Vestur-Slétta

Telja má upp undir 30 býli á Vestur-Sléttu, þar sem á sínum tíma var búið með sauðfé. Margar jarðirnar voru stórar – góð afréttarlönd, fjörubeit, reki og önnur sjávarhlunnindi – landkostir sem áður voru metnir að verðleikum. Á þetta einnig við um Austur-Sléttuna . Flest voru býlin á Vestur-Sléttu um og eftir miðja öldina og fram undir 1990. Þá fór búum mjög fækkandi og eru þau nú aðeins þrjú, þar af tvö á Leirhafnarjörð.

Vestasta jörð Melrakkasléttu er landnámsjörðin Leirhöfn en landamerki hennar og Snartarstaða, nyrstu jarðar Núpasveitar, liggja um Hafnarskörð, alfaraleið að fornu og nýju. Við tekur sandsvæðið Geitasandur og þar í Leirhafnarfjöllunum varð vart við einhver eldsumbrot 1823. Af Geitasandi er ekið upp á brún Háhyrningsdals – Dalbrúnina. Við blasir bæjarþyrpingin á Leirhafnarjörð.

Bæjarhúsin í Leirhöfn standa austan Leirhafnarvatns við rætur fjallanna og var þar um og eftir miðja síðustu öld eitt stærsta sauðfjárbýli landsins. Tóftir við Seltjörn vestan Leirhafnarfjallana eru einu minjarnar um Leirhafnarsel, þar sem talið er að hafi verið búið fyrr á öldum. Leirhöfn var í þjóðbraut og oft gestkvæmt. Þar var miðstöð sveitarinnar fyrir Póst&Síma. Í Leirhöfn var um tíma rekin landsþekkt húfugerð af Helga Kristjánssyni sem einnig var mikill bókasafnari. Safn sitt gaf hann sýslunni og er það nú varðveitt í Safnahúsinu við Snartarstaði. Við Leirhöfn byggðist upp bæjarkjarni; Leirhafnartorfan. Fyrsta býlið út úr Leirhöfn var Nýhöfn; byggð 1919, nyrst á Leirhafnartanganum sem liggur til norðurs milli Leirhafnarvatns og sjávar. Þar bjó Kristinn bróðir Helga í Leirhöfn, stundaði járnsmíðar fyrir héraðið og langt utan þess fram eftir 20. öldinni og fann upp línurennuna sem enn er notuð við fiskveiðar.

Um og eftir miðja síðustu öld var búið á níu heimilum á Leirhafnartorfunni og mannfjöldinn um og yfir 50 manns á sama tíma. Í daglegu tali var bæjarþyrping þessi nefnd Leirhafnartorfa. Þessi byggð er mikið breytt og er nú aðeins búið á tveimur býlum í Leirhöfn og Reistarnesi, vestur á sjávarkambinum. Fastri búsetu lauk í Miðtúni, á vesturbakka vatnsins, upp úr síðustu aldamótum og sömuleiðis í Sandvík sem er upp af höfninni; húsum er vel við haldið af brottfluttum ættingjum. Nýhöfn fór í eyði 1971 en húsið hefur verið gert upp til sumardvalar. Í Nýhöfn II var búið fram yfir síðustu aldamót en þar var rekið verkstæði og stunduð sjósókn. Töluverð útgerð var frá höfninni í Nýhöfn, einkum upp úr 1960 og allt fram yfir síðustu aldamót þegar margir gerðu þaðan út á grásleppu. Byggð var lítil bryggja sem erfitt var að halda við vegna ágangs sjávar og er nú með öllu horfin nema hluti hafnarbakkans sem ruddur var fram.

Enn eitt býlið á Leirhafnartorfu var iðnaðarbýlið Sæberg, (1947-1990) sem stóð á sjávarbakkanum austan hafnarinnar en hefur verið fjarlægt. Þar var um tíma rekin nokkur útgerð, m.a. af Færeyingum. Fjölskyldumeðlimir þaðan hafa byggt sér sumarhús við Brunavatnið niður af Gefluhlíðum á fyrrum félagsræktun Austur-Sléttunga.

Leirhafnarfjöllin sem ná allt inn að Fjallarenda umlykja byggðina allt í Hálshnjúksskarð sem þjóðvegurinn liggur um austur á Sléttuna. Oft skiptir um veður á Sléttu um Leirhafnarfjöllin. Einkennisfjall þeirra er Gefla, 180 há, áberandi kúlulaga fjall og norðan hennar eru Einbúabrekkur með klettadröngunum; Einbúa niðri á sandinum og Kerlingu litlu ofar í hlíðinni - tröllum sem döguðu þar uppi á leið sinni til fjalla með hval úr fjöru. Auðvelt er að ganga á Leirhafnarfjöll og útsýni mikið. Undirlendið skiptist í grunna lyngmóa, mela, tjarnir og mýrar, að viðbættu sandflæmi milli Leihafnarvíkur og Leirhafnarvatnsins, sem er talið að hafi verið hluti hafnarinnar við landnám.

