Fara í efni

50 ár frá Kópaskersskjálftanum 13. janúar 1976

Í dag eru liðin 50 ár frá Kópaskersskjálftanum.
Bryndís Sigurðardóttir blaðakona tók saman þessa grein sem við birtum hér:

„Konur, börn og gamalmenni flutt í burtu“

Svona hljóðaði fyrirsögn á forsíðu Tímans þann 14. janúar 1976 og sömuleiðis tekið fram að flest hús á Kópaskeri, þessu litla þorpi sem liggur við ysta haf, væru skemmd. Ástæða þessa fólksflutninga var gríðarlegur jarðskjálfti, M6,5 að stærð, sem dunið hafði yfir þorpið daginn áður, þann 13. janúar kl. 13:30. Það er því bæði gömul saga og ný að náttúran hristir með harkalegum hætti upp í lífi mörlandans og að mörgu leyti má heyra samhljóm milli íbúa Kópaskers á þeim tíma og íbúum Grindavíkur í nútímanum. Skelfing og ótti en um leið ótrúleg útsjónarsemi, þrautseigja og harka.

Þessar hamfarir marka enn lífið í Norðurþingi þó nú séu liðin 50 ár og er íbúum sem þær upplifðu enn í fersku minni. Á Kópaskeri hefur um árabil verið safn þar sem fræðast má um skjálftann og afleiðingar hans, lengst af var safnið til húsa í hinu glæsilega og sérstaka húsi barnaskólans á Kópaskeri en hefur nú verið flutt í Byggðasafnið á Snartastöðum.

Það finnast sjálfsagt greinargóðar og ítarlegar rannsóknir á afleiðingum áfalla á börn en hér að neðan koma nokkrar beinar frásagnir þeirra sem voru börn 1976 en geta nú litið til baka, rifjað upp hvernig þeim varð við og hvernig hefur gengið að vinna úr afleiðingunum, ef einhverjar eru.

Mynd: Forsíða Tímans þann 14. janúar 1976

„Allir út, allir út“

Arna Ósk Arnbjörnsdóttir varð átta ára þremur dögum eftir skjálftann. Hér á eftir fer hennar frásögn um þau verkefni sem hún þurfti að takast á við á þessum örlagaríka degi og í kjölfar hans.

„Þann 13. janúar 1976 var ég stödd í Núpasveitarskóla sem nú er byggðasafn. Við yngri krakkarnir þurftum að bíða eftir þeim eldri meðan þau kláruðu skóladaginn og við þurftum þá að hafa ofan af fyrir okkur sjálf að mestu leyti. Við vorum tvær átta ára stelpur sem ákváðum að fara saman á klósettið, sem var pínulítið. Vinkona mín sat á klósettinu og ég stóð fyrir framan hana þegar allt byrjar að hristast og við heyrðum kennarann öskra á krakkana, “Allir út, allir út.” Ég reyndi hvað eftir annað að opna hurðina meðan ég kastaðist milli veggjanna en við komumst ekki út fyrr en skjálftinn var búinn og sú sem var með mér kom út með buxurnar á hælunum. Þegar við komum út man ég ósköp lítið þangað til að við lögðum af stað heim á Kópasker. Við vorum í Landrover jeppa og vegurinn var allur sprunginn nánast alla leiðina. Einn drengur sem átti heima uppi í Efri-Hólum þurfti að ganga dálítinn spöl heim því á leiðinni var gjá sem bíllinn komst ekki yfir.

Þegar heim var komið sat ég við eldhúsborðið og mamma sagði að ég hefði spurt í sífellu hvort almannavarnirnar kæmu ekki til að hjálpa okkur. Stuttu seinna sofnaði ég fram á borðið. Þarna vill ég meina að heilinn hafi ákveðið að slökkva á mér til að vernda mig fyrir áfallinu. Ég man líka að ég vissi ekki af hverju jörðin hreyfðist og hugsaði að það væri eitthvað dýr ofan í henni sem væri að hreyfa sig. Það voru líka búnir að vera skjálftar síðan um haustið, alltaf af og til.

Eftir þetta var ég ákaflega hrædd við öll hljóð, sérstaklega brak í húsinu og vindhljóð. Við systkinin, átta og fjögurra ára, sváfum upp í hjá foreldrum okkar það sem eftir var vetrar og ég fór ekki meira í skólann fyrr en um haustið.

