Heimsókn frá elstu nemendum Grænuvalla
05.05.2025
Fréttir
Katrín sveitarstjóri fékk góða heimsókn í morgun þegar elstu nemendur leikskólans á Grænuvöllum komu á skrifstofu Norðurþings með erindi.
Nemendurnir fengu þá hugmynd að mála steypireið í raunstærð á götuna fyrir framan leikskólann og í framhaldinu gera tilraun um hversu mörg börn þarf til að fylla upp í eina steypireið.
"Með þessu bréfi viljum við biðja um leyfi fyrir þessu listaverki, einnig ef þú samþykkir að biðja þig um aðstoð við að loka götunni okkar þriðjudaginn 6. maí kl. ca 09:00 á meðan við erum að mála. Einnig verðum við síðan með lista/verkefnasýningu í safnahúsinu að verki loknu sem við myndum gjarnan vilja bjóða þér að koma á og skoða."
Katrín tók erindinu fagnandi og gaf leyfi fyrir að mála steypireiðina og loka götunni.