Orkuveita Húsavíkur í jarðhitakönnunum
Nú standa yfir boranir á hitastigulsholum í nágrenni Húsavíkur á vegum Orkuveitu Húsavíkur. Það er Vatnsboranir ehf. sem sér um boranirnar. Byggt á þeim gögnum sem koma fram meta síðan jarðfræðingar hjá ÍSOR hvar líklegast sé að finna heitt vatn til framtíðar. Í þessari atrennu verða boraðar 7 holur, m.a. 3 holur á Bakkasvæðinu til að kortleggja möguleika á jarðsjó fyrir landeldi.
Nánar:
Árið 2023 hóf Orkuveita Húsavíkur umfangsmikla leit að jarðhita undir landi Húsavíkur. Markmiðið er að kortleggja hvort, og þá hvar, heitt vatn leynist í jarðlögum svæðisins. Til þess eru notaðar svokallaðar hitastigulsholur, þar sem borað er 70 til 90 metra niður í jörðina svo jarðfræðingar geti mælt hitastig og greint hugsanleg misgengi og sprungur sem gætu bent til jarðhita.
Frá því verkefnið hófst hefur verið borað í alls tólf holur. Ýmislegt áhugavert hefur komið í ljós við vinnuna, meðal annars kom óvenju kalt vatn í ljós sunnan við bæinn og fundust jarðlög sem ekki var búist við á svæðinu.