Ég var mjög lengi að jafna mig á hræðslunni og gat til dæmis ekki sofnað nema hafa kveikt á tónlist alveg fram yfir tvítugt. Veðurhræðsla fylgdi mér mjög lengi líka og í óveðri sem gekk yfir Suðurnes 1992 fékk ég nánast taugaáfall og skalf eins og hrísla meðan það gekk yfir. Ég fæ auðveldlega innilokunarkennd, sérstaklega í bíl ef ég sit þétt milli fólks og sé illa út og mér er líka illa við mikinn troðning og forðast hann. Lyftur fór ég helst ekki í, lengi vel.

Þegar skjálftarnir voru á Suðurlandi kringum 2000 bjó ég í Garðinum á Suðurnesjum. Þá kom einn nokkuð snarpur upp úr miðnætti ef ég man rétt. Ég var alveg að sofna og mér leið eins og mér hefði verið hent aftur í tímann til Kópaskersskjálftans. Það var lítið um svefn það sem eftir var nætur. Ég fór í vinnu á leikskólanum og líðanin var þannig að ég hrökk við ef eitthvað hljóð heyrðist sem ég var ekki viss um hvað væri. Þarna náði ég að segja samstarfskonum mínum frá því sem ég hafði lent í sem barn og ég held að það hafi hjálpað eitthvað.

Auðvitað er mér alls ekki sama þegar ég finn jarðskjálfta en ég verð ekki lengur svona skelfingu lostin. Veðurhræðslan er einnig minni þó mér sé ekki vel við mikið rok. Ég hef líka velt því fyrir mér hvort kvíði og vefjagigt hjá mér sé mögulega afleiðing þessa áfalls."

Efri röð f.v.: Hulda Valdís Steinarsdóttir (Reistarnesi), María Hrönn Gunnarsdóttir (Klöppum), Anna Jóna Guðmundsdóttir (Nýhöfn), Kristmundur Jónsson (frá Keflavík), Jón Skúli Skúlason (Melum/Flúðum), Jón Árnason (Bakka), Björn Gunnarsson (Klöppum). Neðri röð f.v.: Rannveig Halldórsdóttir (Valþjófsstöðum), Kristjana Ólöf Sigurðardóttir (Snartarstöðum), Arndís Hálfdanardóttir (Hraunbrún), Kristveig Óladóttir (Skógum), Kristín Jónsdóttir (Ásgarði), Guðbjörg Alda Sigurðardóttir (Sigurðarstöðum).

Mynd tekin skólaárið 1975-1976.

Efri röð f.v.: Hulda Valdís Steinarsdóttir (Reistarnesi), María Hrönn Gunnarsdóttir (Klöppum), Anna Jóna Guðmundsdóttir (Nýhöfn), Kristmundur Jónsson (frá Keflavík), Jón Skúli Skúlason (Melum/Flúðum), Jón Árnason (Bakka), Björn Gunnarsson (Klöppum).
Neðri röð f.v.: Rannveig Halldórsdóttir (Valþjófsstöðum), Kristjana Ólöf Sigurðardóttir (Snartarstöðum), Arndís Hálfdanardóttir (Hraunbrún), Kristveig Óladóttir (Skógum), Kristín Jónsdóttir (Ásgarði), Guðbjörg Alda Sigurðardóttir (Sigurðarstöðum).

Átti eftir að fremja nokkur prakkarastrik

Eggert Marinósson var níu ára pjakkur þennan örlagaríka dag, sem er honum í fersku minni, en hér koma hans minningar um 13. janúar 1976.

„Ekki man ég hvernig það kom til en ég hafði verið í Laxárdal hjá ömmu og afa og kom með Gulla Indriða í Kaupfélagsbílnum og var því ekki í skólanum þennan dag. Í staðinn hafði mér verið sett fyrir að sitja við skrifborðið í herberginu mínu, í Akurgerði 5, til að stúdera heimanámið. Pabbi og mamma voru bæði í vinnunni, systkini mín í skólanum og ég því einn heima.

Eitthvað var ég seinn til að koma mér fyrir við skrifborðið, en sat þess lengur á bedda, sem var við annan vegg, þvert á skrifborðið. Sumir segja að þetta hafi verið sökum leti eða óþægðar, en ég er ekki alveg sannfærður. Ég man að við skrifborðið, sem var ansi voldugt, var rauður kollur og önnur hurðin á skrifborðinu var opin.

Á rúminu dinglaði ég fótunum af sjálfsdáðum þar til Kópaskersskjálftinn tók til við að dingla þeim óþarflega harkalega, sem og öllu húsinu. Það var meira en lítil upplifun að sjá bæði veggi og loft ganga í bylgjum, í óratíma og endalaust, að þessum 9 ára dreng fannst. Við vegginn, gegnt skrifborðinu, var stór fataskápur sem, í öllum látunum, féll á kollinn og hurðina og endaði svo á gólfinu þétt upp við skrifborðið. Það er til mynd af þessum aðstæðum.

