Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð - 98

Málsnúmer 2105008F

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Norðurþings - 114. fundur - 15.06.2021

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 98. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs.
Til máls tók undir lið 1 "Ósk um að bann verði lagt við netaveiðum á göngusilungi í sjó í Skjálfandaflóa"; Hjálmar Bogi.
Sveitarstjórn tekur undir bókun skipulags- og framkvæmdaráðs.
"Sveitarfélagið Norðurþing hafnar alfarið þeim málatilbúnaði sem lagður hefur verið fram af hálfu veiðifélaga á vatnasvæði Laxár í Aðaldal og erindi til Fiskistofu byggir á til grundvallar kröfu sömu veiðifélaga um bann við nýtingu Norðurþings á hlunnindum sem fylgja sjávarjörðum í eigu sveitarfélagsins og lögvarðar hafa verið með skýrum hætti af hálfu löggjafans.
Ekkert bendir til annars en að þær silungsveiðar sem stundaðar hafa verið fyrir landi Húsavíkur og byggja á þeim veiðiheimildum sem Norðurþing úthlutar árlega, séu bæði varfærnar og sjálfbærar, enda heimildir Norðurþings til úthlutunar veiðileyfanna bæði skýrar og óumdeildar og byggja á gildandi lögum um nýtingu hlunninda sjávarjarða.
Ljóst er að umrædd atlaga veiðifélags Laxár í Aðaldal og annarra sambærilegra er ekki sú fyrsta þar sem sótt er með jafn ómálefnalegum hætti að löglegri nýtingu hlunninda af hálfu eigenda sjávarjarða. Til rökstuðnings kröfu Norðurþings um frávísun málsins er horft til álits Umboðsmanns Alþingis (Mál nr. 4340/2005 og 4341/2005) þar sem til umfjöllunar eru stjórnvaldsákvarðanir í tengslum við takmarkanir á veiðum göngusilungs í sjó líkt og nú er kallað eftir af hálfu veiðifélags Laxár í Aðaldal að Fiskistofa beiti sér fyrir. Í því áliti gagnrýnir Umboðsmaður meðal annars þann sama skort á málefnalegum sjónarmiðum sem lögð eru til grundvallar stjórnvaldsákvörðun og nú er gert, en ekki síður að rannsóknarregla stjórnsýslulaga sé ekki að fullu virt, frekar en nú. Gagnrýni, álit og niðurstaða Umboðsmanns Alþingis í tengslum við þau mál virðist því í öllum aðalatriðum einnig eiga við í því máli sem hér um ræðir.
Verði málinu fram haldið á þeim forsendum sem lagt hefur verið upp með af hálfu veiðifélaganna og Fiskistofu, byggt á jafn einhliða, haldlitlum og illa ígrunduðum gögnum og raun ber vitni, sér sveitarfélagið Norðurþing sig knúið til þess að verjast málinu af fullum þunga."

Aðrir liðir fundargerðarinnar lagðir fram til kynningar.