Upplýst samfélag alla daga
Alþjóðadagur fatlaðs fólks verður haldinn um allan heim þann 3. desember nk. Fyrsti alþjóðadagurinn var haldinn árið 1992 af Sameinuðu þjóðunum en markmið dagsins er að efla skilning á málefnum fatlaðs fólks og ýta undir stuðning við reisn, réttindi og velferð þess. Jafnframt að auka vitund um þann ávinning sem hlýst af þátttöku fatlaðs fólks á öllum sviðum samfélagsins – stjórnmála-, félags-, efnahags- og menningarlífs.
Fjólublár er litur alþjóðlegrar réttindabaráttu fatlaðs fólks og Norðurþing tekur þátt í deginum og mun leggja þessari mikilvægu baráttu lið með því að lýsa upp nokkrar starfsstöðvar í sveitarfélaginu til og með föstudeginum 5. desember. Ljósi verður varpað á tréin fyrir utan Stjórnsýsluhúsið að Ketilsbraut 7-9, Sólbrekku 28 þar sem starfsemi Miðjunnar og Borgarinnar er og íþróttahúsið á Kópaskeri og Raufarhöfn.
Markmiðið er upplýst samfélag – ekki aðeins þessa daga heldur alla daga, samfélag þar sem fatlað fólk nýtur verðskuldaðrar virðingar og sjálfsagðra réttinda.