Fara í efni

Umhverfisátak: Áskorun til þeirra sem eiga tæki, vélar og búnað í síldarverksmiðjunni og mjölhúsinu á Raufarhöfn

ÁSKORUN til þeirra sem eiga tæki, vélar og annan búnað í verksmiðjunni og mjölhúsinu á Raufarhöfn

Sveitarstjórn Norðurþings hefur samþykkt leyfi til rífa byggingar á SR-reitnum á Raufarhöfn – gömlu síldarverksmiðjuna og mjölhúsið. Það var gert á 154. fundi sveitarstjórnar þann 19. júní sl. skv. tillögu frá skipulags- og framkvæmdaráði.

Niðurrif bygginganna er hluti af umhverfisátaki í sveitarfélaginu, þar sem lóðarhafar, landeigendur og allir íbúar eru hvattir til að taka til á lóðum og landi í þeirra umsjón og ekki síður að hreinsa eftir sig rusl og ýmsan búnað sem hefur safnast saman utan lóða.

Til stendur að hefja niðurrif bygginga á SR-reitnum í ágúst 2025.

Hér með er því skorað á alla sem eiga eða telja sig eiga vélar, tæki, bíla, veiðarfæri, fiskvinnsluvélar og annan mögulegan búnað að fjarlægja allt slíkt úr byggingunum fyrir 28. júlí 2025!

Það sem hefur ekki verið tekið eftir þann frest verður fjarlægt á kostnað eigenda!

Eigendur hafa því næstu 4 vikur til að taka við sér og hirða og henda því sem þarna er.

Heimilt er að skilja eftir allt sem telst brotajárn, t.d. bílar, vélar, hjól ásamt hjólbörðum og rafgeymum.

Timbur, plast, veiðarfæri og þ.h. verður að koma í farveg fyrir endurvinnslu, endurnýtingu eða urðun.

Haustið 2025 verður útbúið geymslusvæði á Raufarhöfn þar sem hægt verður að fá leyfi fyrir geymslugámum. Sækja þarf um leyfi fyrir geymslugáma til Norðurþings og hlíta reglum sem um þá gilda.

Hafa skal samband við verkstjóra þjónustumiðstöðvar á Raufarhöfn varðandi það sem eigendur vilja skilja eftir í húsunum í síma 8611385 og oskar@nordurthing.is

Ásýnd sveitarfélagsins skiptir okkur öll máli ásamt almennri umgengni í okkar nánasta umhverfi. Við hvetjum alla til að bera virðingu fyrir eigum og löndum annarra.