Skýrsla um atvinnumál á Húsavík og nágrenni
Starfshópur fimm ráðuneyta um atvinnumál á Húsavík og nágrenni hefur skilað skýrslu sinni.
Hægt er að finna skýrsluna hér
Ríkisstjórnin fjallaði um skýrsluna og tillögur hópsins á fundi sínum á föstudag og á heimasíðu forsætisráðuneytisins er vitnað í Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra í tilefni af útgáfu skýrslunnar skýrslunar: „Ég hef mikla trú á tækifærunum á Bakka og í nágrenni Húsavíkur. Forsætisráðuneytið hefur átt í nánu samstarfi við Norðurþing og aðra hagaðila við gerð þessarar skýrslu. Og við höfum meðal annars rætt við sex áhugasama fjárfesta sem vilja koma að uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu. Gagnaver eru til dæmis möguleiki sem getur farið hratt í framkvæmd.“
Lagðar eru fram fimm tillögur sem eiga að styðja við atvinnuþróun á svæðinu. Fenginn verði verkefnastjóri til að hraða vinnu við þróun innviða á Bakka og nýta þá innviði sem eru til staðar, þar sem markmiðið er að koma á fót iðngarði. Ríkið borgar 80 prósent af kostnaði við störf verkefnastjóra og Norðurþing 20 prósent. Leyfisferlar verði einfaldaðir þegar kemur að uppbyggingu atvinnu og raforkukerfisins almennt, ráðist verði í styrkingu flutningskerfis raforku og aukna orkuöflun á Norðausturlandi, samgöngur og alþjóðatengingar verði efldar, meðal annars með hafnarframkvæmdum og tilraunaverkefni um vetrarþjónustu um Dettifossveg og skoðuð verði verkefni sem varða öryggi, varnir og áfallaþol samfélagsins á Norðausturlandi.
Byggðarráð Norðurþings fjallaði um skýrsluna á 507. fundi sínum þann 23. október og bókaði eftirfarandi:
Byggðarráð lýsir ánægju með skýrslu starfshóps forsætisráðherra og telur að hún varpi raunsæju ljósi á þá stöðu sem uppi er í Norðurþingi.
Byggðarráð telur jafnframt að í skýrslunni takist vel að draga fram þau tækifæri sem eru til frekari uppbyggingar á Bakka og hvað þarf til svo að þau geti raungerst.
Lagt er til að Grænn iðngarður á Bakka ehf. kosti 20% hlutdeild í verkefnastjóra vegna atvinnuþróunar og uppbyggingar á Bakka og óskar byggðarráð eftir að stjórn Græns iðngarðs á Bakka ehf. fjalli um málið.
Byggðarráð samþykkir að leggja Grænum iðngarði á Bakka ehf. til fjármagn vegna kostnaðar við verkefnisstjóra á Bakka til tveggja ára.