Fara í efni

Íþróttavika Evrópu í Norðurþingi

Nú í byrjun vikunnar er að hefjast Íþróttavika Evrópu sem stendur frá 23-30. september 2025 í yfir 30 Evrópulöndum.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands heldur utan um verkefnið á Íslandi með stuðningi Evrópusambandsins.

Markmið Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla álfuna og sporna þannig við hreyfingarleysi almennings. Íþróttavikan er ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Áhersla er lögð á að höfða til grasrótarinnar og hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi. Evrópubúar sameinast í vikunni undir slagorðinu #BeActive

Norðurþing tekur nú þátt í fyrsta skipti í verkefninu en þetta er 10 árið sem verkefnið er í gangi. Við höfum því fengið til liðs við okkur fjöldan allan af félögum, samtökum, hópum og einstaklingum til þess að setja upp fjölbreytta og skemmtilega dagskrá fyrir okkur þannig að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi til að prófa eða kynna sér betur.

Tveir fyrirlestrar/ örnámskeið verða í boði þessa vikuna:
-Þriðjudaginn 23. september verður Bjartur Guðmundsson sem verður með örnámskeiðið „Óstöðvandi í topp tilfinningalegu ástandi“. Hann ætlar að ýta okkur af stað og peppa í gang. Verður í sal Borgarhólsskóla kl. 17:30
-Fimmtudaginn 25. september verður svo Sveinn Þorgeirsson með erindi sem ber yfirskriftina „Að eiga börn í Íþróttum“ sem nær yfir breytt svið þess að eiga börn sem stunda íþróttir og mikilvægi þess. Verður í Framhaldsskólanum á Húsavík kl: 17:00

Völsungur tekur einnig þátt og býður öllum börnum að prófa þær æfingar sem þau vilja endurgjaldslaust.
Hér má sjá yfirlit yfir æfingar Völsungs.

Við hvetjum íbúa Norðurþings til þess að skoða dagskrána vel, nýta þau fjölmörgu tækifæri sem hér eru til hreyfinga og hvetja hvort annað til þátttöku eða bara að hreyfa sig aðeins meira en maður er vanur að gera þessa vikuna.

Á viðburði á Facebook má finna frekari upplýsingar auk dagskrá fyrir hvern dag. Fylgist með okkur á Facebook! 

Hér má sjá yfirlit yfir dagskrá á Húsavík

Hér má sjá yfirlit yfir dagskrá á Raufarhöfn

Hlökkum til að sjá ykkur á ferðinni!