Fara í efni

Ársreikningur Norðurþings 2022 samþykktur samhljóða í sveitarstjórn við síðari umræðu þann 11. maí 2023.

Rekstur Norðurþings á síðasta ári kom betur út en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir.

Helstu lykiltölur ársreiknings eru sem hér segir:

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu um 6.301 millj. króna samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A- og B-hluta en gert hafði verið ráð fyrir rekstrartekjum um 5.464 millj. króna. Rekstrartekjur A- hluta námu um 4.830 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 4.123 millj. króna. Rekstrartekjur samstæðunnar jukust um tæp 13% á milli ára sem er jákvætt.

Rekstrartekjur samstæðunnar 2022 greinast þannig:
Útsvarstekjur                                              2.227 millj.kr.   (álagningarhlutfall 14,52%)
Fasteignaskattur og lóðarleiga              439 millj.kr.
Framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga   877 millj.kr.
Aðrar tekjur                                                  2.758 millj.kr.
 

Framlag Jöfnunarsjóðs hækkaði á milli ára um 25.000 kr. Verið er að endurskoða regluverk og skiptingu framlaga Jöfnunarsjóðs sem gæti leitt til þess að framlög til Norðurþing skerðist um allt að 100 millj.kr. og þarf að hafa það í huga við gerð næstu fjárhagsáætlunar.

Rekstrarniðurstaða í A-hluta var jákvæð um 137 millj.kr. en neikvæð í samstæðunni, A- og B-hluta, um 39,1 millj.kr. 

Stærsti útgjaldaliður sveitarfélagsins er vegna launa og launatengdra gjalda, alls um 3.594 millj.kr. Í heild voru 256 meðalstöðugildi hjá sveitarfélaginu á árinu 2022 sem er aukning um 5,7% á milli ára. Aukningin á sér m.a. skýringar í samþykktum sveitarstjórnar vegna yfirtöku á rekstri bókasafns, aukningu stöðugilda á Grænuvöllum og að hluta til vegna rekstrar á VÍK en sá rekstur hófst í janúar á síðasta ári. Hlutfall launa af rekstrartekjum var næstum óbreytt á milli ára, rúm 52%.

Á sveitarfélaginu hvílir skuldbinding vegna lífeyrisréttinda starfsmanna sveitarfélagsins í B-deild LSR. Gjaldfærð hækkun lífeyrisskuldbindinga hjá samstæðunni nam 287 millj.kr. á árinu sem er litlu hærra en árið áður.

Annar rekstrarkostnaður A-hluta nam 1.423 millj.kr. og hækkaði um 211 millj.kr á milli ára. Annar rekstrarkostnaður hjá A-og B-hluta saman nam 1.934 millj.kr. á árinu 2022 og hækkar um 276 millj.kr. á milli ára.

Fjármagnsliðir samstæðunnar voru neikvæðir um 424 millj.kr. á árinu sem er 148 millj.kr umfram áætlun og aukning um 158 millj.kr. á milli ára. Skýringin er að vaxtastig og verðbólga voru mun hærri en gert var ráð fyrir í áætlun.

Varanlegir rekstrarfjármunir A og B-hluta voru 7.141 millj.kr. í árslok og höfðu hækkað um 38 millj.kr. á milli ára. Lóðir og lendur voru endurmetnar byggt á hækkun lóðaleigutekna og nam endurmatshækkun þeirra 140 millj.kr.

Heildarfjárfesting samstæðunnar í varanlegum rekstrarfjármunum nam 375 millj.kr. Gert hafði verið ráð fyrir að verja 726 millj.kr. til fjárfestinga á árinu en hvorki hjúkrunarheimili né Frístund kom til framkvæmda. Helstu fjárfestingarnar voru 86 millj.kr. í endurbætur fasteigna Eignasjóðs, 77 millj.kr. í gatnagerð og tengdar framkvæmdir við golfskála, 35 millj.kr. í framkvæmdir við Suðurfjöru og28 millj.kr. dreifðust á önnur verkefni. Í Hafnasjóði var fjárfest fyrir 34 millj.kr. alls þar af um 15 millj.kr. í gatnaframkvæmdir á hafnarsvæðinu á Húsavík. Orkuveita Húsavíkur fjárfesti fyrir 84 millj.kr á árinu í veitukerfum og búnaði en helstu fjárfestingar OH voru tengdar framkvæmdum í hitaveitu í Reykjahverfi og Aðaldal.

Afskriftir ársins námu 388 millj.kr. hjá A- og B-hluta.  Þá nam söluverð eigna 86 millj.kr og var nettó sölutap 4 millj.kr.

