Fara í efni

Covidpistill sveitarstjóra #5

Fyrsta smitið af covid-19 hefur verið staðfest á Húsavík. Ekki var um að ræða einstakling sem var í skilgreindri sóttkví. Á meðan að smitrakning var unnin í morgun var ákveðið að loka einni deild á leikskólanum Grænuvöllum, en nú síðdegis fékkst það staðfest að ekki þurfi að koma til frekari lokana og verður því leikskólinn allur opinn á morgun eins og verið hefur. Smitið er líklegast rakið til hótels í Mývatnssveit, en fleiri smit hafa verið rakin til sama hótels á þessum tíma. Viðkomandi hefur haft mjög takmörkuð samskipti útávið eftir dvölina við Mývatn og því fáir sem þurfa að sæta sóttkví vegna málsins. Við hugsum hlýtt til viðkomandi með óskum um góðar batakveðjur.

Í gær birti RÚV mjög greinargóða frétt um það hverjir, hvenær og hvernig fólk lendir í sóttkví. Nú þegar sóttkvíartilfellum er farið að fjölga um land allt hvet ég íbúa til að horfa á þetta stutta en lýsandi myndband sem segir allt sem segja þarf um þær reglur sem gilda: https://www.ruv.is/frett/sottkvi-hvenaer-telst-folk-utsett-fyrir-smiti

Annars gengur vel í skólunum okkar og mæting almennt séð góð. Enda ættu öll heilbrigð börn sem ekki eru í sóttkví að mæta í skólann ef ekki aðrar rökstuddar ástæður eru fyrir fjarveru. Við vinnum málin áfram í góðu samstarfi foreldra og skólanna okkar og þökkum aftur og enn fyrir skilning og samstarfsvilja undir þessum aðstæðum. Áfram eru aðstæður í hverjum skóla og fjöldi starfsfólk innan hverrar einingar takmarkandi þáttur þegar kemur að því hvað hægt er að bjóða uppá mikla þjónustu. Ef þarf að grípa til lokana á skólum eða hluta þeirra þá er búið að greina og skilgreina mjög ítarlega forgangslista sem reynt verður að þjónusta eftir því sem aðstæður leyfa. Öll slík plön eru tilbúin ef á þarf að halda í okkar stofnunum.

Ég vil minnast á fleira sem snýr að þjónustu sveitarfélagsins á þessum sérstökum tímum, þ.e. sorpmál. Eins og fram koma á heimasíðu sveitarfélagsins fyrr í dag hefur Umhverfisstofnun beint þeim tilmælum til rekstraraðila sorphirðu þar sem lífrænum úrgangi er safnað í sérstaka tunnu, sem höfð er í annarri tunnu („tunnu í tunnu“)  að því verklagi verði hætt meðan ástand vegna covid-19 varir. Markmiðið með þeirri aðgerð er að minnka smithættu fyrir sorphirðustarfsmenn. Þeim tilmælum hefur því verið beint til íbúa á Húsavík að lífrænu sorpi verði fargað með almennu sorpi á meðan ástandið varir. Starfsmenn sorphirðu munu fjarlægja allar lífrænu tunnurnar/hólfin í næstu viku þegar sorphirðing á sér stað. Bið ykkur um að láta þetta berast. Annars er nánar hægt að lesa um málið hér: https://www.nordurthing.is/is/moya/news/covid-19-breyting-a-fyrirkomulagi-a-sorphirdu-a-husavik-reykjahverfi-og-tjornesi

Að lokum vil ég taka undir orð Ölmu Möller landlæknis frá því í gær um nýyrðið „smitskömm“. Því má einfaldlega henda út í hafsauga og vil ég eindregið beina því til fólks að forðast allt sem getur ýtt undir fordóma í garð þeirra sem verða fyrir því að smitast. Það ætlar sér enginn að smitast. Höldum einfaldlega áfram að beita þessum grunnatriðum; þvo á okkur hendurnar vel og vandlega með sápu, spritta eftir þörfum og virða fjarlægðarmörk. Það verður ekki nógu oft ítrekað.  

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri