Fara í efni

Drög að frumvarpi til laga um sýslumann

Málsnúmer 202207037

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Norðurþings - 402. fundur - 04.08.2022

Fyrir byggðarráði liggur að veita umsögn í samráðsgátt stjórnvalda vegna máls sem var birt var þann 13.07.2022, frumvarp til laga um sýslumann mál nr. 122/2022.
Byggðarráð vill þakka fyrir lengdan umsagnarfrest sem var mjög knappur í upphafi.
Byggðarráð Norðurþings vill koma á framfæri neðangreindri umsögn um frumvarp til laga um sýslumann mál nr. 122/2022, umsagnarfrestur er til 15.08.2022.

Vísað er til máls nr. 122/2022 í Samráðsgátt stjórnvalda um drög að frumvarpi til laga um sýslumann, sem birt var þann 13. júlí sl.

Byggðarráð Norðurþings tekur undir það sem kom fram í athugasemd við frumvarpið frá Sýslumannafélagi Íslands sem birtist 21.júlí sl. að um mikilvægt byggðamál sé að ræða og ljóst er að frumvarpið hefur mikil áhrif á réttindi og kjör starfsmanna sýslumanna, starfsemi embættanna og þjónustuna sem er veitt. Með þessu frumvarpi er óvissa uppi um það hver er framtíð starfa og starfsmanna hjá embættum sýslumanna um land allt hvað varðar þjónustuna sem þau veita. Skilgreina þarf hvaða verkefni verði hjá núverandi embættum og hvert verði þeirra hlutverk áður en frumvarpið verður afgreitt.
Ráðið bendir á að Alþingi samþykkti þann 15. júní 2022 þingsályktunartillögu innviðaráðherra um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2022-2026. Þar eru tilgreindar 44 aðgerðir sem skiptast þannig að 17 aðgerðir tengjast markmiði um að jafna aðgengi að þjónustu, 12 aðgerðir tengjast markmiði um að jafna tækifæri til atvinnu og loks tengjast 15 aðgerðir því markmiði að stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt. Samráð og samhæfing eru leiðarljós við mótun og framkvæmd byggðaáætlunar. Samhæfingin birtist meðal annars í nánu samráði við ábyrgðaraðila annarra málaflokka ríkisins þar sem leitað er leiða til að tengja byggðaáætlun sem mest við aðrar opinberar stefnur og áætlanir. Það er mat byggðarráðs að svo hafi ekki verið gert í frumvarpsdrögum.
Ráðið leggur ríka og mikla áherslu á að hagræðingin með fækkun sýslumannsembætta úr níu í eitt muni ekki leiða til fækkunar starfa eða verkefna á starfsstöðum sem eru til staðar nú þegar, þá sérstaklega ekki á landsbyggðinni. Ráðið fagnar þó að leitað verði tækifæra til aukins samstarfs við sveitarfélög til að bæta þjónustuna við íbúa þar sem þjónusta ríkisins skortir. Með aukinni áherslu á stafræna þjónustu verða einnig til möguleikar á að bjóða upp á aukið framboð opinberrar þjónustu undir sama þaki.