Fara í efni

Skíðasvæðið við Reyðarárhnjúk – í vertíðarlok

Skíðavertíðin er senn á enda og síðasti opnunardagur í Reyðarárhnjúk er 1.maí næstkomandi. Lyftur verða opnar frá 13 – 17 og göngubrautir troðnar eins og venjulega.

 

Góður vetur þrátt fyrir allt sem gengið hefur á

Heilt yfir hefur veturinn gengið vel þrátt fyrir að covid heimsfaraldurinn hafi takmarkað opnunina að einhverju leyti. Til að mynda var ekki hægt að hafa opið um páskana hér sem annarstaðar sem er oftar en ekki sá tími sem nýttur er til skíðaiðkunar.

Skíðasvæðið var formlega opnað í núverandi mynd þann 28.desember 2019. Fyrsta skíðaveturinn voru opnunardagar einungis 10 talsins. Byrjunarerfiðleikar með lyftu, heimsfaraldur og stöðugur lægðagangur settu strik í reikninginn svo ekki sé meira sagt.

Því má segja má að veturinn sem nú er að líða sé fyrsta alvöru reynsla okkar af nýja skíðasvæðinu. Fyrsta göngusporið var lagt uppá heiði þann 8.desember og þann 13.janúar 2021 var opnað í skíðalyftuna. Ljóst er að mikil eftirvænting í fólki og má nefna að 2500 manns horfðu á myndband sem birt var á facebook síðu svæðisins daginn fyrir lyftuopnun. https://www.facebook.com/107853870757146/videos/406213127263380

Helstu tölur um rekstur skíðasvæðisins

Nú þegar vertíðin er senn á enda er gott að líta um öxl og rýna í það hvernig til tókst. Helstu tölur skíðasvæðisins eru eftirfarandi:

-          Opnunardagar lyftu verða samtals 52 (að því gefnu að ekkert bregðist á lokametrunum)

-          Gestafjöldi í lyftu = um 1600 manns

-          Tekjur skíðasvæðis = um 1.800.000 kr.

-          Gönguspor hefur verið lagt 84 sinnum en ekki eru til gestatölur á göngusvæði

-          Meira en 100 árskort voru seld

 

Eins og sjá má á þessum tölum er hægt að segja að Húsavík sé að minna vel á sig sem skíðabær. Ef allt hefði gengið 100% upp (sem er ef til vill óraunhæf krafa) hefði auðveldlega verið hægt að ná 70 opnunardögum eða meira. En bilanir á rúmlega 20 ára gömlum troðara og covid eru hlutir sem erfitt er að ráða við.

Skíðagangan í miklum vexti

Vert er að minnast á skíðagöngunámskeið sem hér fóru fram á liðnum vetri. Fosshótel Húsavík stóð fyrir pakkaferðum með skíðagöngukennslu sem mældust vel fyrir að sögn starfsmanna hótelsins. Um 120 manns komu í slíkar ferðir og nutu alls þess sem Húsavík og nærumhverfi hefur uppá að bjóða. Skíðagangan er í gríðarlegum vexti á landsvísu og er vert að minnast á þátt öflugra frumkvöðla í Skíðagöngudeild Völsungs sem eiga sinn hlut í þeirri uppbyggingu. Deildin hefur ekki látið sitt eftir liggja hvað varðar göngunámskeið, góð ráð og vinnuframlag. Eru þeim aðilum hér með færðar bestu þakkir fyrir sitt framlag. Eins er vert að nefna þátt björgunarsveitarinnar sem hefur oftar en einu sinni aðstoðað með verk sem fyrir fram hefðu þótt ómöguleg!

Hundasleðahlaup

150 kílómetra langt hundasleðahlaup var haldið á Húsavík í febrúar. Hlaupið hófst á tjaldsvæðinu og var hlaupin 75km leið uppí Þeistarreykjaskála þar sem var gist. Daginn eftir var sama leið hlaupin til baka, samtals 150 kílómetrar! Um er að ræða fyrsta Long Distance hundasleðahlaup á Íslandi og var það heimamaðurinn Hilmar Freyr Birgisson sem sigraði og var raunar eini sem kom í mark. 4x4 klúbburinn og Björgunarsveitin lögðu sitt að mörkum til að gera viðburðinn mögulegan og má lesa nánar um keppnina hér. Vonandi er þessi áhugaverði viðburður kominn til að vera og gefur vísbendingu um hversu fjölbreytt útivistarsportið er í dag.

 

Langhlaupið hafið

Uppbygging svæðisins er langhlaup og við erum rétt að komast úr startholunum.  Lyftan er farinn að ganga vel og þessi skíðavetur gefur góða raun fyrir það sem koma skal.

 

Þakkir fyrir góðan skíðavetur og hlökkum til að sjá ykkur í brekkunum á næsta tímabili!
kveðja, starfsfólk Skíðamannvirkja