Fara í efni

Áform um stórþaravinnslu á Húsavík

Málsnúmer 202210059

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Norðurþings - 410. fundur - 20.10.2022

Fyrir byggðarráði liggur neðangreind tillaga:

Aldey Unnar Traustadóttir leggur fram eftirfarandi tillögu fyrir hönd V-lista:
Fyrir liggur að skiptar skoðanir eru meðal íbúa um áform um stórþaravinnslu og þurrkun í miðbæ Húsavíkur. Í ljósi þess að ekki stendur til að meta umhverfisáhrif af starfseminni er brýnt að sveitarfélagið Norðurþing beiti sér fyrir því að upplýsa íbúa um verkefnið.
Lagt er til að Norðurþing leiti til Náttúrustofu Norðausturlands um að taka saman hnitmiðaða greinargerð um stórþaratekju og -vinnslu almennt sem og helstu áhrifaþætti gagnvart vistkerfi Skjálfanda og nærliggjandi byggð á Húsavík. Tekin verði saman helstu álitamál út frá m.a. aðstæðum á strandsvæðum hér í nágrenninu, niðurstöðum rannsókna erlendis og möguleg umhverfisáhrif af slíkri vinnslu að hálfu óháðs aðila með þekkingu á því sviði. Þá verði heimildum safnað sem íbúar geta nýtt sér til að skoða frekar.
Þessum upplýsingum verði ekki ætlað að koma í stað umhverfismats, sem er verulega umfangsmeira að öllu leyti. Greinargerð af þessu tagi nýtist til að upplýsingar sem íbúar byggja afstöðu sína á verði ekki allar einhliða frá framkvæmdaraðila, en einnig liggi þær til grundvallar vinnu við aðalskipulag Norðurþings.
Kostnaður við verkefnið falli innan fjárheimilda við skipulagsvinnu. Óskað verði eftir því að greinargerðinni verði skilað fyrir 15. nóvember og kynnt á fundi framkvæmda- og skipulagsráðs og/eða byggðaráðs.
Aldey greiðir atkvæði með tillögunni.

Helena og Hjálmar Bogi greiða atkvæði gegn tillögunni

Hjálmar Bogi bókar eftirfarandi:
Íslandsþari er með fimm ára rannsóknar- og nýtingarleyfi undir eftirliti Hafrannsóknarstofnunar. Rannsóknir vegna þaratekju hófust sumarið 2022 og munu standa yfir næstu ár á áhrifum tekjunnar á lífríki á grunnsævi á fyrirhuguðum öflunarsvæðum. Rannsóknirnar eru undir stjórn Hafrannsóknastofnunar og ganga út á að sjálfbærnimarkmiðum og lífríki sé ekki ógnað. Þaratekja er ekki fyrirhuguð í Skjálfandaflóa sjálfum. Hér á svæðinu er tekjan fyrirhuguð austan Flateyjar og út af Tjörnesi. Stórþaratekja fer fram utan umráðasvæða sveitarfélaga og því ekki á forræði þeirra. Forræði á tekjunni er hjá ríkisvaldinu og því er verkefnið unnið í samstarfi við Hafrannsóknarstofnun. Leyfisveitingar, umhverfismat eða mat á umhverfisáhrifum hvers konar er því á forræði ríkisvaldsins.
Fyrirhugað er að halda íbúafund á Húsavík eftir miðjan nóvember til að kynna verkefnið og upplýsa íbúa um framgang þess. Í 2. gr. breytinga nr. 47/2017 á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar nr. 57/1996 var bætt svohljóðandi málsgrein við 10. gr. laganna: "Skipstjóri skips sem flytur sjávargróður, frá skipum sem afla hans úti á miðum, til löndunarhafnar skal halda aflanum sérgreindum þannig að færa megi aflann á rétt skip í aflaskráningarkerfi Fiskistofu." Því er ljóst að samhliða nýtingu stórþara næstu árin munu liggja fyrir gögn og upplýsingar til að vinna með. Byggðarráð hvetur því Hafrannsóknarstofnun til að fylgjast áfram með þaratekju á svæðinu og halda úti rannsóknum vegna þessa enda um fimm ára nýtingaleyfi að ræða að sinni. Eins og segir í reglugerð 90/2018, reglugerð um öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni. Ráðherra skal, eftir því sem ástæða er til, hafa viðvarandi könnun á því hvort ástæða sé til að skipta nýtingarsvæðum sjávargróðurs utan netlaga sjávarjarða í afmörkuð svæði eða reinar til að takmarka og vakta nýtinguna, sbr. 15. gr. b. í lögum um stjórn fiskveiða.

Benóný tekur undir bókun Hjálmars Boga.