Fara í efni

Minningarathöfn um brottflutning - að heiðra íslenska arfleifð

Hinn 4. september næstkomandi mun félagið Rætur / Icelandic Roots, samtök Vestur-Íslendinga, halda hátíð og kynningu í Safnahúsinu á Húsavík kl. 14:00.

Rætur hafa unnið að því að setja upp minnisvarða og upplýsingaskildi á stöðum víða um land þar sem Íslendingar hófu för til Vesturheims.
Eins og margir vita var brottflutningur úr Þingeyjarsýslum verulegur á 19. öld og margir afkomendur þess fólks búa enn í Norður-Ameríku í dag.
Hugmyndin er að setja upp minnismerki eða sérstakt kynningarefni í Safnahúsinu til að heiðra þessa sögu.

Rætur er bandarísk sjálfseignarstofnun sem starfar einnig í Kanada og á Íslandi. Félagið heldur utan um umfangsmikinn ættfræðigrunn sem tengir saman Vestur-Íslendinga og íslenskan uppruna þeirra. Árlega heimsækir fjöldi afkomenda íslenskra innflytjenda Ísland í leit að rótum sínum – og hefur ferðamennska þessara hópa farið ört vaxandi undanfarin ár. Að þessu sinni mun koma hópur frá Bandaríkjunum og Kanada sem telur á bilinu 50–70 manns.