Sveitalýsingar

Hér er ætlunin að kynna landsvæði sveitarfélagsins Norðurþings austan Jökulsár – , allt að mörkum Melrakkasléttu og Þistilfjarðar við Ormarsá. Áður skiptist þetta landsvæði í nokkra hreppa og innan þeirra hétu og heita enn ákveðnar sveitir eða byggðakjarnar sínum nöfnum. Einkenni á fornum hreppaheitum í Norður-Þingeyjarsýslu var að þeir voru kenndir við prestsetrin; Sauðaneshreppur, Svalbarðshreppur, Presthólahreppur og Skinnastaðahreppur. Nóg um það að sinni.

Sveitalýsingin hefst í efstu byggðinni; Hólsfjöllum, en sveitarfélagsmörk eru við Biskupsháls þar sem Hólabiskup mætti Skálholtsbiskupi forðum daga eftir yfirreið þeirra beggja um landið. Skiptu þeir þar á hálsinum biskupsembættunum til norðurs og suðurs. Þá verður haldið til byggða í Öxarfirði, þaðan út Núpasveit og fyrir Melrakkasléttu.

Nefnd verða helstu býli sem á vegi verða og þá horft um öxl til sögunnar. Ófært er að gera þeim öllum nákvæm skil, þar á meðal öllum þeim fjölda eyðibýla á svæðinu þar sem heimildir, sagnir og minjar vitna um búsetu fyrrum. Flest þeirra eru úr alfaraleið enda leiðir aðrar þá en nú og fyrir ábúendum þessara kota vakti það eitt að geta stundað sjálfstæðan búskap og framfleytt sér og sínum. Hvert heiðarvatn, lækur með fiski í, sæmilegur grasbali eða stör í mýrarflóa gaf fyrirheit um slíkt. Norðaustan stórhríðar, frosthörkur og kalin jörð að sumri þegar landfastur ís var með allri ströndinni gerðu hins vegar þessar vonir margra að engu. Það var ekki að ástæðulausu að frá þessu landsvæði flutti ótrúlegur fjöldi fólks til fyrirheitna landsins Vesturheims undir lok 19. aldar. Þannig fluttu á árunum 1873 – 1910, 80 manns af Hólsfjöllum, 63 úrÖxarfirði, 29 úr Núpasveit, 34 af Vestur-Sléttu og 81 frá Austur-Sléttu eða samtals um 287 manneskjur úr þessu héraði skv. Vesturfaraskrá. Má af þessum tölum sjá að þetta var ekki lítil blóðtaka.

Félagsþroski Þingeyinga er landsþekktur og hefur verið eitt af aðalsmerkjum “kynstofnsins”. Svo er enn og íbúar á austursvæði sveitarfélagsins búa ríkulega að þessari menningararfleifð. Í þessum sveitum var og er myndarlegt félagslíf og fjöldi áhugafélaga sem hafa tekið breytingum í tímans rás. Sum þeirra hafa verið lögð niður eða sameinuð en sífellt bætast við ný eftir því sem áhugi fólks segir til um. Nefna má ungmennafélög með öllum sínum íþróttagreinum, kvenfélög, kóra, leikfélög, lestrarfélög, verkalýðsfélög, björgunarsveitir, fjárræktarfélög, bridgeklúbba, golfklúbba, Kiwanis og Lions. Boðið er upp á nám í tónlist og myndlist ásamt öðru slíku er gleður mannsandann og eflir sjálfsvitund og þroska.

“Hverjum þykir sinn fugl fagur” segir gamalt orðtak. Sannarlega á það við þegar íbúar við Öxarfjörð og Melrakkasléttu lýsa sínu byggðarlagi. Landið og náttúra þess er stórbrotið; einstakt og sannarlega þess virði að því sé veitt eftirtekt.

Í hrikalegum gljúfrum Jökulsár á Fjöllum, með öllum sínum tröllaheimum, hávaða og krafti, lifir lítið blóm með allri sinni litaskrúð og daggardropi glitrar sem gimsteinn á strái.