Það hefði líklega ekki þurft að spyrja að leikslokum ef ég hefði setið við skrifborðið, eins og mér bar, en örlögin gripu þar í taumana og sennilega hafa mér verið ætluð fleiri prakkarastrik og góðverk en hægt er að komast yfir á liðlega níu árum.

Mér er einnig minnisstæð aðkoman í stofunni og í eldhúsinu þar sem ekkert var á sínum stað og skemmdir hlutir lágu eins og hráviði um öll gólf. Mig grunar nú að mamma og pabbi hafi bæði hlaupið hraðar en nokkru sinni áður frá vinnum sínum heim til að athuga hvort það væri ekki örugglega í lagi með mig. Ég tók á móti þeim grátandi eða fór að gráta þegar ég sá mömmu koma inn, það er nú líklegra, því það var enga huggun að fá frá oltnum plötuspilara, uppstoppuðum fuglum og misvísandi húsgögnum.

Þegar ég var búinn að endurheimta kjarkinn fórum við vinirnir í gönguferð um þorpið, ungir spekingar að spjalla, skoða verksummerkin, sprungur og gjótur í snjónum, látandi sem hjörtun væru stærri en þau í raun voru á þessari stundu.

Ekki man ég nú allar þær stundir sem liðu frá skjálftanum þar til okkur Sirru, Hauki og mömmu var síðan komið fyrir í Landrovernum hans Gunna í Sultum og okkur ekið sem leið lá inn á Húsavík, ásamt öðrum. Ég man ekkert hvort það var eitthvað að færðinni, annað en hálka, en inn á Húsvík komumst við allavega, þaðan suður í Kópavog til ömmu og afa.

Sumt man maður vel, annað er í minninu í gegnum ljósmyndir, ekki alveg ljóst hvar mörkin liggja, en sagan hér að ofan er þó sönn minning, studd með ljósmynd, ekki ljósmyndaminning."

 

Mynd: Svona var umhorfs í Kaupfélaginu eftir skjálftann.

Að hrynja upp og niður tröppur

Tvíburasysturnar Halla og Hildur Óladætur voru tíu ára gamlar í janúar 1976 og í 13. tbl. Bændablaðsins 2025 var tekið við þær viðtal þar sem skjálftann bar á góma.

Þær systur muna vel þennan atburð enda þá orðnar tíu ára gamlar. „Við vorum búnar í skólanum því yngri börnin voru fyrir hádegi í skólanum og þau eldri eftir hádegi. Ég var komin yfir í læknishúsið því það var læknadagur þennan dag á Kópaskeri og ég var að passa börnin á efri hæðinni, bara pínulítil börn. Pabbinn var sofandi eftir næturvinnu en mamman sem var hjúkrunarfræðingur var komin í vinnuna á neðri hæðinni. Svo kemur þessi hryllingur, rennihurðir í íbúðinni fóru fram og til baka og allt lék á reiðiskjálfi. Ég auðvitað bara hentist niður stigann og mætti móðurinni í stiganum sem spurði hvar börnin hennar væru. Ég skildi þau bara eftir því ég var á leiðinni til minnar mömmu, enda bara 10 ára gömul. Ég vona að mér sé fyrirgefið að hafa ekki gert tilraun til að grípa litlu greyin með mér,“ segir Hildur.

Halla aftur á móti var stödd í verslun þorpsins með vinkonu sinni. „Við vorum svo heppnar að standa akkúrat við dyr því það hrundu allar hillur og allar vörurnar lágu úti um allt. Það voru reyndar tröppur við hliðina á okkur og við hrundum fram og til baka í þeim meðan þetta gekk á og við höfðum enga stjórn. Svo flýttum við okkur út þegar jörðin stöðvaðist og uppgötvuðum á leiðinni heim að vinkonan hafði ekki greitt fyrir brauðið sem hún hélt á, við urðum sammála um að það myndi sennilega vera í lagi.“ segir Halla og bætir við að Hildur hafi verið miklu hræddari en hún. „Hún fékk eiginlega taugaáfall og grét alla nóttina.“ Þær voru svo fluttar í snjóbíl að Leirhöfn á Sléttu og voru þar fyrstu nóttina. „Það var brjálað veður og jörðin skalf alla nóttina. Daginn eftir vorum við flutt í bílalest til Raufarhafnar á eftir snjóruðningstæki, ég held að veðurhræðsla mín alla tíð sé afleiðing þeirrar ferðar,“ segir Hildur.

