Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

91. fundur 09. mars 2021 kl. 13:00 - 14:40 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Silja Jóhannesdóttir formaður
  • Kristinn Jóhann Lund varaformaður
  • Bergur Elías Ágústsson aðalmaður
  • Kristján Friðrik Sigurðsson aðalmaður
  • Nanna Steina Höskuldsdóttir varamaður
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Gunnar Hrafn Gunnarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
  • Þórir Örn Gunnarsson hafnarstjóri
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
  • Ketill Gauti Árnason starfsmaður í stjórnsýslu
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir þjónustu- og skjalafulltrúi
Dagskrá
Þórir Örn Gunnarsson hafnastjóri sat fundinn undir liðum 1-3.
Gunnar Hrafn Gunnarsson framkvæmda- og þjónustufulltrúi sat fundinn undir liðum 6-9.
Ketill Gauti Árnason verkefnastjóri sat fundinn undir liðum 8-9.

1.Verklagsreglur við ritun fundargerða og birtingu fylgiskjala á vefnum

Málsnúmer 202004024Vakta málsnúmer

Skipulags- og framkvæmdaráð hefur til kynningar nýjar verklagsreglur við ritun fundargerða og birtingu fylgiskjala á vef Norðurþings. Reglurnar voru staðfestar á 110. fundi sveitarstjórnar Norðurþings.
Lagt fram til kynningar.

2.Hafnasamband Íslands - Fundargerðir 2021

Málsnúmer 202101143Vakta málsnúmer

432. fundargerð Hafnasambands Íslands lögð fram.
Lagt fram til kynningar.

3.Umhverfis- og auðlindaráðuneytið: Til umsagnar stefnur, lög og frumvörp 2021

Málsnúmer 202101056Vakta málsnúmer

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis: Til umsagnar frumvarp til laga um hafnalög (EES-reglur,gjaldtaka, rafræn vöktun), 509. mál. Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 9. mars nk. á netfangið nefndasvid@althingi.is
Þingskjalið er hægt að sækja á vef Alþingis: https://www.althingi.is/altext/151/s/0855.html



Lagt fram til kynningar.

4.Deiliskipulag fyrir Pálsgarð og Útgarð

Málsnúmer 202009067Vakta málsnúmer

Fyrir liggur breytt tillaga að deiliskipulagi fyrir Pálsgarð og Útgarð sem unnin er í ljósi afgreiðslu sveitarstjórnar á 110. fundi. Þær breytingar hafa verið gerðar frá fyrri tillögu að nú er gert ráð fyrir að aðgengi að bílakjallara að Útgarði 2 verði frá Pálsgarði. Ennfremur verði byggingarreitur bílakjallara Útgarðs 2 rýmkaður til suðurs og lóðin að Pálsgarði 1 skert bæði austanvert og norðanvert til samræmis.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að láta gera eftirfarandi breytingar á skipulagsuppdrættinum:

1) Lóðarmörkum milli Pálsgarðs 1 og Útgarðs 2 verði hnikað þannig að bílakjallari Útgarðs 2 verði alfarið innan lóðarinnar.
2) Skilgreind verði kvöð í deiliskipulagið um afnot Pálsgarðs 1 af 5 m breiðri lóðarræmu af Útgarði 2 norðan byggingarreits Pálsgarðs 1.
3) Fjarlægja þarf óþarfar línur úr deiliskipulagsuppdrættinum til að gera hann skýrari.
4) Á skipulagstillögu verði reiknað með að aðkoma að hvorum bílakjallara verði innan viðkomandi lóðar. Á hinn bóginn verði í skipulaginu opnað á heimild til að samnýta aðkomurampa ef lóðarhöfum hugnast.
5) Hæð loftaplötu bílakjallara K2 verði ekki yfir botnplötu Pálsgarðs 1.

Ráðið leggur til við sveitarstjórn að deiliskipulagstillagan með ofangreindum breytingum verði kynnt skv. ákvæðum skipulagslaga.

Ráðið leggur til að Betraisland.is verði nýtt til að kynna deiliskipulagstillöguna auk hefðbundnari miðla og að skipulags- og byggingarfulltrúa sé falið að útfæra það.

5.Umsókn um takmarkaða efnistöku úr námi í landi Skóga 3

Málsnúmer 202103028Vakta málsnúmer

Höfðavélar ehf, fyrir hönd Rosa ehf, óska heimildar til takmarkaðrar malarefnistöku í landi Skóga 3 í Reykjahverfi. Fyrirhugað efnistökusvæði er í túni vestan þjóðvegar nr. 87, til móts við íbúðarhús og útihús Skóga 3 eins og nánar er sýnt á uppdrætti sem unnin er af Faglausn ehf. Í erindi kemur fram að ekki séu skráðar fornminjar á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði og þar hvorki mikilvæg búsvæði fágætra fugla né plantna. Fyrirhuguð efnistaka er 28.000 m3 á 2,5 ha svæði. Í erindi kemur fram að landeigandi horfir til þess að svæðið verði til lengri tíma uppbyggingarsvæði og ætlunin að koma sjónarmiðum þar að lútandi að við næstu endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins.
Skipulags- og framkvæmdaráð óskar umsagnar Minjaverndar, Náttúruverndarnefndar Þingeyinga og Hverfisráðs Reykjahverfis áður en afstaða er tekin til erindisins.

