Fara í efni

Gjástykkissvæðið - tillaga að breytingu friðlýsingarákvæðis

Málsnúmer 202102092

Vakta málsnúmer

Skipulags- og framkvæmdaráð - 91. fundur - 09.03.2021

Umhverfisstofnun kynnir tillögu að breytingu 4. gr. auglýsingar nr. 367/2020 um friðlýsingu Gjástykkissvæðisins. Núgildandi ákvæði 4. gr. tekur eingöngu til varmaafls en ekki raforkuframleiðslu. Tillagan felur í sér að óheimilt verði að veita leyfi tengt orkurannsóknum eða orkuvinnslu til virkjunar jarðvarma með uppsett rafafl 10 MW eða meira innan verndarsvæðsins.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings minnir á að innan Gjástykkis er iðnaðarsvæði IG1 skv. Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Fyrirhuguð breyting orðalags auglýsingar kemur í veg fyrir þá landnotkun sem áformuð er á svæðinu skv. svæðisskipulaginu. Iðnaðarsvæðið IG1 er innan Skútustaðahrepps. Almennt telur ráðið ekki heppilegt að hindra skynsamlega landnýtingu með friðlýsingum en gerir ekki athugasemd við þessa tilteknu breytingu þar sem áhrif hennar eru utan Norðurþings.

Undirritaður ítrekar fyrri afstöðu sína til núverandi friðlýsingar með eftirfarandi bókun.
Gjástykki er ríflega 110 km2 svæði sem nær frá landamerkjum Skútustaðahrepps í suðri norður að Kerlingahól í Kelduhverfi og er svæðið að mestu í Norðurþingi. Rannsóknir hafa leitt í ljós að jarðhitasvæði Gjástykkis er um 10 km2 að stærð og er sá hluti svæðisins í sveitafélögunum Norðurþingi, Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi. Helstu náttúruperlur svæðisins eru við Sandmúlann rétt sunnan Gjástykkis, svæðið norðan Hituhóla og Hrauná suðvestan við Hrútafjöll.
Undirritaður hefur verið andstæðingur þess að friðlýsa svæðið með þeim hætti sem gert hefur verið. Skynsamlegt er að sveitarfélögin sem um ræðir beiti Hverfisverndar ákvæði í aðalskipulagi og haldi þar með í skipulagsvald sitt.
Rétt er að benda á að við afmörkun orkuvinnslusvæða í svæðisskipulaginu á sínum tíma var kappkostað að forðast rask nálægt þessum náttúruperlum og sveitafélögin á svæðinu voru sammála um að aðeins mætti nýta 2% (2 km2 ) af þessu víðfeðma svæði til orkuvinnslu. Því hefur verið lagt til að stærsti hluti svæðisins verið friðlýstur í svæðisskipulagi. Helmingur orkuvinnslusvæðisins eða um 1 km2 er á nýjum hraunum sem runnu í Kröflueldum 1975-1984. Þessi hraun þekja samtals um 36 km2 og nær orkuvinnslusvæðið því einungis yfir tæp 3% af nýju hraununum.
Bergur Elías Ágústsson