Fara í efni

Fyrirspurn um framkvæmdir vegna endurnýjunar stofnlagnar hitaveitu í Reykjahverfi

Málsnúmer 202102085

Vakta málsnúmer

Orkuveita Húsavíkur ohf - 216. fundur - 18.02.2021

Atli Vigfússon, bóndi á Laxamýri óskar eftir upplýsingum um framgang verkefnis sem snýr að endurnýjun stofnlagnar hitaveitu í Reykjahverfi og hvenær fyrirhugað sé að ljúka þeirri framkvæmd. Núverandi hitastig hitaveituvatns er að sögn Alta ekki nægilegt og komi ekki til heitara vatn á næstunni er líklegt að ráðast þurfi í fjárfestingar á Laxamýri vegna kaupa og uppsetningar á búnaði til rafhitunar í tengslum við mjólkurframleiðslu.
Stjórn Orkuveitu Húsavíkur ohf. þakkar fyrir erindið.
Verkefni OH sem snýr að endurnýjun stofnlagnar hitaveitu í Reykjahverfi er af þeirri stærðargráðu að því hefur af hagkvæmniástæðum verið skipt niður á þrjú ár. 1. hluti framkvæmdar við verkefnið hófst vorið 2019 þegar endurnýjaðar voru stofnlagnir veitunnar frá Hveravöllum að bænum Þverá í Reykjahverfi og lauk þeim verkhluta að hausti sama ár. Skv. verkáætlun stóð til að framkvæmdum yrði fram haldið vorið 2020, en áður en til þess kom barst tilkynning frá einum landeigenda í Reykjahverfi sem varð til þess að framkvæmdir hafa verið settar á ís um ótiltekinn tíma. Í þeirri tilkynningu kom fram að umræddur landeigandi legðist alfarið gegn því að hreyft yrði við veitulögnum OH sem liggja í hans landi. Jafnframt var Orkuveitu Húsavíkur stefnt fyrir Héraðsdóm Norðurlands eystra til greiðslu 24,7 mkr. á grundvelli landleigu sem ákvörðuð hefur verið einhliða af landeiganda. Krafist er leigutekna vegna lagnastæðis OH sem verið hefur í umræddu landi frá árinu 1970 og reiknar stefnandi leigutekjur frá júní 1999. Þar til fundin hefur verið lausn á málinu munu framkvæmdir við endurnýjun stofnlagnar hitaveitu í Reykjahverfi liggja niðri og mun sú ákvörðun einnig hafa áhrif á framkvæmdir við veitutengingar sumarhúsa í Aðaldal.