Mynd tekin skólaárið 1975-1976.

Indriði Þröstur Gunnlaugsson (Valhöll), Halla Óladóttir (Skógum), Guðni Björn Jónsson (Boðagerði 8), Arndís Baldursdóttir (Akurgerði 7), Sigríður Benediktsdóttir (Akurgerði 5), Hulda Georgsdóttir (Boðagerði 2), Unnur Sigurðardóttir (Sigurðarstöðum), Hildur Óladóttir (Skógum), Eggert Marinósson (Akurgerði 5 ), Kári Hrafnkelsson (Efri-Hólum), Þórir Hálfdánarson (Presthólum) og Þorsteinn Guðni Jónsson (Boðagerði 2).

 

 

 

Dansandi ljósastaurar

Sigrún Kristjánsdóttir var aðeins átta ára en dagurinn er henni eins og öðrum sem voru staddir á Kópaskeri þann 13. janúar 1976 í fersku minni. „Við tölum alltaf um þetta þegar við hittumst, æskuvinirnir af Skerinu“. Sigrún hefur nú búið í Hveragerði um árabil með fjölskyldu sinni og lenti því aftur stórum skjálfta þegar Suðurlandsskjálftinn reið yfir þann 29. maí 2008. Hún segir svona frá 13. janúar 1976.

Ég var stödd úti, rétt fyrir utan Mela og horfði á skorsteininn á Melum rúlla niður þakið, það er mér alveg ógleymanlegt. Ég var með vinkonum og það var stutt heim til þeirra í Sandhólum og við hlaupum þangað en á leiðinni sáum við ljósastaurana sveiflast, eins og lauf í vindi og við höfðum það á tilfinningunni að það þyrfti að sæta lagi við að komast fram hjá þeim án þess að þeir rækjust í okkur. Þegar við komumst svo heim til þeirra hrópaði vinkona mín „Mamma mamma, fannstu þennan?“ í ljósi aðstæðna hefur þetta orðið fleyg setning.

En þegar við komum inn gerðum við okkur ljóst hve alvarleg staðan var, allt var á hvolfi og mamma hennar var mjög hrædd, við vorum sendar að sækja Björn Jónsson í Sláturhúsinu en hann var svona „alltmuligtman“, því allt var farið leka og ofnarnir lausir frá veggjunum. Þær hlaupa af stað en einhverra hluta vegna varð ég eftir, ég var bara átta ára og var allt í einu ein út í skafli, sprungur allt í kringum mig og ég mér fannst að jörðin myndi opnast svo ég stóð bara þarna og grét. Þá kom Þorgrímur frá Klifshaga, sem ég var nú alltaf frekar hrædd við, og bjargaði mér heim. En þar var allt hrunið, hillumilliveggur hruninn og allt á rú og stú. Mamma og yngri systur mínar voru heima og með aukabarn í pössun og allt í einu kom boð um allir þyrftu að yfirgefa þorpið.

Nágranni okkar Niels Árni Lund átti lítinn Landrover og hann hóaði saman nágrönnum sínum til að flytja þá að Miðtúni á Sléttu sem er hans æskuheimili. Það voru margir sem þurftu far, Mamma og við systurnar þrjár og barnið sem mamma var með í pössun, Niels og hans kona og þeirra tvö börn og svo var Gunnsa með börnin sín fimm. Það voru því fimmtán sálir sem komið var fyrir í bílnum og bjargað yfir á Melrakkasléttu.

Ég man ekki eftir rosalegri hræðslu, frekar eins og við værum í einhverju ævintýri en ég man eftir mikilli ófærð.

Morguninn eftir var lagt af stað á Raufarhöfn í bílalest og það tók okkur marga klukkutíma að keyra þessa 35 kílómetra að Raufarhöfn, með snjóplóg á undan bílalestinni því það var alveg blindbylur. Ég held að þetta hafi verið mjög erfitt fyrir fullorðna fólkið, mikil streita. Pabbi var eftir á Kópaskeri og ég held þetta hafi verið mömmu mjög erfitt. Daginn eftir flugum við svo á Akureyri þar sem við vorum í tvær vikur og vorum svo með þeim fyrstu að koma til baka á Kópasker.

Ég man ekki eftir að það hafi komið til tals að fara ekki aftur heim og langflestir komu aftur. En þetta var rosalegur vetur og miklar gjár og sprungur, líkt og í Grindavík, og það var svo hættulegt að vera úti. Landslagið breyttist mjög mikið, sparkvöllurinn á bak við Skóga var til dæmis allur í sprungum eftir skjálftann. Skrítið að fólk skyldi ekki vera hræddara.

