Byggðarráð Norðurþings

339. fundur 17. september 2020 kl. 08:30 - 14:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri
  • Helena Eydís Ingólfsdóttir formaður
  • Kolbrún Ada Gunnarsdóttir varaformaður
  • Hafrún Olgeirsdóttir aðalmaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason áheyrnarfulltrúi
  • Benóný Valur Jakobsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
  • Berglind Jóna Þorláksdóttir skrifstofu- og skjalastjóri
Fundargerð ritaði: Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri
Dagskrá

1.Sóknaráætlun 2020-2024

202009087

Á fund byggðarráðs koma Ari Páll Pálsson og Rebekka Kristín Garðarsdóttir frá SSNE og fara yfir og eiga samtal við ráðið um sóknaráætlun landshlutans 2020-2024.
Byggðarráð þakkar Ara Páli og Rebekku fyrir kynninguna á Sóknaráætlun landshlutans. Byggðarráð vísar umræðu um Sóknaráætlun til sveitarstjórnar og leggur til að málið verið tekið fyrir á næsta sveitarstjórnarfundi.

2.Trúnaðarmál

202009107

Fært í trúnaðarmálabók.

3.Framtíð og uppbygging iðnaðarsvæðis á Bakka

202006172

Á 336. fundi byggðarráðs var bókað;
Stefnt er að því að leggja fyrir minnisblað á næsta fundi byggðarráðs um hvernig samstarfi Norðurþings og ríkisins verði háttað um þróun atvinnuuppbyggingar á Bakka.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að óska eftir því við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið að koma að fjármögnun þeirrar vinnu sem framundan er við þróun iðnarsvæðisins á Bakka. Í framhaldinu verður settur á fót vinnuhópur/verkefnastjórn sem skipaður verður hagaðilum atvinnuuppbyggingar svæðisins.

4.Björgunarskipið María Júlía BA 36 - Mögulegt samstarf við Byggðasafn Vestfjarða um að skipið verði gert upp á Húsavík

202009082

Aðilar sem áhuga hafa á því að fjölga uppbyggingarverkefnum er tengjast íslenskum eikarbátum hafa hvatt til þess að sveitarfélagið leggi verkefni lið, sem skapa myndi mikilvæg störf til næstu ára og sem treysta myndi enn betur þann þekkingargrunn og menningu sem byggð hefur verið upp í tengslum við íslenska eikarbáta hér á Húsavík á undangengum árum.

Eikarskipið María Júlía BA 36, er fornfrægt björgunarskip Landhelgisgæslunnar, byggt í Danmörku og var notað á árunum 1950-1969. Talið er að áhafnir Maríu Júlíu hafi komið að björgun allt að tvö þúsund manns á þeim árum er hún var í umsjá Landhelgisgæslunnar fyrir vestan. Áform Byggðasafns Vestfirðinga hafa verið þau að safna fjár til að gera skipið upp, en ekkert hefur orðið af því ennþá.

Sveitarstjóri hefur átt samtöl við forsvarsmenn skipsins fyrir vestan og er vilji aðila málsins að ná nú, með samtakamætti, saman um að koma Maríu Júlíu aftur í fyrra horf. Hugmyndin er sú að vinna verkefninu stuðnings ríksins sem taka þarf að sér meginþunga í fjármögnun verkefnisins, í bland við sjálfsaflafé.

Skipið yrði dregið til Húsavíkur og unnið yrði að enduruppbyggingu Maríu Júlíu í Húsavíkurslipp næstu ár. Að enduruppbyggingu lokinni yrði skipinu siglt aftur vestur til Ísafjarðar þar sem eigendur þess; Byggðasafn Vestfjarða, tæki á móti því og inni með til framtíðar á þeim grunni sem heimamenn vilja helst.

Þess er óskað að byggðarráð leggi til að sveitarfélagið setji sín lóð á vogarskálar þess að af verkefninu geti orðið, með því að vinna því brautargengi með samtölum við ríkið og aðra hagsmunaaðila sem að verkefninu kæmu.
Byggðarráð tekur jákvætt í verkefnið og samþykkir að leggja því lið á ofangreindum forsendum.