Sandauðnin hefur hljótt um sig í logninu, saklaus og falleg, en um leið og hvessir rýkur sandurinn upp og byrgir fyrir sólu -ógnar byggðum og eirir engu sem á vegi hans verður. Melgresið vekur undrun og aðdáun; – hvernig fer þessi jurt að lifa við þessar aðstæður?

Ströndin fjölbreytt; sandar – fínlegir malarkambar og svo stórgrýtisurðir sem vart eru færar gangandi mönnum – og ótalin eru björgin með öllum sínum fuglum og hrikaleika. Á fjörurnar skolar Ægir því sem hann hefur ekki lyst á hvort heldur það er nú eitthvað frá náttúrunni sjálfri eða eitthvað ættað úr mannheimi. Endalaust eitthvað að skoða og velta fyrir sér uppruna þess. Út á steinum og skerjum sólar selurinn sig og veltir sér svo í hafið á fund hlaðborðs sjávarins þar sem gjöful fiskimiðin bjóða til veislu.

Fuglalífið fjölbreytt; við ströndina æður, mávur, skúmur, himbrimi, skarfur, súla, lundi og annar sjófugl ásamt sanderlum, rauðbrystingum, sendlingum og tjöldum svo eitthvað sé nefnt. Við votlendið halda sig álftir, endur, gæsir, óðinshanar, þórshanar, hettumávar, kríur, spóar, stelkar, jaðrakanar, lómar og er þá fátt eitt talið. Í móum og kjarri; heiðlóa, lóuþræll, þröstur, músarindill, rjúpa og hið efra sveima hrafnar, kjóar, smyrlar og fálkar.

Refur á hlaupum frá grasivöxnum íverustað með ótal munnum- flóttaleiðir sem hann hefur fundið not fyrir eftir 1100 ára sambúð með manninum á Íslandi. Minkur skýst undan steini; fiskur í læk og vatni. Eitt sinn gengu hreindýr um Sléttuna og hver veit nema þau eigi þar afturkvæmt.

Birki og víðitegundir og sumt svo hávaxið að fólk hverfur, og þar er einnig að finn stærstu fjallagrös landsins, - samt svo smá og rótlaus að fólk verður að lúta í gras til að nálgast þau til að geta soðið í grauta, súpur eða mixtúrur. Berjalönd ótæmandi; krækiber, bláber, aðalbláber blá sem svört, hrútaber, einiber og reyniber og fleiri mætti nefna.

Árnar glitrandi tærar, með silfurhvítum fossum, renna fram með háa bakka sér til skjóls eða þær flæða óbeislaðar um sandana; - lax og silungur, ekki aðeins í ám heldur og í lónum og heiðarvötnum – hvergi rauðari og ostmeiri.

Ís fyrir landi, jafnvel landfastur og bjarndýr gengið á land, kalin jörð eftir langvarandi frosthörkur en undir streymir heitt vatn – jarðvarminn svo mikill að mætti hita heilu byggðirnar og knýja stór orkuver, ef vilji og geta stæðu til þess.

Vetrardagar með norðaustan snjókomu svo hvergi grillir í dökkan díl og mannhæðaháir skaflarnir stöðva för – þá skafrenningur og nístingskuldi – harðindi sem stangast á við sumarið með sól og hita sem oft nær hámarki á svæðinu. Eftir slíkan dag er sólin orðin þreytt og sígur rauðglóandi til hvílu sinnar við ysta sjóndeildarhring – en ekki dugar henni að slugsa þar og áður en hún tyllir sér á flötinn rís hún upp að nýju í annan sólargang. Hvergi er sólarlagið fegurra en einmitt á þessum slóðum og þeir sem ekki hafa upplifað miðnætursól norðursins í þögn og einir með sjálfum sér, eiga heilmikið eftir áður en deyja.

Og svona mætti upp telja náttúruundur svæðisins, fegurð þess og andstæður.

Aðeins eitt ráð er til að kynnast þessu nánar – koma í heimsókn og upplifa svæðið.

Texti: Níels Árni Lund