Skíðalyfta í Reyðarárhnjúk verður opnuð 27.desember

Mynd tekin 12. apríl 2005 sem sýnir nokkurn vegin núverandi skíðaland Norðurþings
Mynd tekin 12. apríl 2005 sem sýnir nokkurn vegin núverandi skíðaland Norðurþings

Kæru íbúar Norðurþings og gestir,

Á undanförnum vikum og mánuðum hefur verið unnið sleitulaust að uppsetningu skíðalyftu í Reyðarárhnjúk. Þeir Garðar Héðinsson og Böðvar Bjarnason hafa haldið utan um það verkefni af slíkri prýði að seint verður full þakkað að mínum dómi. Þeir hafa verkstýrt framkvæmdinni í samráði við fjölda velviljaðra fyrirtækja, einstaklinga og starfsmenn sveitarfélagsins og nú er allt að verða klárt svo opna megi svæðið fyrir íbúa og gesti.

Í samráði við íþrótta- og tómstundafulltrúa og starfsmenn hans, auk þeirra félaga Garðars og Böðvars, verður nýtt skíðasvæði formlega opnað 27. desember n.k., kl 13:00 og hvet ég ykkur öll til þess að fagna þessum áfanga í sameiningu með því að mæta uppeftir hvort sem þið hafið skíðin með ykkur eður ei. Munið bara að klæða ykkur vel. Stutt athöfn verður haldin á slaginu kl. 13:00 áður en lyftan verður gangsett.

Vinsamleg ábending er um það að enn sem komið er bjóða aðstæður ekki upp á mikla umferð og bílastæði ekki undirbúin fyrir fjölda bíla svo að fólk er beðið um að sýna þolinmæði sem og nærgætni á svæðinu. Einnig skal hafa í huga að búast má við að einhverjum hnökrum í byrjun og því gildir góða skapið og þolinmæðin.  

Eftirtalin fyrirtæki fá þakkir fyrir stuðning við verkið ómetanlegt framlag til að gera þetta að veruleika.

 • Trésmiðjan Rein ehf
 • Steinsteypir ehf
 • Víkurraf ehf
 • Hóll ehf
 • Grímur vélsmiðja ehf
 • Ístrukkur ehf
 • Vélsmiðjan Ásverk ehf
 • Bláfjall ehf
 • Ísfell
 • Landsvirkjun
 • PCC Bakkisilicon Hf
 • Mannvit

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest þann 27. desember í jóla-skíðaskapi,

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri