Fara í efni

Fræðslunefnd

22. fundur 10. janúar 2018 kl. 13:00 - 14:30 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Olga Gísladóttir formaður
  • Stefán L Rögnvaldsson aðalmaður
  • Sigríður Hauksdóttir varaformaður
  • Jón Höskuldsson Ritari
  • Berglind Jóna Þorláksdóttir aðalmaður
  • Karl Hreiðarsson aðalmaður
Fundargerð ritaði: Jón Höskuldsson Fræðslufulltrúi
Dagskrá
Málefni leikskóladeildanna í Lundi og á Kópaskeri voru á dagskrá kl. 13.
Málefni Grunnskóla Raufarhafnar voru á dagskrá kl. 13.30.

1.Hverfisráð Öxarfjarðar 2017

Málsnúmer 201709132Vakta málsnúmer

Á 3. fundi hverfisráðs Öxarfjarðar var tekið fyrir fyrsta mál undir önnur mál um breytt rekstrarform leikskólanna í Lundi og á Kópaskeri.

Byggðarráð Norðurþings tók fundargerðina fyrir á fundi sínum þann 5. janúar 2017 og vísaði málinu til fræðslunefndar Norðurþings.
Fræðslunefnd bendir á að 2. mars 2017 var haldinn opinn fundur með fræðslufulltrúa um leikskólamál á Kópaskeri þar sem forsvarsmönnum fyrirtækja bauðst að tjá sig um málið.

12. apríl 2017 fjallaði fræðslunefnd um undirritaða áskorun íbúa um breytingar á rekstri leikskóladeildanna í Lundi og á Kópaskeri. Skorað var á fræðsluyfirvöld að reka einn leikskóla með tveimur starfsstöðvum, einni í Lundi og annarri á Kópaskeri með það að markmiði að tryggja að báðar starfsstöðvar njóti faglegrar þjónustu með tilfærslu á starfsfólki en einnig að eyða togstreitu um mismunandi gæði starfsstöðvanna.
Fræðslunefnd frestaði afgreiðslu erindisins en fól fræðslufulltrúa ásamt skólastjóra Öxarfjarðarskóla að halda fund með foreldrum barna á leikskólaaldri við Öxarfjörð til að kanna hug foreldra varðandi dagvistunarúrræði fyrir komandi skólaár. Fundurinn var haldinn í Lundi þann 8. maí. Sjö foreldrar mættu ásamt fræðslufulltrúa, skólastjóra Öxarfjarðarskóla og deildarstjóra leikskóladeildar í Lundi.

Í erindi forsvarsmanna fimm atvinnufyrirtækja á svæðinu frá 24. apríl 2017 var gerð alvarleg athugasemd við að áskorun íbúanna um breytingar á rekstri leikskóladeildanna í Lundi og á Kópaskeri hafi verið tekin fyrir undir málinu „Viðmið um fjölda leikskólabarna á deild samrekinna leik- og grunnskóla.“ Þar er farið fram á að til væntanlegs fundar með foreldrum leikskólabarna verði einnig boðaðir væntanlegir foreldrar ásamt forsvarsfólki atvinnufyrirtækja.
Eftirfarandi svar sendi fræðslufulltrúi forsvarsmönnum fyrirtækjanna fimm:
„Ástæða þess að áskorun 43 einstaklinga um breytt rekstrarfyrirkomulag leikskóla í Lundi og á Kópaskeri var tekið fyrir undir málinu „Viðmið um fjölda leikskólabarna á deild samrekinna leik og grunnskóla“ er fyrst og fremst skipulagsatriði. Öll umfjöllun snýst um að það úrræði sem í boði hefur verið á Kópaskeri hefur ekki verið nógu vel nýtt og haldið utan um alla þá umræðu í þessu eina og sama máli. Úrlausnarefnið er í öllum tilfellum hvernig dagvistunarúrræðum á svæðinu skuli háttað þrátt fyrir heiti málsins.
Hugur íbúa hefur nú þegar verið kannaður á íbúafundi á Kópaskeri þann 2. mars sl. þar sem m.a. forsvarsmenn fyrirtækja gátu sagt hug sinn. Nú telur fræðslunefnd þörf á því að fá upplýsingar frá foreldrum og verðandi foreldrum leikskólabarna um hvaða viðhorf og væntingar þeir hafa til dagvistunar barna sinna. Eins og bent er á í bréfinu sem nú barst skrifa foreldrar leikskólabarna undir áskorunina en velja engu að síður sumir að vista ekki börn sín á deildinni á Kópaskeri. Leikskóladeild er til staðar á Kópaskeri en er ekki nýtt. Fræðslunefnd mun því leita eftir áliti væntanlegra foreldra og foreldra leikskólabarna á ástæðum þess á fyrirhuguðum fundi“