6.Gjástykkissvæðið - tillaga að breytingu friðlýsingarákvæðis

Málsnúmer 202102092Vakta málsnúmer

Umhverfisstofnun kynnir tillögu að breytingu 4. gr. auglýsingar nr. 367/2020 um friðlýsingu Gjástykkissvæðisins. Núgildandi ákvæði 4. gr. tekur eingöngu til varmaafls en ekki raforkuframleiðslu. Tillagan felur í sér að óheimilt verði að veita leyfi tengt orkurannsóknum eða orkuvinnslu til virkjunar jarðvarma með uppsett rafafl 10 MW eða meira innan verndarsvæðsins.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings minnir á að innan Gjástykkis er iðnaðarsvæði IG1 skv. Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Fyrirhuguð breyting orðalags auglýsingar kemur í veg fyrir þá landnotkun sem áformuð er á svæðinu skv. svæðisskipulaginu. Iðnaðarsvæðið IG1 er innan Skútustaðahrepps. Almennt telur ráðið ekki heppilegt að hindra skynsamlega landnýtingu með friðlýsingum en gerir ekki athugasemd við þessa tilteknu breytingu þar sem áhrif hennar eru utan Norðurþings.

Undirritaður ítrekar fyrri afstöðu sína til núverandi friðlýsingar með eftirfarandi bókun.
Gjástykki er ríflega 110 km2 svæði sem nær frá landamerkjum Skútustaðahrepps í suðri norður að Kerlingahól í Kelduhverfi og er svæðið að mestu í Norðurþingi. Rannsóknir hafa leitt í ljós að jarðhitasvæði Gjástykkis er um 10 km2 að stærð og er sá hluti svæðisins í sveitafélögunum Norðurþingi, Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi. Helstu náttúruperlur svæðisins eru við Sandmúlann rétt sunnan Gjástykkis, svæðið norðan Hituhóla og Hrauná suðvestan við Hrútafjöll.
Undirritaður hefur verið andstæðingur þess að friðlýsa svæðið með þeim hætti sem gert hefur verið. Skynsamlegt er að sveitarfélögin sem um ræðir beiti Hverfisverndar ákvæði í aðalskipulagi og haldi þar með í skipulagsvald sitt.
Rétt er að benda á að við afmörkun orkuvinnslusvæða í svæðisskipulaginu á sínum tíma var kappkostað að forðast rask nálægt þessum náttúruperlum og sveitafélögin á svæðinu voru sammála um að aðeins mætti nýta 2% (2 km2 ) af þessu víðfeðma svæði til orkuvinnslu. Því hefur verið lagt til að stærsti hluti svæðisins verið friðlýstur í svæðisskipulagi. Helmingur orkuvinnslusvæðisins eða um 1 km2 er á nýjum hraunum sem runnu í Kröflueldum 1975-1984. Þessi hraun þekja samtals um 36 km2 og nær orkuvinnslusvæðið því einungis yfir tæp 3% af nýju hraununum.
Bergur Elías Ágústsson

7.Ástand vega innan þéttbýlis á Raufarhöfn

Málsnúmer 202103009Vakta málsnúmer

Fyrir liggja upplýsingar frá bæjarverkstjóra á Raufarhöfn varðandi ástand einstakra vegtenginga innan þéttbýlis á Raufarhöfn, en um nokkurt skeið hefur verið kallað eftir skýrari mörkum skipulags innan þéttbýlis úr þeirri átt. Aðkallandi er að ráðist verði í skipulagsvinnu innan þéttbýlis á Raufarhöfn m.t.t. þeirra þátta sem bæjarverkstjóri þar kallar eftir og í samstarfi við hann svo mögulegt verði að skýra þau mál til framtíðar.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gera tillögu að lóðarmörkum í kringum húseignir GPG. Ráðið tekur undir að ástand einstakra vegtenginga innan þéttbýlis sé ábótavant.

8.Framkvæmdasjóður ferðamannastaða - umsóknir.

Málsnúmer 202010022Vakta málsnúmer

Tilkynnt er um úthlutun styrks að upphæð kr. 23.100.000 úr Framkvæmdasjóði Ferðamannastaða vegna umsókna Norðurþings til uppbyggingar áfangastaða austan Tjörness.
Lagt fram til kynningar.

9.Aðgangsstýring í Borgarhólsskóla

Málsnúmer 202103042Vakta málsnúmer

Skólastjóri Borgarhólsskóla ítrekar beiðni sína á uppsetningu aðgangsstýrikerfis við innganga Borgarhólsskóla.
Á 7. fundi Skipulags- og framkvæmdaráðs var bókað að ráðist yrði í framkvæmdir við uppsetningu slíks kerfis innan skamms tíma.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að vinna kostnaðaráætlun og leggja fyrir ráðið sem fyrst.

Fundi slitið - kl. 14:40.