Fara í efni

Umsókn um takmarkaða efnistöku úr námi í landi Skóga 3

Málsnúmer 202103028

Vakta málsnúmer

Skipulags- og framkvæmdaráð - 91. fundur - 09.03.2021

Höfðavélar ehf, fyrir hönd Rosa ehf, óska heimildar til takmarkaðrar malarefnistöku í landi Skóga 3 í Reykjahverfi. Fyrirhugað efnistökusvæði er í túni vestan þjóðvegar nr. 87, til móts við íbúðarhús og útihús Skóga 3 eins og nánar er sýnt á uppdrætti sem unnin er af Faglausn ehf. Í erindi kemur fram að ekki séu skráðar fornminjar á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði og þar hvorki mikilvæg búsvæði fágætra fugla né plantna. Fyrirhuguð efnistaka er 28.000 m3 á 2,5 ha svæði. Í erindi kemur fram að landeigandi horfir til þess að svæðið verði til lengri tíma uppbyggingarsvæði og ætlunin að koma sjónarmiðum þar að lútandi að við næstu endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins.
Skipulags- og framkvæmdaráð óskar umsagnar Minjaverndar, Náttúruverndarnefndar Þingeyinga og Hverfisráðs Reykjahverfis áður en afstaða er tekin til erindisins.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 93. fundur - 30.03.2021

Á fundi sínum þann 9. mars s.l. fjallaði skipulags- og framkvæmdaráð um ósk Höfðavéla ehf f.h. Rosa ehf um heimild til takmarkaðrar efnistöku í landi Skóga 3 í Reykjahverfi. Skipulags- og framkvæmdaráð óskaði umsagnar Hverfisráðs Reykjahverfis, Minjastofnunar og Náttúruverndarnefndar þingeyinga um erindið áður en afstaða væri tekin til þess. Nú hafa umsagnir þessara þriggja aðila borist.
1. Hverfisráð fjallaði um málið á fundi 16. mars s.l. Ráðið lýsir yfir skilningi á því að landeigendur nýti gæði eigin lands en hvetur til þess að fylgt verði lögum og reglum og að gengið verði frá svæðinu til samræmis við umsókn.
2. Minjastofnun Íslands sendi umsögn í svarbréfi dags. 19. mars s.l. Minjastofnun gerir ekki athugasemd framkvæmdirnar en gerir hinsvegar athugasemd við að framkvæmdir voru hafnar þegar minjavörður skoðaði svæðið.
3. Náttúruverndarnefnd Þingeyinga kom frá sér athugasemdum með bréfi dags. 24. mars s.l. Nefndin bendir á að ekki liggur ljóst fyrir hvort og þá hvenær verður tekið meira efni úr námunni en beðið er um á þessu stigi. Nefndin telur að ekki sé gerð fullnægjandi grein fyrir frágangi námunnar og túlkar sem svo að náma verði opin til lengri tíma. Óljóst sé hvaða áhrif efnistaka muni hafa á grunnvatnsstreymi og bendir á að náman sé í 400 m fjarlægð frá Mýrarkvísl. Laus jarðvegur geti fokið yfir nærliggjandi svæði. Nefndin telur eðlilegt að námusvæðið verði deiliskipulagt áður en að efnistöku kemur.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar umsagnir. Ráðið tekur undir sjónarmið um að óheppilegt sé að framkvæmdir við efnistöku séu komnar af stað án fullnægjandi leyfa. Skv. lögum um umhverfismat framkvæmda nr. 106/2000 fellur efnistaka allt að 50.000 m3 af efni á allt að 25.000 m² svæði undir C-flokk 1. viðauka. Skipulags- og framkvæmdaráð telur að umhverfisáhrif fyrirhugaðrar efnistöku við Skóga 3 verði óveruleg í ljósi þess að röskunarsvæði er alfarið í túni þar sem ekki er að vænta sjaldgæfra plantna eða fugla. Veigamestu umhverfisáhrifin munu að líkindum felast í rykmengun frá efnistökunni og sjónmengun frá þjóðvegi og næstu íbúðarhúsum. Skv. erindi er ætlunin að nýta moldarjarðveg ofan af efnistökusvæðinu til að byggja upp mön til að draga úr sjónrænum áhrifum framkvæmdarinnar. Á grundvelli ofanritaðs telur ráðið ekki tilefni til þess að kalla eftir formlegu mati á umhverfisáhrifum vegna efnistökunnar. Í kafla 23.14 í greinargerð aðalskipulags er fjallað um efnistöku af þessu tagi. Þar er þess sérstaklega getið að efnistaka kalli almennt ekki á gerð deiliskipulag heldur sé unnt að gera fullnægjandi grein fyrir efnistökuframkvæmdum í gögnum umsóknar. Skipulags- og framkvæmdaráð fellst á fyrirhugaða efnistöku. Skilyrði leyfisins felast í því að manir úr ofanafýtingarefni verði græddar upp eins fljótt og auðið er til að minnka rykmengun sem kostur er. Skipulags- og framkvæmdaráð mun færa efnistökusvæðið inn í aðalskipulag við næstu uppfærslu skipulagsins.