Fara í efni

Húsavíkurkirkja 100 ára

Húsavíkurkirkja verður 100 ára 2. júní en hún var  vígð 2. júní 1907. Rögnvaldur Ólafsson arkitekt teiknaði kirkjuna sem er krosskirkja, byggð úr norskum við. Rögnvaldur var fyrsti Íslendingurinn sem nam byggingarlist og raunar fyrsti nútíma húsameistarinn sem Íslendingar eignuðust. Margir telja að Húsavíkurkirkja sé hans fegursta verk og lofi meistara sinn. Aðalhleðslumaður við grunn kirkjunnar var Jón Ármann Árnason steinsmiður, Fossi, Húsavík. Yfirsmiður var Páll Kristjánsson smiður og kaupmaður á Húsavík.

Húsavíkurkirkja verður 100 ára 2. júní en hún var  vígð 2. júní 1907. Rögnvaldur Ólafsson arkitekt teiknaði kirkjuna sem er krosskirkja, byggð úr norskum við. Rögnvaldur var fyrsti Íslendingurinn sem nam byggingarlist og raunar fyrsti nútíma húsameistarinn sem Íslendingar eignuðust. Margir telja að Húsavíkurkirkja sé hans fegursta verk og lofi meistara sinn.

Aðalhleðslumaður við grunn kirkjunnar var Jón Ármann Árnason steinsmiður, Fossi, Húsavík. Yfirsmiður var Páll Kristjánsson smiður og kaupmaður á Húsavík.

Húsavíkurkirkja er með sterkum einkennum svonefnds Schweitzerstíls sem þróaðist í Noregi á seinni hluta 19. aldar og ættaður var frá Sviss. Aðeins eitt ár tók að byggja Húsavíkurkirkju.

Sveinn Þórarinsson listmálari frá Kílakoti, Kelduhverfi málaði altaristöflu kirkjunnar 1930-1931 og sýnir hún upprisu Lasarusar. Altaristaflan er fyrir margra hluta sakir merkileg. Landslag í bakgrunni hennar telja ýmsir sig þekkja úr íslensku umhverfi, m.a. keimlík fjöll úr Öxarfirði og hraungjár úr Kelduhverfi. Einnig var haft á orði að listamaðurinn notaði andlit sveitunga sinna sem fyrirmynd að fólki á altaristöflunni. Það er einnig merkilegt að Lasarus rís upp úr íslenskri gröf og má sjá hraungrýtið rísa beggja megin við Lasarus

Auk þess að vera guðshús hefur kirkjan þjónað sem tónlistarhús um langan aldur þar sem tónlistarfólk innlent og erlent hefir komið fram. Kirkjan er talin rúma um 450 manns í sæti en þegar hún var byggð voru íbúar Húsavíkur liðlega 500.

Kirkjan var friðlýst 1982. 

Nánar á vef Húsavíkurkirkju: http://www.husavikurkirkja.is/

Í tilefni afmælisins verður hátíðardagskrá um helgina.

 

Föstudagur 1. júní

Hátíðartónleikar kl. 20

Kirkjukór Húsavíkur undir stjórn Judit György

Styrkþegar úr Friðrikssjóði

 

Laugardagur 2. júní

Hátíðarguðsþjónusta kl. 14

Kirkjukór Húsavíkur undir stjórn Judit György

Gospelkór Húsavíkurkirkju undir stjórn Guðna Bragasonar

sr. Jón A Baldvinsson vígslubiskup: Prédikun

sr. Sighvatur Karlsson þjónar fyrir altari

Sigurjón Jóhannesson: Ávarp

Jóhanna Héðinsdóttir: Einsöngur

Ásgeir Steingrímsson: Trompet

Hjörleifur Valsson: Fiðla (Stradivarius 1732 )

Kirkjusögusýning í Safnahúsinu kl. 16

Aládár Racz: piano

Björg Þórsdóttir: Einsöngur

 

Kirkjusögusýning í Safnahúsinu opnuð kl. 16

Kirkjusögusýning í tengslum við afmæli Húsavíkurkirkju verður opnuð í Safnahúsinu laugardaginn 2. júní kl. 16. Björg Þórsdóttir syngur lög eftir sr Örn Friðriksson við undirleik Aladár Rácz. Sýningin er opin til 17. júní.

 

Kórtónleikar í Húsavíkurkirkju kl. 17

"Systraafmæli"

Húsavíkurkirkja 100 ára, Neskirkja 50 ára

Kórar kirknanna syngja

Stjórnendur: Judit György og Steingrímur Þórhallsson

 

Sunnudagur 3. júní

 

Hátíðarguðsþjónusta á Sjómannadag kl. 14

Sr. Sighvatur Karlsson prédikar og þjónar fyrir altari

Kór Neskirkju í Reykjavík

Steingrímur Þórhallsson: Orgel

Hjörleifur Valsson: Fiðla

Síðdegistónleikar kl. 17

Vox feminae undir stjórn Margrétar Pálmadóttur

Hjörleifur Valsson: Fiðla

Aðalheiður Þorsteinsdóttir: Pianó og fiðla