumálastofnun starfsstöð sinni á Húsavík þar sem stofnunin taldi ekki lengur þörf á sérstakri skráningarskrifstofu í sveitarfélaginu. Nú eru horfur í atvinnumálum með þeim hætti að atvinnuleysi er að aukast umtalsvert í sveitarfélaginu og því vaxandi þörf fyrir úrræði Vinnumálastofnunar í sveitarfélaginu.

Atvinnuleysi er að aukast í Norðurþingi og er með því sem mest gerist á Norðurlandi eystra. Gera má ráð fyrir að þegar líður á haustið fari uppsagnir í iðnaði og ferðaþjónustu að gera vart við sig í meira mæli og að atvinnuleysi verði þá umtalsvert meira en þegar er orðið.
Um þessar mundir er ríkisstjórnin að efla viðspyrnu á mörgum vígstöðvum, meðal annars í gegnum Vinnumálastofnun og þau úrræði sem þar eru rekin. Í ljósi þess verður ekki annað séð en að brýnt sé að Vinnumálastofnun opni á ný starfstöð á Húsavík til að stofnunin geti rækt lögbundnar skyldur sínar við atvinnuleitendur í sveitarfélaginu og nærsveitarfélögum sem snúa að vinnumiðlun, mati á vinnufærni, þátttöku atvinnuleitenda í vinnumarkaðsaðgerðum og eftirliti þar á.
Opnun starfsstöðvar á Húsavík væri í samræmi við stefnu stjórnvalda um fjölgun starfa á landsbyggðinni. Eðlilegt umfang slíkrar starfsemi væru tveir starfsmenn sem ýmist hefðu ýmist viðveru á starfstöð á Húsavík eða ferðuðust um innan Þingeyjarsýslu í þjónustu við atvinnuleitendur með viðtölum, námskeiðum og vinnumiðlun. Byggðarráð skorar á Vinnumálastofnun að bregðast skjótt við og opna á ný starfstöð á Húsavík.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að koma áskoruninni á framfæri við forstjóra Vinnumálastofnunar.