Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

122. fundur 22. mars 2022 kl. 13:00 - 15:45 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Benóný Valur Jakobsson formaður
  • Kristinn Jóhann Lund varaformaður
  • Eysteinn Heiðar Kristjánsson aðalmaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason aðalmaður
  • Kristján Friðrik Sigurðsson áheyrnarfulltrúi
  • Nanna Steina Höskuldsdóttir varamaður
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
  • Jónas Hreiðar Einarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
  • Ketill Gauti Árnason starfsmaður í stjórnsýslu
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir þjónustu- og skjalafulltrúi
Dagskrá
Ketill Gauti Árnason verkefnastjóri á framkvæmdasviði sat fundinn undir liðum 1-2.

Eysteinn Heiðar Kristjánsson fór af fundi kl. 14:45.
Nanna Steina Höskuldsdóttir fór af fundi kl. 15:05.

1.Viðhald á Garðarsbraut 79-83

Málsnúmer 202203094Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráð liggja fundargerðir tveggja húsfélaga ásamt tilboðum í nauðsynlegt viðhald á Garðarsbraut 79 - 83. Norðurþing á 6 félagslegar íbúðir í húsnæðinu sem staðsettar eru í stigagöngum Garðarsbraut 81 og 83.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að fara í fyrirliggjandi framkvæmdir á Garðarsbraut 79-83 og einnig samþykkir ráðið að húsfélögin að Garðarsbraut 81 og 83 fjármagni framkvæmdina með lántöku.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að ganga frá málinu fyrir hönd Norðurþings.

2.Breytingar á samkomulagi Norðurþings og Skjálftafélagsins um rekstur Skjálftasetursins á Kópaskeri

Málsnúmer 202103147Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur kostnaðaráætlun og magnskrá í nauðsynlegt viðhald á Akurgerði 4, Skólahúsinu á Kópaskeri.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að afla frekari útboðsgagna og bjóða fyrsta áfanga verksins út að því loknu og leggja fyrir ráðið.

3.Rafhleðslustöðvar á Kópaskeri og Raufarhöfn

Málsnúmer 202201087Vakta málsnúmer

Á 117. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs vísaði ráðið málinu til hverfisráða Öxarfjarðar og Raufarhafnar, til umsagnar og liggja þær umsagnir nú fyrir ráðinu.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að skoðað verði að setja rafhleðslustöðvar
upp í samræmi við ábendingar hverfisráða.

4.Ósk um stuðning með umsókn um styrk til Fasteignasjóðs jöfnunarsjóðs sveitarfélaga

Málsnúmer 202109039Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur til kynningar niðurstaða umsóknar Norðurþings og Sóknarnefndar Húsavíkurkirkju um framlag úr Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs Sveitarfélaga.
Lagt fram til kynningar.

5.Eignarhald á landskika sunnan Þorvaldsstaðaár

Málsnúmer 202201068Vakta málsnúmer

Halldór Tumi Ólason og Jón Hallmar Stefánsson, f.h. Halldórs og Hallgríms Valdimarssona ítreka óskir fyrra bréfs vegna landskika sunnan Þorvaldsstaðaár. Þeir telja að í svari sveitarfélagsins frá 18. febrúar felist misskilningur.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur bréf skipulags- og byggingarfulltrúa frá 18. febrúar s.l. alveg skýrt hvað varðar sjónarmið sveitarfélagsins og sér þar engan misskilning í málinu af hálfu sveitarfélagsins.

1. Umrædd landspilda var leigð Jóhannesi Guðnasyni út úr landi Húsavíkur 1929 og skilmálar samnings milli aðila skýrir. Þessu landi hefur aldrei verið afsalað úr landi Húsavíkur og er því í eigu sveitarfélagsins á grunni eignarheimildar frá 1913. Sveitarfélagið hafnar því alfarið eignarhaldi Halldórs og Hallgríms að þessu landi.

2. Sveitarfélaginu er ekki mikilvægt að hnitsetja túnlóðir sem teiknaðar voru á uppdrætti snemma á síðustu öld. Áhugasamir um slík verkefni vinni þau á sinn kostnað.

3. Halldór Valdimarsson hefur greitt hóflega leigu af landi sem hann hefur fengið til afnota af sveitarfélaginu skv. undirrituðum samningi milli aðila sem er að grunni til frá 2009. Leigufjárhæð er til samræmis við aðra sambærilega leigusamninga og ráðið fær ekki séð að tilefni sé til endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar, enda hefur Halldór haft afnot af landinu þennan tíma.

6.Vatnajökulsþjóðgarður óskar eftir heimild til framkvæmdar göngustígs

Málsnúmer 202203051Vakta málsnúmer

Vatnajökulsþjóðgarður óskar heimildar til að gera göngustíg frá Gljúfrastofu að tjaldstæði í Ásbyrgi. Teikningar af stígnum eru unnar af Landmótun og innifela grunnmynd og kennisnið. Leigusamningur milli Golflúbbsins Gljúfra og Vatnajökulsþjóðgarðs liggur fyrir og í honum gert ráð fyrir að viðkomandi göngustígur verði lagður. Í gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir stíg um svæðið en ný hönnun víkur nokkuð frá fyrri hugmyndum.
Skipulags- og framkvæmdaráð heimilar skipulags- og byggingarfulltrúa að veita leyfi til gerðar göngustígsins.