Lausafjárstaðan í árslok var mjög sterk en handbært fé A- og B-hluta nam alls 1.457 millj.kr. í lok ársins og hafði hækkað um 530 millj.kr. á milli ára. Skýring á þessu er m.a. að farið var í minni fjárfestingar en gert hafði verið ráð fyrir eins og áður hefur komið fram.

Í A-hluta var veltufé frá rekstri 702 millj.kr. og veltufjárhlutfallið 1,53 samanborið við 1,36 árið 2021. Veltufé frá rekstri hjá samstæðunni var alls 948 millj.kr í árslok og veltufjárhlutfall samstæðunnar 2,02 í árslok, var 1,88 í árslok 2021. Það er mjög sterkt en að jafnaði er horft til þess að veltufjárhlutfall sé amk. yfir 1,0.

Handbært fé frá rekstri var 771 millj. króna hjá A-hluta en 1.009 millj. hjá samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta.  Þessi tala gefur vísbendingar um hæfni Norðurþings til að greiða skuldir og standa undir nauðsynlegum fjárfestingum á árinu.

Heildareignir sveitarfélagsins í samstæðunni námu 10.085 millj. króna í árslok 2022, þar af voru heildareignir A-hluta 6.678 millj. króna. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 2.442 millj.kr. samkvæmt efnahagsreikningi, en þar af var eigið fé A-hluta um 1.373 millj.kr.

Heildarskuldir bæjarsjóðs námu um 5.305 millj. króna í árslok. Heildarskuldir samstæðunnar voru 7.643 millj. króna í árslok. Þar af voru lífeyrisskuldbindingar 2.433 millj.kr. og skuldir við lánastofnanir 2.696 millj.kr. Aðrar langtímaskuldir voru 1.370 millj.kr. en þær eru annars vegar víkjandi lán frá Ríkinu í Hafnasjóði og hinsvegar skuldir við búseturétthafa hjá Dvalarheimili aldraðra.

Norðurþing tók engin ný langtímalán á árinu en gert hafði verið ráð fyrir lántöku að upphæð 470 millj.kr. vegna framkvæmda sem ekki tókst að fara í eins og áður hefur komið fram. Skuldir við lánastofnanir lækkuðu um 15 millj.kr. á milli ára og eru þá teknar með næsta árs afborganir langtímaskulda. Afborgun á árinu af höfuðstól langtímaskulda nam 236 millj.kr. hjá A- og B-hluta. Skuldahlutfall Norðurþings er 55% hjá A-hluta í árslok og 67% hjá samstæðunni. 

Íbúum sveitarfélagsins fjölgaði um 85 á árinu og voru alls 3.155 í árslok.

Nokkrar lykiltökur á íbúa í árslok talið í þúsundum króna:

                                    A-hluti             A-og B-hluti saman
Skatttekjur                      849                  845
Heildartekjur              1.531               1.997
Heildareignir              2.117               3.197
Skuldir                           1.400               2.126
Stærð málaflokka í % af skatttekjum A-hluta:
Fræðslumál eru stærsti málaflokkurinn sem tekur til sín 53,3%
Sameiginlegur kostnaður er 15,3%
Æskulýðs- og íþróttamál eru 13,3%
Félagsmál eru  13,2%
 
Afkoma B-hluta fyrirtækjanna er sem hér segir:
Félagslegar íbúðir                  neikvæð um 29,5 m.kr
Hafnasjóður Norðurþings       neikvæð um 116 m.kr
Orkuveita Húsavíkur ohf         jákvæð um   100 m.kr
Fjárfestingafélag Norðurþings neikvæð um 13,8 m.kr
Leigufélagið Hvammur ehf.    jákvæð um     16,8 m.kr
Dvalarheimili aldraðra sf        neikvæð um   41,6 m.kr

Reikningurinn hefur áritun óháðs endurskoðanda og það er Níels Guðmundsson hjá Enor ehf. sem gegnir því hlutverki. Við þökkum gott samstarf við hann við gerð þessa ársreiknings.

Hér má sjá ársreikninginn í heild sinni.

Ég vil þakka fjármálastjóra og starfsfólki í fjármáladeild fyrir vel unnin störf við gerð ársreikningsins. Einnig þakka ég starfsfólki Norðurþings og stjórnendum fyrir góða vinnu á síðasta ári.

Sveitarstjórn skilar hér góðum ársreikningi í krefjandi vaxtaumhverfi, mun betri en gert hafði verið ráð fyrir í áætlunum.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri.