Fara í efni

Útskrift nemenda í verkefninu Farkennarinn – íslenska á vinnustað

Á miðvikudaginn lauk með útskrift nemenda verkefninu Farkennarinn – íslenska á vinnustað sem var samstarfsverkefni Norðurþings og Þekkingarnets Þingeyinga. Verkefnið miðar að því að þróa nýjar og aðlagaðar aðferðir til íslenskukennslu þar sem kennslan fram fer á vinnustaðnum sjálfum á vinnutíma starfsmanna.

Alls tóku 17 starfsmenn frá mismunandi vinnustöðum þátt í verkefninu, þar á meðal Leikskólanum Grænuvöllum, Sundlauginni á Húsavík, Pálsgarði, Vík, Miðjunni og Stjórnsýsluhúsi. Kennslan var í höndum Dóru Ármannsdóttur sem leggur áherslu á hagnýta þjálfun sem byggir á raunverulegum aðstæðum vinnustaðanna. Nemendur hafa sýnt verulegar framfarir á skömmum tíma, bæði í orðaforða og í færni til að nýta íslenskuna í daglegu starfi. Auk þess hefur Norðurþing fjárfest í aðgengi að Bara tala appinu til að veita þátttakendum frekari verkfæri í íslenskunáminu.

Að mati forstöðumanna á vinnustöðum Norðurþings heppnaðist verkefnið mjög vel og efldist starfsfólk í tjáningu á íslensku sem er bæði vinnustaðnum og starfsfólkinu til heilla.