Fara í efni

Fjárhagsáætlun Norðurþings samþykkt samhljóða á 159. fundi sveitarstjórnar þann 11. desember 2025

Fjárhagsáætlun Norðurþings fyrir árin 2026-2029 er nú lögð fram til síðari umræðu í sveitarstjórn Norðurþings 11. desember 2025 í samræmi við samþykkt ferli við afgreiðslu fjárhagsáætlunar. Áætlunin var lögð fram í byggðarráði 23. október 2025 og vísað til fyrri umræðu í sveitarstjórn samkvæmt 3. mgr. 62. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Fyrri umræða í sveitarstjórn fór fram þann 13. nóvember 2025.

Byggðarráð vísaði á 511. fundi sínum, þann 4. desember s.l., fjárhagsáætluninni til sveitarstjórnar til síðari umræðu. Samhliða áætlun næsta árs er jafnframt lögð fram þriggja ára fjárhagsáætlun fyrir árin 2027, 2028 og 2029.

Forsendur fjárhagsáætlunar Norðurþings voru lagðar fram í byggðarráði 13. október s.l. Við gerð fjárhagsáætlunar að þessu sinni ríkir töluverð óvissa um framvindu efnahagsmála- og þá sérstaklega atvinnumála hér í sveitarfélaginu.

Hér má sjá greinargerð fjármálastjóra vegna fjárhagsáætlunar 2026-2029, þar er að finna myndrit og frekari skýringar.

Fjárhagsstaða Norðurþings er stöðug og hefur verið viðunandi, sveitarfélagið hefur orðið fyrir verulegu tekjufalli á árinu 2025 og þá sérstaklega Hafnasjóður, vegna rekstrarstöðvunar PCC á Bakka og áætlun 2026-2029 litast mjög af því ástandi. Sveitarfélagið hefur ekki tekið ný lán hvorki á þessu ári né næstu fjórum árum þar á undan, skuldir eru töluverðar en vel undir viðmiðunarmörkum samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 60. gr. sveitarstjórnarlaga en þar er mælt fyrir um að skuldir megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Áætlun samstæðu gerir ráð fyrir að lántaka verði að upphæð 400 m.kr á árinu 2026 og að skuldahlutfall verði 125,6% en það er í dag um 120%. Áætlunin gerir ráð fyrir að framlegðarhlutfall og veltufjárhlutfall sé yfir þeim mörkum sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga setur.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar ársins 2026
Gert er ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu á A-hluta sveitarsjóðs að fjárhæð 145 m.kr. og jákvæðri rekstrarniðurstöðu að fjárhæð 62 m.kr. í samstæðu A og B hluta.

Heildartekjur
Heildartekjur samstæðu eru áætlaðar 6.672 m.kr. á árinu 2026.

Álagningarhlutfall útsvars er óbreytt,14,97%. Áætlaðar útsvarstekjur eru 2.480 m.kr og hækka lítillega miðað við útgönguspá ársins 2025.

Tekjur af fasteignasköttum eru áætlaðar 575 m.kr og af lóðarleigu 108 m.kr hækka um 5% milli ára. Eru þá meðtaldar nýjar eignir sem bæst hafa við á árinu 2025.

Almenn gjaldskrárhækkun er 4,2% á árinu 2026 sem er nálægt verðlagsþróun.

Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Norðurþings eru áætlaðar um 1.188 m.kr á árinu 2026. Stuðst er við áætlun Jöfnunarsjóðsins.

Aðrar tekjur eru áætlaðar 2.423 m.kr í samstæðu þar af 1.518 m.kr í A- hluta.

Rekstrargjöld
Heildargjöld samstæðu Norðurþings að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða eru áætluð 6.574 m.kr.

Launakostnaður samkvæmt áætlun er samtals 3.629. m.kr árið 2026 í samstæðu og 3.507 m.kr í A-hluta. Í hlutfalli af tekjum eru laun og lífeyrisskuldbinding 54,3% í samstæðu og 60,6% í A-hluta. Stöðugildi sveitarfélagsins og stofnana eru alls um 300.

Annar rekstrarkostnaður samstæðureiknings er áætlaður 1.988 m.kr. , annar rekstrarkostnaður A-hluta er áætlaður 1.559 m.kr.

Fjármagnskostnaður samstæðureiknings er áætlaður 320 m.kr. á árinu 2026 og 176 m.kr í A- hluta.

Lykiltölur
Gert er ráð fyrir að rekstur A-hluta verði jákvæður um 145 m.kr og að rekstrarniðurstaða samstæðu verði jákvæð um 62 m.kr á árinu 2026. Þriggja ára áætlun gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu bæði A-hluta og samstæðu öll árin.