Inn með björgum Snartarstaðanúps er mikil náttúrufegurð. Hestfallshóll er áberandi klettaþúfa sem nær í sjó fram og skammt norðar er lítil eyja, Kollur. Frá björgum Snartartaðanúps lækkar landið og ströndin tekur við með fjölda voga og flúða. Út af Nýhöfn ganga áberandi sker sem afmarka höfnina, hvert með sínu nafni. Flest þeirra eru áberandi á fjöru en hverfa að verulegu leyti á flóði. Innsigling er því varasöm nema siglt sé eftir merkjum. Leirhöfn þótti fyrrum lífhöfn. Á skerjunum eru oft selir og fuglalíf er mikið og fjölskrúðugt við höfnina sem og lengra inn til landsins.

Rauðinúpur blasir við beint í norður, 73 m hár og þekkt kennileiti af sjó með miklu fuglalífi í rauðu bergi og má nefna lunda og hafsúlu. Á Rauðanúpi er viti og endurvarpsstöð sjónvarps. Við norðaustur horn hans er drangur mikill Karlinn nær jafnhár núpnum, en hefur til margra ára borið nafnið Jón Trausti – skáldanafn Guðmundar Magnússonar sem dvaldi unglingsárin í Núpskötlu. Suður af núpnum eru Hvammafjöll, þá móbergsraninn Jörfinn sem endar í Hálshnjúk.

Út undir Hraunum, klettabelti austan Leirhafnarinnar, tekur við land Grjótness. Sunnan við Hraunin var lítið samnefnt býli sem fátt er vitað um. Norðan við Hraunin var lítið býli Kílsnes (-1904) og sjást tóftir þess greinilega, auk þess sem þar gefur að líta fyrrum beitarhús frá Grjótnesi. Nyrst út við sjóinn er Grjótnes, þar sem lengst af var mannmargt tvíbýli. Þar var gott til búskapar, ræktunarland, fjörubeit, reki og önnur hlunnindi. Búskapur þar hefur lagst af en íbúðarhúsin hafa verið endurbyggð að hluta og vel við haldið.

Austan Skarðsins í enda Leirhafnarfjalla blasir Vestur-Sléttuheiði við til austurs, með lágum hálsum, vötnum og mýrarflákum er austar dregur grösug og mikið sauðfjárbeitiland. Við rætur Rauðanúps að austan er býlið Núpskatla. Búskap þar hefur verið hætt en búið á jörðinni stunduð sjósókn og rekaviðarvinnsla. Góð silungsveiði er í Kötluvatni sem er suður af bænum – fallegur fiskur.

Af svonefndri Þýfigötu er liggur úr Hálshnjúksskarði og austur undir Sigurðarstaðabáru er afleggjari að landnámsjörðinni og fyrrum stórbýlinu og hlunnindajörðinni Oddstöðum, sem stendur vestan Skerjalónanna. Íbúðarhúsið er nýtt til sumardvalar. Enn lengra norður á tanganum á Hjallanesi er Afaborg, einnig sumardvalarstaður. Upp af Suðurvatnsflóanum var býlið Vatnsendi en er nú sumarhús. Enn eitt býlið í Oddstaðalandi var Vellankatla norðan Vellanköltluvatns, sem heimildir eru til um búsetu á fyrr á öldum, þó ekki lengur en til 1750.

Þegar Þýfugötunni tekur að halla til norðurs að sjónum má sjá leifar af nýbýlinu Brúnum (1953-1964) sem reist var í Sigurðarstaðalandi um miðbik síðustu aldar; þar eru nú rústir einar. Ekið er að Sigurðarstöðum eftir sandbáru er skilur Sigurðarstaðavatnið frá sjó. Sigurðarstaðir eru landmikil hlunnindajörð. Þar er búið með sauðfé, stunduð útgerð, æðarrækt, veiði í vatni og reki nýttur. Á þessu svæði sem öðrum er að finna forn eyðibýli; Torfastaði, Strandasel og Þorbjarnastaðir sem litlar eða engar heimildir eru til um. Frá Sigurðarstöðum er ekið um sandbáru milli vatns og sjávar sem verður oft fyrir harkalegum árásum Ránardætra í stórviðrum.

Komið er að Blikalóni, kostamikilli sauðfjárjörð með veiði í samnefndum lónum, æðarvarpi og öðrum sjávarnytjum. Búskap hefur þar verið hætt en eigendur og ættmenni nýta jörðina og húsin einkum um sumartímann. Blikalón er austasta jörð á Vestur-Sléttu.

Texti: Niels Árni Lund