Fara í efni

Björgunarskipið María Júlía BA 36 - Mögulegt samstarf við Byggðasafn Vestfjarða um að skipið verði gert upp á Húsavík

Málsnúmer 202009082

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Norðurþings - 339. fundur - 17.09.2020

Aðilar sem áhuga hafa á því að fjölga uppbyggingarverkefnum er tengjast íslenskum eikarbátum hafa hvatt til þess að sveitarfélagið leggi verkefni lið, sem skapa myndi mikilvæg störf til næstu ára og sem treysta myndi enn betur þann þekkingargrunn og menningu sem byggð hefur verið upp í tengslum við íslenska eikarbáta hér á Húsavík á undangengum árum.

Eikarskipið María Júlía BA 36, er fornfrægt björgunarskip Landhelgisgæslunnar, byggt í Danmörku og var notað á árunum 1950-1969. Talið er að áhafnir Maríu Júlíu hafi komið að björgun allt að tvö þúsund manns á þeim árum er hún var í umsjá Landhelgisgæslunnar fyrir vestan. Áform Byggðasafns Vestfirðinga hafa verið þau að safna fjár til að gera skipið upp, en ekkert hefur orðið af því ennþá.

Sveitarstjóri hefur átt samtöl við forsvarsmenn skipsins fyrir vestan og er vilji aðila málsins að ná nú, með samtakamætti, saman um að koma Maríu Júlíu aftur í fyrra horf. Hugmyndin er sú að vinna verkefninu stuðnings ríksins sem taka þarf að sér meginþunga í fjármögnun verkefnisins, í bland við sjálfsaflafé.

Skipið yrði dregið til Húsavíkur og unnið yrði að enduruppbyggingu Maríu Júlíu í Húsavíkurslipp næstu ár. Að enduruppbyggingu lokinni yrði skipinu siglt aftur vestur til Ísafjarðar þar sem eigendur þess; Byggðasafn Vestfjarða, tæki á móti því og inni með til framtíðar á þeim grunni sem heimamenn vilja helst.

Þess er óskað að byggðarráð leggi til að sveitarfélagið setji sín lóð á vogarskálar þess að af verkefninu geti orðið, með því að vinna því brautargengi með samtölum við ríkið og aðra hagsmunaaðila sem að verkefninu kæmu.
Byggðarráð tekur jákvætt í verkefnið og samþykkir að leggja því lið á ofangreindum forsendum.