Tillaga að breytingu aðalskipulags Norðurþings og nýju deiliskipulagi á Húsavíkurhöfða

Húsavíkurhöfði - breytt deiliskipulag
Húsavíkurhöfði - breytt deiliskipulag

Byggðarráð Norðurþings ákvað þann 27. júní 2019 að kynna tillögur að breytingu á Aðalskipulagi Norðurþings 2010-2030 og nýju deiliskipulagi verslunar- og þjónustusvæðis V4 á Húsavíkurhöfða vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar hótels við Vitaslóð. Búið er að byggja upp baðstað og ganga frá bílastæðum á grundvelli gildandi deiliskipulags. Í því deiliskipulagi er gert ráð fyrir hóteli á svæðinu, en lóðin er óheppileg til uppbyggingar og of lítil fyrir þær hugmyndir sem nú liggja fyrir. Nú er því gert ráð fyrir nýrri lóð norðan núverandi skipulagsmarka þar sem byggja megi allt að 200 herbergja hótel sem gæti staðið allt að 20 m upp fyrir núverandi landhæð. Á þeirri lóð sem ætluð er undir hótelbyggingu á gildandi deiliskipulagi er nú gert ráð fyrir að byggja megi allt að 200 m² hús undir borholu og dælustöð fyrir heitt vatn. Tillaga að aðalskipulagsbreytingu felst í því að verslunar- og þjónustusvæði V4 er stækkað (úr 5,4 ha í 6,7 ha) til norðurs og austurs á kostnað grænna svæða og íbúðarsvæðis Í1.
Tillaga að breytingu aðalskipulags er sett fram í A4 hefti með greinargerð. Deiliskipulagstillagan er sett fram á uppdrætti í blaðstærð A2 og greinargerð í sjálfstæðu hefti. Tillagan skilgreinir m.a. byggingarrétt á öllum lóðum innan marka skipulagssvæðis og umferðarleiðir. Við gildistöku nýs deiliskipulags félli eldra deiliskipulag frá 2015 úr gildi.
Skipulagstillögurnar verða til sýnis í stjórnsýsluhúsi Norðurþings að Ketilsbraut 7-9 á Húsavík frá 11. júlí 2019 til 23. ágúst 2019. Ennfremur verður hægt að skoða tillögurnar á vef Norðurþings (www.nordurthing.is). Þeim sem eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillögurnar til þriðjudagsins 23. ágúst 2019. Skila skal skriflegum athugasemdum á skrifstofu Norðurþings að Ketilsbraut 7-9 á Húsavík. Þeir sem ekki gera athugasemdir við tillöguna teljast henni samþykkir.

Aðalskipulagstillaga - Húsavíkurhöfði

Deiliskipulagsuppdráttur - Húsavíkurhöfði

Greinargerð með deiliskipulagi - Húsavíkurhöfði

 


Húsavík 4. júlí 2019
Gaukur Hjartarson
Skipulags- og byggingarfulltrúi