Ég held við höfum langflest sloppið við alvarleg áfallaviðbrögð, sennilega þó síst þau sem voru inn í húsi þegar skjálftinn reið yfir. Nú bý ég á jarðskjálftasvæði og er ekki mjög áhyggjufull eða hrædd en bregst þó vel við þeim skjálftum sem hér hafa verið en ég tengi betur við ástandið í Grindavík en eftir Suðurlandsskjálftann hér 2008. Þessar sprungur voru ægilegar og ég eiginlega skil ekki af hverju við vorum ekki hræddari við þær.

Fjárhúsveggurinn opnaðist og lokaðist aftur

Kristinn Rúnar Tryggvason varð 8 ára í desember 1975, hann er fæddur og uppalinn á Hóli í Kelduhverfi en Kelduhverfið varð illa úti í þessum hamförum. Hann minnist skjálftanna með þessum orðum.

Það var kvöldið 20.desember 1975 sem að við finnum fyrstu skjálftana sem þó voru bara rétt titringur. Við krakkarnir heima upplifðum þetta bara sem spennandi og skemmtilegt en skynjuðum á foreldrunum að þetta var eitthvað meira en rétt til þess að hafa gaman af.

Það var fljótt að koma í ljós því á afmælisdaginn minn 23.desember þegar ég verð 8 ára var ég orðinn hitaveikur og mamma sagði eftir á að það hefði verið af hræðslu. Ekki veit ég hvort það var raunin en vissulega var ég mjög hræddur á þessum tíma enda búum við í Kelduhverfi sem er á vestari brún sigbeltisins og upplifðum við mjög harða skjálfta næstu tvær til þrjár vikur á eftir. Margir skjálftanna voru á bilinu M5.0 til M5,5 að stærð sem urðu til þess að hús skemmdust, jörðin rifnaði og vegir fóru í sundur.

Þessu tímabili lýkur með Kópaskersskjálftanum sem var sá stærsti í þessu ferli. Hér á okkar svæði upplifðum við hann ekki sem harðasta skjálftann, heldur stóð hann lengi yfir en ég á erfitt með að meta hann þar sem við pabbi vorum staddir úti á gangi meðfram fjárhúsvegg og hlöðu og sjáum öldur í jarðveginum- eina eða tvær - koma á móti okkur og þegar öldurnar koma er mér litið á fjárhúsvegginn sem opnaðist og lagðist svo saman aftur. Þetta er mér ennþá ljóslifandi í minningunni. Fyrir mér var þessi einstaki skjálfti bara upplifun enda voru skjálftarnir sem á undan komu talsvert harðari en þessi.

Í minningunni eru það drunurnar sem voru alltaf undanfari skjálftanna sem virkuðu ógnvænlegast af þessu því þá vissi maður að eitthvað var að koma sem ekki var vitað hversu mikið eða stórt yrði og þá gafst tími til að kvíða því sem verða vildi.

Mynd tekin skólaárið 1975-1976.

F.v: Sigrún Kristjánsdóttir (Kjarna), Helga Barðadóttir (Sandhólum), Guðrún Hauksdóttir (Akurgerði 3), Kristín Huld Gunnlaugsdóttir (Valhöll), Björn Þór Jónsson (Ásgarði), Kristbjörg Sigurðardóttir (Núpskötlu), Ingimar Örn Ingimarsson (Öldufelli), Arna Ósk Arnbjörnsdóttir (Arnarhóli), Grímur Örn Jónsson (Björk) og Sigríður Valdís Georgsdóttir (Boðagerði 2).

 

 

 

Börnin, þá og nú.

Nú þegar Grindavíkureldarnir eru okkur alla daga í huga er vert að minnast þessara atburða og áhrifanna sem þeir höfðu og hafa enn þann dag í dag á líðan fólksins sem þá upplifðu þessi hrikalegu umbrot, dagana, vikuna og mánuðina á undan og þá sem í hönd fóru. Það er mikilvægt að huga að líðan barna sem lifa svona viðburði. Börnin í Grindavík þurfa athygli, þau eru að upplifa áföllin núna, jafnvel aftur og aftur.

 

Hér má svo sjá magnaða heimild frá því þegar Ómar Ragnarsson heimsótti Kópasker skömmu eftir skjálftann. Athugið að myndbandið er hljóðlaust nema bara þegar viðtölin eru í gangi.