Fréttir af skíðasvæði Norðurþings
Þar sem janúar mánuður er langt liðinn, langar okkur til að segja aðeins frá stöðunni á Skíðasvæðinu okkar í Reyðarárhnjúk. Líkt öllum er kunnugt um hefur snjórinn ekki verið að skila sér niður til okkar sem hefur aftrað mjög möguleikum á opnun skíðalyftunnar.
Staðan í dag er sú að ekki er nægur snjór kominn til að opna skíðalyftuna en gönguskíðaspor er troðið, en það stendur samt sem áður mjög tæpt. Við uppfærum dagalega upplýsingar um það áfacebooksíðu skíðasvæða Norðurþings.
Fréttir af framkvæmdum:
Unnið var að ýmsum endurbótum á skíðasvæði Norðurþings og gönguskíðabrautinni á haustmánuðum til að bæta aðstöðu fyrir gesti og iðkendur vetraríþrótta.
Gönguskíðabrautin var lengd um 500 metra og er því um 1,7 km í dag og lýsing hennar bætt með uppsetningu á ein ljósamastri, sem eykur bæði notagildi brautarinnar og öryggi þeirra sem nýta hana, sérstaklega á dimmari tíma dags.
Jafnframt var unnin vinna á skíðasvæðinu með það að markmiði að auðvelda troðslu svæðisins og snjósöfnun. Þá var lýsing við bílastæði skíðasvæðisins bætt, sem stuðlar að auknu öryggi og betri aðgengi fyrir gesti.
Opnunartímar skíðasvæðisins í vetur verða á laugardögum og sunnudögum kl. 12:00–16:00 og á miðvikudögum kl. 16:00–19:00. Gönguskíðaspor eru troðin þá daga sem veður og aðstæður leyfa, að jafnaði fer troðsla fram á morgnana.
Með þessum umbótum hefur aðstaða á skíðasvæði Norðurþings verið styrkt enn frekar og er svæðið vel undirbúið fyrir komandi vetrarvertíð.
Árskort:
Opnað hefur verið fyrir sölu á árskortum á bæði skíðasvæðin og er hægt að kaupa þau á Abler.
Við minnum á að 70 fyrstu sem kaupa árskort fá Norðurlandskortið.
Nánari upplýsingar eða aðstoð vegna árskorta má nálgast í síma 823-9978.