Fara í efni

Leikfélag Húsavíkur heldur vinnustofu í handritaskrifum

Vinnustofan er hugsuð fyrir þá sem hafa áhuga á að skrifa leiktexta og vinna hugmyndavinnu því tengdu. Farið er í öll helstu element góðs leiktexta, hvernig byggir maður upp senu, hvernig skapar maður karaktera og hvað ber að forðast við skrif leikverks. Þátttakendur spreyta sig svo á að skrifa stutta leiktexta sem hópurinn les (undir nafnleynd) og ræðir á uppbyggilegan hátt.
Engrar fyrri reynslu er krafist, aðeins áhuga á leiktextaskrifum. Þátttakendur þurfa að mæta með tölvu til skrifta.

Dagur 1
Inngangur leiðbeinanda. Farið í helstu element leiktexta. Spurningar eins og „Hvar fær maður innblástur“ og „Á hverju á að byrja“ reyfaðar. Þátttakendur skrifa örverk.

Dagur 2
Farið í ýmsar leiðir til fá hugmyndir. Hugtök eins og hvörf, undirtexti og ætlun persónu skoðuð og þátttakendur skrifa stuttverk þar sem unnið er með þessi hugtök.

Dagur 3
Sketsakrif skoðuð sérstaklega. Skoðað hvað gerir texta fyndinn, hvernig byggja skal skets upp og yfir höfuð hvað er fyndið. Og svo spreyta þátttakendur sig auðvitað á sketsakrifum.

Vinnustofan byggir eins og sjá má á „learning by doing“, þátttakendur læra af sinni vinnu og annarra með jákvæðri rýni og umræðum.

Um leiðbeinandann:
Ármann Guðmundsson er fæddur og uppalinn Húsvíkingur sem skrifað hefur á þriðja tug leikverka í fullri lengd, ýmist einn eða í samvinu við aðra, og fjöldan allan af styttri verkum. Verk hans hafa verið sett upp í atvinnu- og áhugaleikhúsi og má þar nefna Klaufa og kóngsdætur í Þjóðleikhúsinu, Góðverkin kalla! hjá Leikfélagi Akureyrar, Uppspuna frá rótum hjá Leikfélagi Húsavíkur og nú síðast Himinn og jörð hjá Leikfélagi Hvammstanga. Hann hefur einnig sótt námskeið í handritagerð í Leiklistarskóla Bandalagsins og í sketsaskrifum hjá Improv Ísland.

Verkefnið var undirbúið í samstarfi við menningarfulltrúa Norðurþings.