10. maí fjallaði fræðslunefnd aftur um málið og þá var eftirfarandi bókað:
„Fræðslunefnd bregst við áskorun íbúa með því að framlengja skráningarfrest í leikskóladeildina á Kópaskeri til 15. júní. Náist viðunandi skráning fjögurra barna að lágmarki mun fræðslunefnd stuðla að eflingu starfssemi leikskóladeildarinnar. Fræðslunefnd felur fræðslufulltrúa í samstarfi við skólastjóra að hvetja foreldra barna á leikskólaaldri við Öxarfjörð til að skrá börn sín á leikskóla fyrir 15. júní. Olga setur fram eftirfarandi tillögu: Að á starfssvæði Öxarfjarðarskóla verði rekinn einn leikskóli með tveimur starfsstöðum, einni í Lundi og annarri á Kópaskeri með það að markmiði að báðar starfsstöðvar njóti faglegrar þjónustu með tilfærslu starfsfólks og tryggja með því gæði þeirra þjónustu sem í boði þarf að vera á hvorri starfsstöð fyrir sig. Tillagan er felld með atkvæðum Berglindar Jónu, Stefáns, Annýjar Petu og Þórhildar. Olga óskar bókað. Vegna afgreiðslu nefndarinnar á 13. fundi 12. apríl 2017 á erindi frá 43 íbúum á starfssvæði Öxarfjarðarskóla vil ég benda á eftirfarandi. Borist hefur athugasemd frá forsvarsmönnum 5 atvinnufyrirtækja á svæðinu, sem í dag eru með 53 starfsmenn í fullu starfi, þar sem farið er fram á að fulltrúar atvinnulífsins séu kallaðir til samráðs við lausn þessa máls, ekki síður en skólastjóri og foreldrar þar sem að þeirra mati fara að fullu og öllu leyti saman hagsmunir foreldra, barna og atvinnulífs. Undirrituð tekur undir þetta sjónarmið og fer fram á að við þessari kröfu verði orðið hið fyrsta.“

Á fundi fræðslunefndar 14. júní 2017 er eftirfarandi bókað um málið:
„Fræðslunefnd hefur áfram til umfjöllunar stöðu mála varðandi fjölda barna á leikskóladeildinni á Kópaskeri. Á síðasta fundi nefndarinnar var veittur viðbótarfrestur til skráningar barna á deildina til 15. júní.
Reiknað er með 11 börnum í leikskóladeild Öxarfjarðarskóla í Lundi skólaárið 2017-18 og sótt hefur verið um fyrir 4 börn í leikskóladeild Öxarfjarðarskóla á Kópaskeri, eitt þeirra hæfi vistun um áramót.
Líklegt að um 4 -5 börn verði í leikskóladeild Öxarfjarðarskóla á Kópaskeri skólaárið 2018-19 ef fram fer sem horfir.
Þar sem viðmiðum um skráningar fjögurra barna á leikskóladeildinni á Kópaskeri hefur verið náð mun deildin verða rekin áfram skólaárið 2017-2018. Þá vísar fræðslunefnd einnig til bókunar sinnar frá fundi 10. maí sl. um eflingu deildarinnar.“


Fræðslunefnd ásamt fræðslufulltrúa mun áfram skoða möguleika á dagvistunarúrræði á Kópaskeri.

2.Grunnskóli Raufarhafnar - Tilfærsla á starfsdegi

Málsnúmer 201801041Vakta málsnúmer

Fræðslunefnd hefur til umfjöllunar ósk skólastjóra Grunnskóla Raufarhafnar um tilfærslu á starfsdegi.
Óskað er eftir því að færa til starfsdag sem áætlaður er 22. janúar til 29. janúar vegna utanlandsferðar elstu nemenda ásamt skólastjóra 12. - 19. janúar. Námsmat hefði átt að fara fram í vikunni 15. - 19. janúar og starfsdagur í kjölfar þess. Fresta verður námsmati vegna ferðarinnar og því óskað eftir tilfærslu á starfsdegi.
Fræðslunefnd samþykkir tilfærsluna.

3.Leikskólar Norðurþings, gjaldskrá 2018.

Málsnúmer 201709046Vakta málsnúmer

Gjaldskrá leikskóla Norðurþings er lögð fram til samþykktar að nýju vegna villu í útreikningum á vistunargjöldum.
Lögð er fram gjaldskrá sem felur í sér 2,7% hækkun. Eftirfarandi gjaldskrá er samþykkt og vísað til staðfestingar sveitarstjórnar:

Almennt gjald
1 klst. 3.325 kr.
4 klst. 13.300 kr.
5 klst. 16.625 kr.
6 klst. 19.950 kr.
7 klst. 23.275 kr.
8 klst. 26.600 kr.
9 klst. 33.250 kr.

Einstæðir
1 klst. 2.390 kr.
4 klst. 9.560 kr.
5 klst. 11.950 kr.
6 klst. 14.340 kr.
7 klst. 16.730 kr.
8 klst. 19.120 kr.
9 klst. 23.900 kr.

Fæði mánaðargjöld:
Morgunverður á Grænuvöllum 2.455 kr.
Hádegisverður á Grænuvöllum 5.846 kr.
Síðdegishressing á Grænuvöllum 2.455 kr.
Mjólkurgjald í Lundi og á Raufarhöfn 640 kr.

Gjald ef barn er sótt eftir umsaminn tíma 1.000 kr.

Systkinaafsláttur
Með 2. barni 50%
Með 3. barni 75%
Birna Björnsdóttir skólastjóri Grunnskóla Raufarhafnar sat fundinn á símafundi undir lið 2.

Fundi slitið - kl. 14:30.