Fara í efni

Fyrirspurn um matsskyldu framkvæmdar vegna stórþaravinnslu

Málsnúmer 202203037

Vakta málsnúmer

Skipulags- og framkvæmdaráð - 122. fundur - 22.03.2022

Skipulagsstofnun óskar umsagnar Norðurþings um uppbyggingu á Húsavík eða Dalvík vegna fyrirhugaðrar framleiðslu algínata, sellulósa og þaramjöls úr stórþara. Fyrir liggur fyrirspurn/greinargerð Íslandsþara til Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, dags. mars 2022. Fyrirhuguð framkvæmd felst í uppbyggingu 4.000-6.000 m² húsnæðis á hafnarsvæði til vinnslu á stórþara. Reiknað er með að unnið verði úr um 40.000 tonnum af stórþara árlega eftir að verksmiðja er komin í fullan rekstur 2027. Við fulla framleiðslu er gert ráð fyrir allt að 100 störfum, þar af 85 á landi og 15 tengdum söfnun hráefnis úr sjó. Á Húsavík er horft til tveggja mögulegra staðsetninga, annarsvegar fyrirliggjandi landfyllingar sunnan hafnarsvæðis (A3) og hinsvegar fyrirliggjandi landfyllingar innan norðurhafnar (H2). Ekki er gert ráð fyrir umtalsverðri hávaðamengun vegna starfseminnar í ljósi þess að vinnslan fer öll fram innanhúss. Starfsemin er talin hafa lítil sem engin áhrif á lyktarmengun þar sem ávallt verði unnið með ferskt hráefni og útgufa frá vinnslunni verður nánast hrein með óverulegri lykt. Á Húsavík yrði fyrirhuguð uppbygging á nýlegum nánast gróðurvana landfyllingum, þar sem ekki yrði um að ræða röskun náttúrulegs kjörlendis, dýralífs eða fornleifa.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings telur að framkvæmdinni, umhverfi hennar, umhverfisáhrifum og mótvægisaðgerðum sé lýst á fullnægjandi hátt í greinargerð. Þær tvær lóðir sem til greina koma á Húsavík eru á fyrirliggjandi landfyllingum og innan svæða sem deiliskipulögð hafa verið. Eins og fram kemur í greinargerð mun þurfa að gera breytingar á deiliskipulagi vegna uppbyggingar á Húsavík, hvor lóðin sem valin yrði. Breytingar fælust í sameiningu óbyggðra athafnalóða og heimildar til að byggja stærra og hærra atvinnuhúsnæði en gildandi deiliskipulög heimila. Uppbygging væri háð framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi af hálfu sveitarfélagsins.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 125. fundur - 03.05.2022

Skipulagsstofnun hefur tilkynnt um ákvörðun, dags. 29. apríl 2022, vegna matsskyldu fyrirhugaðrar uppbyggingar stórþaraverksmiðju á Húsavík eða Dalvík. Niðurstaða stofnunarinnar er sú að framkvæmdin sé ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind eru í 2. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Tilkynning Skipulagsstofnunar lögð fram.