Veltufé frá rekstri er áætlað 706 m.kr hjá A-hluta og 862 m.kr í samstæðureikningi árið 2026.

Handbært fé í árslok 2026 er áætlað 634 m.kr hjá A-hluta og 1.250 m.kr í samstæðureikningi.

Skuldir og skuldbindingar samstæðu nema samtals 8.379 m.kr., þar af langtímaskuldir við lánastofnanir 4.347 m.kr og 2.859 m.kr vegna lífeyrirsskuldbindinga.

Veltufjárhlutfall er áætlað 1,95 á árinu 2026, veltufé frá rekstri samstæðu er 12,92%

Sveitarfélagið hefur ekki tekið ný lán hvorki á þessu ári né næstu þremur árum þar á undan, skuldir eru töluverðar en vel undir viðmiðunarmörkum sveitarstjórnarlaga. Áætlun samstæðu gerir ráð fyrir að lántaka verði 400 m.kr á árinu 2026. Áætlunin gerir ráð fyrir að framlegðarhlutfall og veltufjárhlutfall sé vel yfir þeim mörkum sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga setur.

Framkvæmdaáætlun
Framkvæmdir samstæðu eru áætlaðar 880 m.kr árið 2026 en voru áætlaðar 1.000 m.kr árið 2025.

Stærsta framkvæmd næsta árs er bygging nýs húsnæðis fyrir frístund og félagsmiðstöð austan Borgarhólsskóla áformað er að húsið verði fullklárað ásamt lóð í ágúst nk. Ný sundlaug við Lund í Öxarfirði er á áætlun næsta árs og framkvæmdir verða á árunum 2026 og 2027. Einnig verður byrjað að vinna að endurnýjun á gólfi og stúku í íþróttahöll á Húsavík á næstu tveimur árum. Áætlað er að hefja framkvæmdir á árinu 2026 við stjórnsýsluhúsið að Ketilsbraut 7-9 á Húsavík. Á árinu 2026 er stefnt að að endurnýja götuna Ketilsbraut ásamt öllum lögnum frá kirkju og að Hóteli. Undirbúningur Framkvæmda á iðnaðarsvæðinu á Bakka og Röndinni á Kópaskeri styðja við frekari atvinnustarfssemi í sveitarfélaginu. Ýmis smærri verkefni eru á framkvæmdaáætlun og áhersla er á að ljúka þeim verkum sem hafin eru. Unnið hefur verið að skipulagi um þéttingu byggðar í suðurbæ Húsavíkur sem fjölgar hagstæðum íbúðarlóðum verulega á næstu árum. Unnið verður áfram við gerð aðalskipulags Norðurþings og því lokið um mitt næsta ár. Einnig gerir fjárhagsáætlunin ráð fyrir að í upphafi næsta árs verði haldið áfram með framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili í Auðbrekku. Það er í ferli hjá ríkinu sem mun annast þá byggingu að fullu og mun tilkoma þess efla og bæta grunnþjónustu aldraðra til mikilla muna.

Lokaorð
Fjárhagsstaða Norðurþings er stöðug og viðunandi svo það sé sagt. Sveitarfélagið hafði gott áfallaþol til að taka á sig högg í rekstri á árinu 2025 og við verðum að hafa seiglu og þor til að vera skynsöm í rekstri sveitarfélagsins og það er mín skoðun að okkur hafi tekist það ágætlega í þeirri áætlun sem liggur fyrir.

Við höfum í þessari áætlun brugðist við breyttum aðstæðum í atvinnumálum og það að bregðast við í rekstri strax vorið 2025 og með þessari áætlun gefur okkur þann möguleika að vera miklu betur í stakk búin til að koma af stað nýjum tækifærum í atvinnumálum, sem við ætlum okkar að koma af stað á næsta ári og komandi árum. Því öll viljum við byggja upp og vaxa sem samfélag sem og að veita framúrskarandi þjónustu til allra okkar íbúa.

Ég vil þakka kjörnum fulltrúum í ráðum sveitarfélagsins og sveitarstjórn fyrir góð störf við áætlanagerðina. Einnig þakka ég stjórnendum og starfsfólki fyrir þeirra mikilvæga framlag í áætlanagerðinni og við aðhald í rekstri sveitarfélagsins. Í samvinnu allra þessara aðila er hér lögð fram raunhæf fjárhagsáætlun til næsta árs og þriggja ára þar á eftir.

Bergþór Bjarnason fjármálastjóri