5.Loftbrú - lægri flugfargjöld fyrir íbúa landsbyggðarinnar

202009078

Þann 9. september sl. kynnti Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, nýtt fyrirkomulag í flugsamgöngum sem gefur íbúum á landsbyggðinni, með lögheimili fjarri höfuðborginni, kost á afsláttarkjörum sem nema 40% afslætti á allt að 6 flugleggjum á ári.

Byggðarráð Norðurþings vill koma á framfæri ánægju sinni með að Loftbrú er nú loks orðin að veruleika, og að þar með gefist íbúum landsbyggðanna kostur á lægri flugfargjöldum. Með þessu verkefni batnar aðgengi að mikilvægri þjónustu á höfuðborgarsvæðinu og eykur búsetugæði landsbyggðanna.

6.Fjárhagsáætlun Norðurþings 2021

202006044

Fyrir byggðarráði liggja drög að römmum til úthlutunar vegna fjárhagsáætlunar 2021.
Einnig er til umræðu rekstur málaflokka 05-Menningarmál, 07-Brunamál og almannavarnir, 13-Atvinnumál og 21-Sameiginlegur kostnaður.
Grímur Kárason slökkviliðsstjóri kemur á fund byggðarráðs og ræðir rekstur málaflokks 07-Brunamál og almannavarnir.
Byggðarráð þakkar Grími fyrir yfirferðina á rekstri málaflokks 07. Fjármálastjóri gerði grein fyrir stöðu rekstrar á öðrum málaflokkum sem til umræðu voru. Lagt fram til kynningar. Sveitarstjóra falið að ganga frá gerð fjárhagsramma og leggja fyrir byggðarráð á næsta fundi.

7.Aðgerðir Norðurþings í tengslum við COVID-19

202009043

Á 338. fundi byggðarráðs var bókað;
Byggðarráð felur sveitarstjóra að taka saman yfirlit yfir þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til, gildistíma þeirra og hvernig þær tilslakanir sem boðið var upp á voru nýttar. Einnig að lagt verði mat á kostnað við mögulega framlengingu þeirra eða nýjar aðgerðir.
Lagt fram til kynningar og vísað til frekari úrvinnslu á næsta fundi byggðarráðs.

8.Úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga og sérreglur sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta

202009069

Fyrir byggðarráði liggur bréf Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins varðandi úthlutun byggðakvóta.
Sú breyting hefur verið gerð á umsóknarferlinu frá fyrra ári að ekki er þörf á að sveitarstjórnir sæki sérstaklega um byggðakvóta heldur mun ráðuneytið tilkynna sveitarstjórnum hversu miklar aflaheimildir koma í hlut hvers byggðarlags sem undir þær falla þegar sú skipting liggur fyrir. Reiknað er með tilkynning úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2020/2021 verði send til sveitarstjórna fyrir lok októbermánaðar.

Vilji sveitarstjórn leggja til við ráðuneytið að sett verði sérstök skilyrði varðandi úthlutun byggðakvóta sveitarfélagsins eða einstakra byggðarlaga skal hún skila rökstuddum tillögum sínum til ráðuneytisins eigi síðar en 15. október 2020.
Sveitarstjóra er falið að senda inn ósk um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í sveitarfélaginu til samræmis við sérreglur fyrra árs.

Hjálmar Bogi leggur fram eftirfarandi tillögu:

"Undirritaður leggur til að sveitarfélagið hefji vinnu við að sækja um að fá úthlutuðum 500 tonnum af byggðakvóta fyrir Húsavík í 10 ár, sem felur í sér reglugerðarbreytingu. Byggðaráð samþykkti á fundi sínum þann 28. maí síðastliðinn að óska eftir úthlutun á sértækum byggðakvóta til Kópaskers fyrir fiskveiðiárið 2020/2021.
Greinargerð
Fiskveiðiárið 2014/2015 var 140 tonnum úthlutað sem byggðakvóta til Húsavíkur. En síðan þá hefur engum byggðakvóta verið úthlutað á Húsavík. Árinu áður var 210 tonnum úthlutað af byggðakvóta.
Árið 2014 hurfu um 60% af aflaheimildum á Húsavík með brotthvarfi Vísis hf. sem tók kvóta byggðalagsins í burtu. Það er mikilvægt að treysta innviði og undirstöðuatvinnuvegi í sveitarfélaginu.
Þegar er sértækum byggðakvóta og hefðbundnum byggðakvóta úthlutað á Raufarhöfn. Þá er mikilvægt að ná styrkja atvinnulíf á Kópaskeri með úthlutun á sérstækum byggðkvóta. Dregið hefur úr magni á hefðbundnum byggðakvóta til úthlutunar á Kópaskeri á undanförnum árum."

Tillagan er samþykkt samhljóða.

9.Staða persónuverndarmála 2020

202009044

Fyrir byggðarráði liggur til kynningar minnisblað persónuverndarteymis Norðurþings.
Lagt fram til kynningar.

10.Starfsmannamál Norðurþings

202009081

Fyrir byggðarráði liggur minnisblað fjármálastjóra um helstu ráðstafanir í starfsmannamálum í tengslum við upptöku Vinnustundar og jafnlaunavottun.
Sveitarstjóra er falið að vinna áfram að málum til samræmis við fyrirliggjandi minnisblað.

11.Stytting vinnuvikunnar

202009049

Fyrir byggðarráði liggja leiðbeiningar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi undirbúning á styttingu vinnuvikunnar í samræmi við kjarasamninga sem gerðir voru á árinu 2020.
Sveitarstjóra er falið að skipa svokallaðan vinnutímahóp og hefja vinnu við undirbúning á styttingu vinnuvikunnar.

12.Viðauki við fjárhagsáætlun 2020 - málaflokkur 13 - Atvinnumál

202009058

Fyrir byggðarráði liggur viðauki við fjárhagsáætlun 2020 vegna málaflokka 13-Atvinnumál og 00-Skatttekjur að fjárhæð 32.634.694. Til hækkunar útgjalda málaflokks 13-Atvinnumál eru 9.530.266 og til hækkunar á fasteignaskattstekjum eru 42.164.960.
Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi viðauka við fjárhagsáætlun að upphæð 32.634.694 kr., og vísar til afgreiðslu í sveitarstjórn.

13.Viðauki við fjárhagsáætlun 2020 - málaflokkur 05 - Menningarmál

202009086

Fyrir byggðarráði liggur viðauki við fjárhagsáætlun 2020 vegna málaflokka 05-Menningarmál að fjárhæð 350.452.
Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi viðauka við fjárhagsáætlun að upphæð 350.452 kr., og vísar til afgreiðslu í sveitarstjórn.

14.Dvalarheimili aldraðra Húsavík - fundargerðir 2020

202001119

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð stjórnar Dvalarheimilis aldraðra á Húsavík frá 19. ágúst sl.
Lagt fram til kynningar.

15.Styrkbeiðni vegna reksturs Aflsins 2021

202009007

Borist hefur styrktarbeiðni frá Aflinu, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, vegna rekstrarársins 2021.

Byggðarráð samþykkir að styrkja Aflið, samtök gegn kynferðis- og heimilsofbeldi um 100.000 kr.

16.Hverfisráð Öxarfjarðar 2019 - 2021

201908036

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð frá 20.2.2020 frá hverfisráði Öxarfjarðar. Fundargerðina gleymdist að senda inn á sínum tíma.
Lagt fram til kynningar.

17.Ársþing SSNE 2020

202009076

Boðað er til ársþing SSNE 2020 dagana 9. og 10. október nk. í Laugarborg, Eyjafjarðarsveit.
Lagt fram til kynningar.

18.Fjármálaráðstefna sveitarfélaga 2020

202009057

Boðað er til fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2020 dagana 1. og 2. október nk. Ráðstefnan verður rafræn að þessu sinni.
Lagt fram til kynningar.

19.Fundargerðir Samtaka orkusveitarfélaga 2020

202009077

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 42. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga frá 4. september sl.
Lagt fram til kynningar.

20.Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni)

202009048

Í samráðsgátt stjórnvalda er nú til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni).
Umsagnarfrestur er til 18. september nk.
Lagt fram.

21.Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða o.fl. (veiðistjórn grásleppu o.fl.)

202009047

Í samráðsgátt stjórnvalda er nú til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (veiðstjórn grásleppu o.fl.).
Umsagnarfrestur er til 18. september nk.
Lagt fram til kynningar.

22.Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (atvinnu- og byggðakvótar o.fl.)

202009110

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kynnir frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskiveiða (atvinnu og byggðakvótar o.fl.) Umsagnarfrestur er 04.09.2020?18.09.2020.

https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=2764
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 14:00.