Norðurþing losar sig við 2 tonn af textíl á mánuði
Norðurþing losar sig við um það bil 75 kg. af textíl daglega.
Á mánuði gera það um tvo tönn af textíl.
Að losa sig við föt er oftast ekki góðverk
Að losa sig við notuð föt er oftast ekki góðverk. Verulega lítil eftirspurn er eftir textíl sem þróunaraðstoð og hafa mörg ríki utan Evrópu hætt við að taka á móti textíl. Gott er að gefa gæðaföt til góðgerðarsamtaka eða auglýsa gefins á samfélagsmiðlum. Rusl verður þó áfram rusl og hætt er við því að gæðaflíkur týnist í magni af lakari gæðum ef við höldum áfram að kaupa svona mikið.
Saklaust í körfunni, dýrt fyrir samfélagið
Frá árinu 2023 hafa sveitarfélög borið ábyrgð á því að safna fötum, skóm og öðrum textíl sem íbúar vilja losa sig við. Söfnun, flutningur og önnur meðhöndlun á þessum úrgangi hefur reynst sveitarfélögunum mjög íþyngjandi og kostnaðarsöm, sérstaklega þegar lítil eftirspurn er eftir notuðum fatnaði og hann því verðlaus. Kaup á fatnaði sem við notum stutt áður en við losum okkur við þau er sóun á skattpeningum samborgara okkar. Það fjármagn sem sveitarfélög setja í að safna og meðhöndla textíl gæti ef til vill betur farið í önnur og brýnni verkefni ef hægt væri að minnka magn fata sem við losum okkur við. Þannig næðist fram bæði samfélags- og umhverfislegur ávinningur fyrir öll.
Ókeypis sendingarkostnaður, rándýr langtímaáhrif
Íslendingar losa sig við hátt í 10 tonn af fötum á dag. Aðeins um 10% af fötunum komast í endurnotkun innanlands. 90% er sent erlendis til endurnotkunar eða í endurvinnslu.
Eftirspurn eftir notuðum fötum á heimsvísu hefur dregist mikið saman á undanförnum árum. Ástæðuna má rekja til uppgangs hraðtísku og aukinna fatakaupa. Á sama tíma og magnið hefur aukist hafa gæði fatanna versnað. Eins og staðan er í dag, árið 2025, endar stór hluti notaða textílsins sem sendur er úr landi í brennslu til orkuendurnýtingar. Það er textíll sem hvorki er hæfur til endurnotkunar né endurvinnslu vegna gæða. Brennsla til orkuendurnýtingar er skárri leið fyrir notuð föt en urðun. Besta leiðin væri auðvitað að nýta fötin sín vel og lengi.
Ef við kaupum minna, kaupum vandað, lagfærum þegar þarf, notum lengur, gefum eða seljum í nærumhverfi okkar og flokkum svo rétt að líftíma fatnaðarins loknum, – erum við bæði að draga úr umhverfisáhrifum fatnaðarins í okkar höndum og eftir að við losum okkur við hann.
Allur textíll sem safnast í Norðurþingi er sendur til Evrópu. Aðeins lítið magn fer í endurnýtingu eða er endurunnin á einhvern hátt og því endar megnið af honum í brennslu. Farvegir fyrir endurnýtingu og vinnslu hafa einfaldlega ekki undan því mikla magni af textíl sem fellur daglega til.
(birtist fyrst á vefsíðunni samangegnsoun.is
þar sem einnig má finna nánari upplýsingar)