Fara í efni

Lýðheilsuverkefni eldriborgara

Málsnúmer 202104146

Vakta málsnúmer

Fjölskylduráð - 90. fundur - 03.05.2021

Stjórn félags eldri borgara á Húsavík kemur á fund ráðsins en félaginu langar að koma á fót lýðheilsuverkefni í samstarfi við HSN og Félagsþjónustu Norðurþings. Tilgangur verkefnisins er að efla og viðhalda styrk og færni aldraðra við daglegt líf með skipulegri þjálfun og hreyfingu undir stjórn fagaðila og kynna þeim áhrif hreyfingar á heilsu. Leitað yrði einnig til félagasamtaka til að styrkja verkefnið og þátttökugjald yrði fyrir hvern þátttakanda sem hver þátttakandi greiðir sjálfur.

Kostnaður Norðurþings er í kringum 3.000.000 krónur. Félag eldri borgara óskar eftir því að Norðurþing styðji við verkefnið með þessum hætti svo það geti orðið að raunveruleika.
Fjölskylduráð þakkar fulltrúum félags eldri borgara á Húsavík fyrir komuna og kynningu á Lýðheilsuverkefni eldri borgara.

Ráðið felur félagsmálastjóra og íþrótta- og tómstundafulltrúa að skoða frekari útfærslu á hugmynd félags eldri borgara m.t.t. þátttöku sveitarfélagsins og kostnað sem er enn óljós.

Ljóst er að fari verkefnið sem slíkt af stað með aðkomu Norðurþings þá mun það ná til allra eldri borgara í Norðurþingi.

Fjölskylduráð - 94. fundur - 21.06.2021

Félag eldri borgara kynnti sértækt lýðheilsuverkefni í apríl fyrir fjölskylduráði. Fyrir ráðinu liggur að taka afstöðu til verkefnisins.
Fjölskylduráð sér ekki fært að fara í verkefnið að svo stöddu þar sem ekki er gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun 2021.
Ýmislegt er í boði sem eflir lýðheilsu eldri borgara á Húsavík. Í Hlyn hefur félögum eldri borgara staðið til boða Yoga tímar einu sinni í viku og göngutúrar eru hluti af dagskrá Félags eldri borgara á Húsavík. Sund Zumba námskeið hefur einnig staðið til boða. Sjúkraþjálfun Húsavíkur hefur staðið fyrir leikfimi fyrir eldri borgara. Þeim sem njóta félagslegrar heimaþjónustu stendur til boða hreyfitími einu sinni í viku á Hvammi undir leiðsögn sjúrkraþjálfara. Boccia er einnig í boði fyrir eldri borgara.
Ráðið hvetur Félag eldri borgara til að nýta styrkinn sem þeim var úthlutað vegna Covid-19 til að efla starfið enn frekar.


Hrund leggur fram eftirfarandi bókun:
Samkvæmt lögum um málefni aldraðra nr 125/1999 eru meginmarkmiðin þau að aldraðir geti búið eins lengi og unnt er við eðlilegt heimilislíf en jafnframt sé tryggð nauðsynleg stofnanaþjónusta þegar þess gerist þörf. Það er því bæði samfélagslega og þjóðhagslega hagkvæmt að heilsa eldri borgara sé þannig að þeir geti verið sem lengst sjálfstæðir í sinni búsetu. Til þess að svo megi verða er grundvallaratriði að forvarnir séu efldar þannig að aldraðir geti með markvissum hætti tekið þátt í lýðheilsuverkefnum sem eflir líkamlega færni þeirra. Undirrituð tekur undir óskir Félags eldri borgara um aðkomu sveitarfélagsins að lýðheilsuverkefni því sem um ræðir sem myndi þá ná til eldri borgara í sveitarfélaginu öllu.
Hrund Ásgeirsdóttir B lista.