Samstarfsyfirlýsing á milli Norðurþings og Landsvirkjunar vegna vistvæns iðngarðs á Bakka.

Skrifað var undir í morgun á zoomfundi. 
Mynd/Landsvirkjun
Skrifað var undir í morgun á zoomfundi. Mynd/Landsvirkjun

Nú í morgun undirrituðu þau Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings og Krisín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar undir samstarfsyfirlýsingu á milli Norðurþings og Landsvirkjunar vegna greiningar á möguleikum þess að þróa iðnaðarsvæðið á Bakka sem vistvænan iðngarð (e. eco-industrial park) ásamt greiningu á möguleikum ólíkra iðngreina til að styðja við frekari uppbyggingu orkuháðrar atvinnustarfsemi á svæðinu samkvæmt markmiðum sveitarfélagsins.

Landsvirkjun og Norðurþing  ætla að greina möguleikana á að þróa áfram iðnaðarsvæðið á Bakka sem vistvænan iðngarð (e. eco-industrial park). Jafnframt verður skoðað hvernig ólíkar iðngreinar geta stutt við frekari  uppbyggingu orkuháðrar atvinnustarfsemi á svæðinu.Norðurþing leggur mikla áherslu á að frekari atvinnuuppbygging á Bakka hafi sjálfbærni að leiðarljósi og styðji við jákvæða samfélagslega og efnahagslega þróun svæðisins.

Mjög sterkir innviðir hafa verið byggðir upp  á Bakka á undanförnum árum, ásamt því að orkuvinnsla Landsvirkjunar á Þeistareykjasvæðinu og flutningskerfi hefur verið eflt til muna. Aðgangur að sterkum innviðum ásamt nýtingu á endurnýjanlegum auðlindum svæðisins  auka mjög tækifæri svæðisins til að hýsa fjölbreytta atvinnustarfi.

Hugmyndafræðin um vistvæna iðngarða byggir á heildrænni nálgun á uppbyggingu iðnaðarsvæða, með sjálfbærni að leiðarljósi. Mótaður er ákveðinn rammi um uppbyggingu svæðisins og lagður grunnur að víðtæku samstarfi fyrirtækja og ýmissa hagaðila sem samnýta innviði, aðföng og hráefnastrauma sína til að draga úr umhverfisáhrifum framleiðslu og styðja við nýsköpun. Uppbygging vistvænna iðngarða er í mikilli sókn á heimsvísu sem aðferð framleiðslufyrirtækja til að stuðla að aukinni sjálfbærni  og til að ýta undir getu þeirra til að starfa eftir hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins.  

Settur verður á fót vinnuhópur ýmissa hagaðila undir stjórn Norðurþings. Hlutverk hans er  að greina möguleika Bakka á þessu sviði.

Kristín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar:

„Sú nálgun á Bakka sem Norðurþing horfir til getur skapað ný og spennandi tækifæri fyrir minni iðnfyrirtæki að byggja upp starfsemi á Íslandi. Slík fyrirtæki krefjast þróaðri innviða en hefðbundnir stórviðskiptavinir Landsvirkjunar. Skýr áhersla á sjálfbærni getur einnig lagt grunn að nýjum tækifærum þeirra sem  horfa sérstaklega til notkunar á endurnýjanlegri orku til verðmætasköpunar. Þar má til dæmis nefna framleiðslu á rafeldsneyti, matvælum eða öðrum vörum þar sem miklar kröfur eru gerðar til sjálfbærni framleiðslunnar.“

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings:

„Framtíð grænnar verðmætasköpunar í Þingeyjarsýslum er björt og lykillinn að langtíma hagsæld fyrir svæðið er að sem fjölbreyttust fyrirtæki byggist upp á grunni sjálfbærrar þróunar. Tækifærin til aukinnar verðmætasköpunar á grunni vistvænnar framleiðslu og aukinnar sjálfbærni innan iðnaðarsvæðisins á Bakka eru það spennandi og mikilvæg fyrir samfélagið að Norðurþing telur nauðsynlegt að leggja mikinn kraft í að þróa svæðið áfram á þeim forsendum. Þá öflugu innviði sem hér hafa verið byggðir upp þarf að fullnýta með sem fjölbreyttustum hætti, með samspili fyrirtækja sem nú þegar starfa á svæðinu í bland við nýja aðila sem t.a.m. sjá hag í að efla hringrásarhagkerfið.“