Umhverfisátak: Til landeigenda og umráðamanna jarða
Sveitarstjórn Norðurþings samþykkti á fundi sínum þann 16. janúar samhljóða tillögu um að farið verði í umhverfisátak í sveitarfélaginu árið 2025.
Markmiðið er fegrun umhverfis, betri ásýnd og aukið staðarstolt. Sveitarfélagið hvetur íbúa, eigendur býla, fyrirtækja og stofnana til þátttöku í átakinu. Stofnanir sveitarfélagsins gangi á undan með góðu fordæmi. Einnig var samþykkt að veitt yrðu umhverfisverðlaun og hefur þegar verið óskað eftir tilnefningum hvað þau varðar.
Að þessu tilefni verður sérstakt átak í hreinsun á brotajárni og járnarusli í þéttbýi og til sveita.
Stefnt er að því að sækja brotajárn heim að bæjum í dreifbýli Norðurþings á tímabilinu 11. til 22. ágúst til þeirra sem óska eftir því. Þjónustan verður gjaldfrjáls.
Undir brotajárn falla allir málmar svo sem bárujárn, bílhræ, girðinganet og landbúnaðarvélar. Auk þess verður tekið við dekkjum og rafgeymum.
Best er að safna brotajárni saman á aðgengilegan stað fyrir hirðubíl sem er búinn krana og getur tekið mest efni sjálfur. Mikilvægt er að brotajárn sé alveg laust við rusl en heimilt er að synja hirðu ef svo er ekki.
Til þess að nýta þessa þjónustu er nauðsynlegt að skrá sig hjá sveitarfélaginu fyrir föstudaginn 15. júlí.
Fram þarf að koma: nafn tengiliðs, símanúmer, bæjarnafn, lýsing á brotajárni, staðsetning brotajárns, áætlað magn og hvort um sé að ræða fyrirferðamikið brotajárn eins og landbúnaðartæki.
Senda skal tölvupóst með tilgreindum upplýsingum á netfangið nordurthing@nordurthing.is fyrir 15. júlí nk.
Það sem þarf að varast svo tryggt sé að hægt sé að sækja brotajárn:
- ófullnægjandi aðgengi, til dæmis ótraustir eða torfærir slóðar fyrir stóran bíl
- mikið um annan úrgang í brotajárni, t.d. timbur, plast og múrbrot
- brotajárn finnst ekki og ekki næst í þann sem óskaði eftir þjónustunni
- brotajárn of stórt eða umfangsmikið til að hægt væri að fjarlægja án tilkostnaðar.
Það skiptir því máli að huga vel að því hvar brotajárni er safnað saman svo hægt sé að nálgast það með auðveldum hætti og gera eins vel og hægt er grein fyrir áætluðu magni.