Covidpistill sveitarstjóra #7

Vodafonevöllurinn á Húsavík
Vodafonevöllurinn á Húsavík

Í dag eru staðfest 30 covid-smit á Norðurlandi eystra og eins og komið hefur fram í fréttum hefur orðið aukning í smitum á Akureyri yfir helgina. Ekkert nýtt smit hefur verið greint í Norðurþingi. Ég vil sérstaklega óska öllum viðbragðsaðilum okkar sem voru að ljúka sóttkvíarvist í dag alls velfarnaðar. Það veitir ekki af því að fá þann góða hóp frískan aftur til starfa til heilsugæslunnar, lögreglunnar og slökkviliðsins. Mjög góðar fréttir að þau séu að koma til baka.

Það var áberandi um helgina hvað fólk var duglegt að sinna útiveru og margir nýttu hið ágætasta veður til göngu eða leikja með börnum sínum. Það er nákvæmlega eins og við viljum hafa það. Lögreglan var sérstaklega á ferðinni til að ganga úr skugga um að yngsta kynslóðin væri ekki að hópast saman utandyra og eftir því sem ég kemst næst þurfti ekki að hafa afskipti af nema einu atviki sem leystist farsællega eftir samtal við börnin. Við verðum áfram að virða fjarlægðarmörkin á opnu svæðunum okkar og vellinum á Húsavík sérstaklega þar sem töluvert margir koma til þess að labba á upphituðu gervigrasinu.  Það yrði afleitt að þurfa að hefta enn frekar aðgang að því svæði. Það verður hins vegar gert ef upp fara að koma atvik þar sem fyrirmælum er ekki hlýtt hvað varðar fjarlægðarmörk. Látum það ekki gerast.

Ég var rækilega minntur á það af syni mínum um helgina að það er ekki ráðlegt að fleiri en einn úr hverri fjölskyldu fari í búðina á sama tíma. Það var gott hjá honum, nema hvað að ég fékk áminninguna eftir að við báðir höfðum farið saman í búðina. Honum hafði verið lofað sælgæti sem ég trúi að hann hafi viljað velja sjálfur og því ekki komið skilaboðunum á framfæri við mig fyrr en það mál var afstaðið. En ég flaska ekki aftur á þessu og þið vonandi ekki heldur. Heilt yfir þá hafa verslunarrekendur gert mjög vel í að merkja á gólf til einföldunar fyrir gesti að virða fjarlægðarmörkin við næsta mann. Þessar merkingar duga aftur á móti ekki ef fólk ákveður að fara ekki eftir þeim. Þótt heilt yfir gangi vel í verslunum og fólk sé tillitsamt er alltaf eitthvað um að fólk telji reglurnar ekki eiga við um sig. Í guðanna bænum leiðréttið þann misskilning kurteislega við það ágæta fólk.

Skólastarfið gengur áfram vel fyrir sig miðað við aðstæður. Fleiri börn eru að mæta bæði í leik- og grunnskóla heldur en í upphafi síðustu viku og það er bara mjög gott mál. Við vinnum að sjálfsögðu áfram eftir öllum okkar stífu verklagsreglum og munum ekki gefa neinn afslátt á þeim. Á næstu dögum munu svo leikskólastjórnendur senda út upplýsingar er varðar útfærslu á leikskólagjöldum, bæði fyrir mars og apríl, til samræmis við ákvörðun byggðarráðs frá því á fimmtudag í síðustu viku um leiðréttingu gjalda.

Að lokum vil ég færa bestu þakkir til þeirra sem sinna og halda utan um frábært starf Rauða krossins í Þingeyjarsýslu. Sjálfboðaliðar úr þeirra röðum hafa sinnt úthringingum til mjög fjölmenns hóps aldraðra og annara sem eru jafnvel einir á báti. Að mínu mati skiptir þessi vinna sköpum og er félagsþjónustu sveitarfélagsins mjög mikill og góður stuðningur. Ég hef heyrt úr mörgum áttum að úthringingarnar mælist vel fyrir og því vil ég koma þessum þökkum á framfæri hér.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri