Fara í efni

Ósk um endurskoðun á virkjanakosti

Málsnúmer 202601046

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Norðurþings - 160. fundur - 22.01.2026

Undirrituð leggja til að sveitastjórn óski eftir því við verkefnastjórn rammaáætlunar að vindorkukostur á Hólaheiði/Hnotasteinn verði endurmetinn og færður úr biðflokki í nýtingarflokk.

Greinargerð

Vindorkukostur á Hólaheiði á jörðum Katastaða, Presthóla og Efri-Hóla hefur verið til skoðunar um nokkurt skeið. Umhverfismat og rannsóknir standa yfir. Í skýrslu starfshóps forsætisráðuneytis um atvinnumál á Húsavík og nágrenni er talið að orkukosturinn skili allt að 190MW. Verkefnið spilar stórt hlutverk þegar kemur að uppbyggingu á nýrri línu milli Kópaskers og Þórshafnar/Vopnafjarðar. Vindorkukosturinn styður við spennuhækkun Kópaskerslínu 1 - úr 66 kV í 132 kV, en slík spennuhækkun gerir kleift að mata um 150 MW frá Hnotasteini inn á línuna. Mögulegt væri jafnframt að mata allt að 70 MW til austurs frá Kópaskeri til Þórshafnar/Vopnafjarðar. Verkefnið getur haft mikil áhrif á byggðaþróun, raforkuöryggi og samkeppnishæfni Norðausturlands og er mikilvæg viðskiptaleg forsenda Landsnets í mati á arðsemi nýrrar flutningslínu frá Kópaskeri til Vopnafjarðar m.t.t. tengigjalda, innmötunar og flutnings raforku frá svæðinu.

Áki Hauksson
Benóný Valur Jakobsson
Eiður Péturson
Helena Eydís Ingólfsdóttir
Hjálmar Bogi Hafliðason
Kristinn Jóhann Lund
Soffía Gísladóttir
Til máls tóku: Hjálmar og Aldey,

Tillagan er samþykkt með atkvæðum Áka, Benóný, Eiðs, Helenu, Hjálmars, Kristins og Soffíu.

Aldey og Ingibjörg greiða atkvæði á móti og leggja fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar V listans mótmæla þeirri tillögu að óskað verði eftir því við verkefnastjórn rammaáætlunar að vindorkukostur á Hólaheiði/Hnotasteini verði færður úr biðflokki í nýtingarflokk.

Rammaáætlun er eitt mikilvægasta stjórntæki þjóðarinnar til að tryggja vandaða, gagnsæja og heildstæða ákvörðunartöku um nýtingu lands og náttúru. Biðflokkurinn er mikilvægur fyrir þá kosti sem enn skortir nægjanleg gögn eða þar sem umhverfisáhrif, samfélagsleg áhrif og langtímahagsmunir hafa ekki verið metnir til fulls. Að þrýsta einstökum kostum úr biðflokki yfir í nýtingarflokk áður en slík vinna liggur fyrir grefur undan trúverðugleika ferlisins og þeirri samfélagssátt sem rammaáætlun byggir á.

Vindorkuver á Hólaheiði er stórt inngrip í viðkvæmt og víðfeðmt landsvæði. Um er að ræða breytingu sem hefur áhrif á landslag, lífríki, upplifun og sjálfsmynd svæðisins til framtíðar. Slík ákvörðun verður ekki réttlætt eingöngu með tilvísun í aflgetu, flutningskerfi eða arðsemi fyrir orkufyrirtæki. Byggðaþróun, raforkuöryggi og atvinnuuppbygging eru mikilvæg markmið og þau verða að nást í sátt við náttúruvernd, varfærni og lýðræðislegt ferli.

Undirritaðar telja mikilvægt að Norðurþing standi vörð um rammaáætlun sem ferli, virði hlutverk biðflokksins og láti faglegt mat, ekki pólitískan þrýsting eða skammtímahagsmuni, ráða ferðinni. Sveitarfélagið á að vera rödd ábyrgðar, ekki flýtileiðar fram hjá vönduðu mati á áhrifum sem munu móta svæðið um ókomna tíð.

Aldey Unnar Traustadóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir