Starfshópur Stjórnarráðsins um stöðu atvinnumála í Norðurþingi fundaði á Húsavík
Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp með fulltrúum fimm ráðuneyta vegna stöðunnar sem upp er komin í Norðurþingi vegna tímabundinnar rekstrarstöðvunar kísilvers PCC á Bakka. Starfshópurinn kom til Húsavíkur í síðustu viku og fundaði með fulltrúum Norðurþings og PCC. Einnig fundaði hópurinn á Akureyri með SSNE, Eimi og stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum.
Starfshópurinn hefur það hlutverk að kortleggja stöðu atvinnumála á Húsavík og nágrenni vegna tilkynninga um mögulega rekstrarstöðvun kísilvers PCC á Bakka. Starfshópnum er einnig ætlað að koma með tillögur að mögulegum viðbrögðum stjórnvalda til bæði skemmri og lengri tíma með hliðsjón af ólíkum sviðsmyndum. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili forsætisráðherra álitsgerð sinni um miðjan september.
Sveitarstjórn bindur miklar vonir við að vinna starfshópsins skili árangri fyrir iðnaðarsvæðið á Bakka og atvinnulífið í Norðurþingi í heild.