7.CrowdThermal og samfélagsgróðurhús

Málsnúmer 201909081Vakta málsnúmer

Á 391. fundi byggðarráðs 17. mars, var eftirfarandi bókað: Byggðarráð samþykkkir að taka við gróðurhúsi og sjá um rekstur þess. Málinu vísað til nánari úrfærslu í samræmi við fyrirliggjandi minnnisblað til skipulags- og framkvæmdaráðs.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að afla frekari upplýsinga frá Eimi varðandi skipulag, kostnað og útfærslu.

8.Erindi frá Hraðið nýsköpunarmiðstöð

Málsnúmer 202112041Vakta málsnúmer

Á 391. fundi byggðarráðs var erindi frá Hraðinu vísað til kynningar í skipulags- og framkvæmdaráði.
Lagt fram til kynningar

9.Fyrirspurn um matsskyldu framkvæmdar vegna stórþaravinnslu

Málsnúmer 202203037Vakta málsnúmer

Skipulagsstofnun óskar umsagnar Norðurþings um uppbyggingu á Húsavík eða Dalvík vegna fyrirhugaðrar framleiðslu algínata, sellulósa og þaramjöls úr stórþara. Fyrir liggur fyrirspurn/greinargerð Íslandsþara til Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, dags. mars 2022. Fyrirhuguð framkvæmd felst í uppbyggingu 4.000-6.000 m² húsnæðis á hafnarsvæði til vinnslu á stórþara. Reiknað er með að unnið verði úr um 40.000 tonnum af stórþara árlega eftir að verksmiðja er komin í fullan rekstur 2027. Við fulla framleiðslu er gert ráð fyrir allt að 100 störfum, þar af 85 á landi og 15 tengdum söfnun hráefnis úr sjó. Á Húsavík er horft til tveggja mögulegra staðsetninga, annarsvegar fyrirliggjandi landfyllingar sunnan hafnarsvæðis (A3) og hinsvegar fyrirliggjandi landfyllingar innan norðurhafnar (H2). Ekki er gert ráð fyrir umtalsverðri hávaðamengun vegna starfseminnar í ljósi þess að vinnslan fer öll fram innanhúss. Starfsemin er talin hafa lítil sem engin áhrif á lyktarmengun þar sem ávallt verði unnið með ferskt hráefni og útgufa frá vinnslunni verður nánast hrein með óverulegri lykt. Á Húsavík yrði fyrirhuguð uppbygging á nýlegum nánast gróðurvana landfyllingum, þar sem ekki yrði um að ræða röskun náttúrulegs kjörlendis, dýralífs eða fornleifa.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings telur að framkvæmdinni, umhverfi hennar, umhverfisáhrifum og mótvægisaðgerðum sé lýst á fullnægjandi hátt í greinargerð. Þær tvær lóðir sem til greina koma á Húsavík eru á fyrirliggjandi landfyllingum og innan svæða sem deiliskipulögð hafa verið. Eins og fram kemur í greinargerð mun þurfa að gera breytingar á deiliskipulagi vegna uppbyggingar á Húsavík, hvor lóðin sem valin yrði. Breytingar fælust í sameiningu óbyggðra athafnalóða og heimildar til að byggja stærra og hærra atvinnuhúsnæði en gildandi deiliskipulög heimila. Uppbygging væri háð framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi af hálfu sveitarfélagsins.

10.Leigufélagið Bríet sækir um lóð að Drafnargötu Kópaskeri

Málsnúmer 202203098Vakta málsnúmer

Leigufélagið Bríet ehf. óskar eftir því að tvær einbýlishúsalóðir að Drafnargötu 1 og 3 á Kópaskeri verði sameinaðar í eina og úthlutað til Leigufélagsins Bríetar ehf til uppbyggingar parhúss. Ennfremur er farið fram á að sveitarfélagið lækki eða felli niður gatnagerðargjöld af lóðum við Drafnargötu.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur ekki þörf á að sameina tvær lóðir til uppbyggingar parhúss heldur dugi að stækka fyrirliggjandi einbýlishúsalóð. Ráðið leggur til við sveitarstjórn að Leigufélaginu Bríeti ehf. verði boðin lóðin að Drafnargötu 1 til uppbyggingar parhúss. Skoðað verði í því samhengi hversu stóra lóð þarf undir byggingaráform umsækjanda og stærð lóðar látin ráðast af því. Úthlutun lóðarinnar verði með fyrirvara um að leyfi fáist til að byggja parhús á lóðinni. Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við byggðaráð og sveitarstjórn að veittur verði 100% afsláttur af lóðum við Drafnargötu að því tilskyldu að fokheldi bygginga og ásættanlegum frágangi lóða verði lokið fyrir árslok 2024.

11.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn vegna tækifærisleyfis

Málsnúmer 202203105Vakta málsnúmer

Sýslumaðurinn á Norðurlandi Eystra óskar umsagnar Norðurþings vegna fyrirhugaðrar Söngkeppni Framhaldsskólanna í Íþróttahöllinni á Húsavík 3. apríl nk.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að veita jákvæða umsögn um erindið.

12.Skipulagsmál - almenn umræða

Málsnúmer 202203096Vakta málsnúmer

Á fundi fóru fram almennar umræður um skipulagsmál á komandi misserum. Skipulags- og byggingarfulltrúi fór yfir þær áskoranir sem upp koma við endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins.
Umræður um skipulagsmál.

Fundi slitið - kl. 15:45.