Fara í efni

Tilkynning vegna kvikmyndaupptöku við Húsavíkurhöfn

Kæru íbúar

Í dag laugardag fara fram upptökur á Óskarsverðlaunaatriði Molly Sandén á laginu Husavik – My hometown, við höfnina á Húsavík. Atriðið verður tekið upp frá miðjum degi og fram á kvöld.

Atburðarásin sem hefur leitt til þessa viðburðar hefur verið með ólíkindum hröð og kraftaverki líkast að allt sé að ganga upp í undirbúningnum, sem aðeins hefur tekið örfáa daga. Atriðið verður sýnt á Óskarsverðlaunahátíðinni 26. april n.k., en eins og allir vita er lagið „okkar“ tilnefnt fyrir besta lag í kvikmynd 2020.

Það er einlæg ósk okkar að við hjálpumst að við að láta hlutina ganga snurðulaust fyrir sig í dag með því að vera tillitsöm og þolinmóð vegna mögulegra lokana á hafnarsvæðinu og sýna því skilning þótt flugeldum verði skotið upp frá hafnarsvæðinu í nokkur skipti yfir daginn og fram á kvöld. Það er ekki hægt að segja annað en að um algerlega einstakan viðburð sé að ræða og okkur finnst Húsavík hvergi sóma sér betur en í viðhafnarbúningi á Óskarsverðlaununum eftir rúma viku. True North, Netflix og Örlygur „okkar“ Örlygsson ásamt einvalaliði fólks halda utan um framkvæmdina.

Við vonum að Húsavík verði heimabær allra þann 26. apríl!

Virðingarfyllst,
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings