Fara í efni

Tillaga um haf- og strandsvæðaskipulag fyrir Skjálfanda

Málsnúmer 202011116

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Norðurþings - 108. fundur - 01.12.2020

Helena Eydís leggur fram tillögu um að óskað verði eftir því við umhverfis- og auðlindaráðherra að hafin verði vinna við haf- og strandsvæðaskipulag fyrir Skjálfanda.
Til máls tóku; Helena, Hjálmar, Bergur og Hafrún.

Helena leggur fram eftirfarandi tillögu;
Árið 2018 voru sett lög um skipulag haf- og strandssvæða. Meðal markmiða laganna er að „skipulag veiti grundvöll fyrir fjölbreyttri nýtingu auðlinda haf- og strandsvæða sem byggist á heildarsýn á málefni hafsins, vistkerfisnálgun og vernd náttúru og menningarminja, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi; enn fremur taki skipulag mið af áhrifum vegna loftslagsbreytinga“.
Skjálfandi er búsvæði nytjastofna, sjávarspendýra, strand- og sjófugla og laxfiska. Flóinn hýsir náttúrufyrirbrigði af ýmsu tagi, neðan og ofan sjávarbotns, með ströndum og til fjalla. Á og við flóann er stunduð afar fjölbreytt nýting auðlinda hvort tveggja í atvinnu- eða afþreyingarskyni íbúa og gesta. Nefna má fiskveiðar, hvalaskoðun og fuglaskoðun. Við ströndina er landvinnsla á fiski, ferðaþjónusta, landfyllingar, hafnarmannvirki, netaveiðar, æðarvarp og rekaviður. Þá eru auðlindir til staðar sem hafa áður verið nýttar eða hafa verið hugmyndir um að nýta. Til dæmis hafa verið gerðar tilraunir með eldi á ostrum á flóanum. Komið hafa fram hugmyndir um vinnslu á olíu- og jarðgasi. Hval- og selveiðar voru stundaðar áður fyrr. Nýverið hafa svo komið fram hugmyndir um nýtingu á öðru sjávarfangi t.d. sjávargróðri.
Á undanförnum áratug hafa orðið umtalsverðar breytingar í sjávarútvegi á Húsavík og hyllir nú undir aukin umsvif við höfnina á ný. Ferðaþjónustu hefur vaxið fiskur um hrygg á hafnarsvæðinu en einnig í Flatey með viðkomu hvalaskoðunarbáta þar og í Tungulendingu með opnun gisti- og kaffihúss. Strandsiglingar eru hafnar á ný með aukinni umferð stórskipa og þá hefur skemmtiferðaskipum fjölgað á flóanum. Sem dæmi má nefna farþegaskip hafa verið 30-40 á undanförnum árum samanborið við 3-4 á fyrstu árum áratugarins. Flutningaskip voru sömuleiðis fá í upphafi 2. áratugar aldarinnar en eru síðastliðin ár rúmlega 60 á ári.
Fjölbreytt nýting flóans og aukin umferð skipa- og báta á undanförnum árum, áform um nýtingu auðlinda sem hingað til hafa ekki verið nýttar, auðlindir sem áhugi kann að verða á í framtíðinni að verði nýttar, kallar allt á að unnið verði skipulag fyrir Skjálfanda sem treystir grundvöll nytja sem þegar eru til staðar hvort sem er í atvinnuskyni eða annað og skapi rými fyrir nýjar nytjar með sjálfbærni að leiðarljósi.
Haf- og strandsvæðisskipulag er skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði á fjörðum og flóum utan staðarmarka sveitarfélaga þar sem sett er fram stefna og ákvarðanir stjórnvalda um framtíðarnýtingu og/eða vernd svæðisins. Skipulagsheimildir sveitarfélaga og réttur jarðeiganda sjávarjarða ná aðeins að netlögum eða 115 m út frá stórstraumsfjöruborði. Án skipulags haf- og strandsvæða hafa þeir sem búa umhverfis haf- og strandsvæði eins og Skjálfanda lítið um það að segja hvers konar nytjar eru stundaðar í nánast umhverfi sínu. Skipulag haf- og strandsvæða er unnið í samvinnu ríkis og sveitarfélaga sem liggja að viðkomandi strandsvæði. Undirrituð leggur til að sveitarfélagið Norðurþing óski eftir því við umhverfis-og auðlindaráðherra að á árinu 2021 verði hafin vinna við haf- og strandsvæðisskipulag fyrir Skjálfanda og það sett fram í viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015-2026 líkt og nú er fyrirhugað að verði gert við Eyjarfjörð eins og sjá í framangreindum viðauka sem er til kynningar og samráðs til 8. janúar næstkomandi.

Hjálmar leggur til að málið verði sent hreppsnefnd Tjörneshrepps og sveitarstjórn Þingeyjarsveitar.

Tillagan er samþykkt samhljóða.

Byggðarráð Norðurþings - 356. fundur - 11.03.2021

Fyrir byggðarráði liggur umsögn Skipulagsstofnunar um þær athugsemdir sem stofnuninni bárust við auglýsta tillögu, sbr. 7. mgr. 11. gr. skipulagslaga.
Norðurþing lagði til að í viðauka við Landskipulagsstefnu yrði mælt fyrir um að á árinu 2021 yrði hafin vinna við gerð strandsvæðisskipulags fyrir Skjálfanda.
Skipulagsstofnun hefur nú farið yfir umsagnir og mun gera tillögu til umhverfis- og auðlindaráðherra um að við grein 4.3.3 bætist tillaga um gerð strandsvæðisskipulags á Skjálfanda. Rök fyrir því koma fram í greinargerð við kafla 4.3.