Fara í efni

Húsnæðisáætlun Norðurþings 2024 samþykkt

Á síðasta fundi sveitarstjórnar var húsnæðisáætlun Norðurþings vegna ársins 2024 samþykkt samhljóða.

Hlutverk húsnæðisáætlunar er að draga fram mynd af því hver staða húsnæðismála er í sveitarfélaginu, greina framboð og eftirspurn eftir margvíslegum húsnæðisformum og setja fram áætlun um hvernig sveitarfélagið ætlar að mæta húsnæðisþörf heimila, bæði til skemmri og lengri tíma. Húsnæðisáætlanir eru gerðar á stafrænu stöðluðu formi í gegnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) þar sem áhersla er á tölulegar upplýsingar. Með stöðluðu formi verða húsnæðisáætlanir samanburðarhæfar og þar með næst betri yfirsýn þar sem mögulegt er að taka saman áætlun fyrir landið í heild sinni, einstaka sveitarfélög eða sameiginleg atvinnusvæði.

Í forsendum fyrir mannfjöldaspá er gert ráð fyrir stöðugri fjölgun íbúa í sveitarfélaginu á næstu árum. Í áætluninni er gerð grein fyrir íbúðum sem eru í byggingu og er byggt á niðurstöðum úr talningu HMS. Sú talning var framkvæmd í september og þá voru 41 íbúð á mismunandi byggingarstigum í byggingu í Norðurþingi. Stefna sveitarstjórnar er að lóðir fyrir íbúðir og atvinnuhúsnæði séu ætíð lausar til umsóknar og bið eftir afhendingu sé ekki of löng. Markmið sveitarstjórnar er að hraða deiliskipulagsvinnu til að fjölga íbúðarhúsarlóðum innan sveitarfélagsins og er horft til þess að hafa íbúðir sem fjölbreytilegastar, þ.e. einbýlishús, parhús, raðhús og fjölbýlishús. Í áætluninni er farið yfir hvaða deiliskipulög eru í vinnslu og hvað þau tryggja mikið af lóðum fyrir mismunandi byggingarkosti.

Hægt er að skoða áætlunina hér.