Fara í efni

Ósk um framkvæmdaleyfi til að plægja niður jarðstreng í Kelduhverfi

Málsnúmer 202305085

Vakta málsnúmer

Skipulags- og framkvæmdaráð - 157. fundur - 23.05.2023

RARIK óskar framkvæmdaleyfis til að plægja háspennustrengi frá spennivirki við Lindarbrekku í Kelduhverfi, annarsvegar í tengipunkt við Víkingavatn og hinsvegar við Syðri-Bakka. Að strenglögn lokinni verður loftlína frá Lindarbrekku til Syðri-Bakka aflögð. Meðfylgjandi erindi er teikning sem sýnir fyrirhugaða legu strengja og upplýsingar um hvernig staðið verður að frágangi strengja.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur að sé vel að verki staðið verði rask af völdum plægingar jarðstrengja á þessum leiðum fljótt að gróa upp. Hinsvegar er lega strengja um þétt varplendi fugla að hluta til og einnig farið yfir gjöfula veiðiá. Mikilvægt er að ekki verði farið um varplendi fugla fyrr en varpi og umsýslu hreiðra er lokið.

Skipulags- og framkvæmdaráð fer fram á að RARIK skili inn til sveitarfélagsins samþykki landeigenda fyrir strenglögnum um lönd þeirra. Framkvæmdaaðili skal hafa samráð við Minjastofnun Íslands vegna framkvæmdanna og skili til skipulagsfulltrúa umsögn Minjastofnunar Íslands vegna legu strengjanna. Ennfremur telur ráðið að skuli skila til skipulagsfulltrúa umsögnum Veiðifélags Litluárvatna og Fiskistofu vegna þverunar Litluár. Ráðið felur hinsvegar skipulags- og byggingarfulltrúa að afla umsagna Umhverfisstofnunar og Náttúruverndarnefndar Þingeyinga um strenglagningar áður en afstaða er tekin til erindisins.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 165. fundur - 29.08.2023

RARIK ohf óskar framkvæmdaleyfis fyrir plægingu jarðstrengja í Kelduhverfi. Erindi RARIK var áður tekið fyrir á fundi ráðsins 23. maí. Þá óskaði ráðið eftir frekari gögnum og umsögnum. Nú liggja þau gögn fyrir.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur að rask vegna fyrirhugaðra framkvæmda hverfi fljótt. Ráðið telur að nú liggi fyrir fullnægjandi umsagnir og samþykki landeigenda og heimilar skipulags- og byggingarfulltrúa að veita RARIK leyfi til framkvæmdanna, enda verði leiðbeiningum Minjastofnunar, Umhverfisstofnunar og Fiskistofu um umgengni og frágang fylgt.