Fara í efni

Mál varðandi stóriðju á Bakka

Málsnúmer 201012092

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Norðurþings - 40. fundur - 08.03.2012

Fyrir bæjarráði liggur kynning á Greiningu innviða á Norðausturlandi sem unnin var af Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga. Greiningin er unnin vegna undirbúnings að uppbyggingu orkufreks iðnaðar í héraði skv. viljayfirlýsingu stjórnvalda og sveitarfélaganna á svæðinu dagsett 25. maí 2011. Vinna við skýrsluna var lokið í febrúar 2012. Meðal efnis skýrslunnar er:1. Skilgreining athugunarsvæðis.2. Skipulagsmál og landnotkun.3. Mat á umhverfisáhrifum.4. Orkumál.5. Umhverfisþættir.6. Aðstæður til mannvirkjagerðar.7. Samgöngur og flutningar.8. Vinnumarkaður.9. Þjónusta.10. Samkeppnisstaða.11. Skattar og ívilnanir.12. Myndskrá.13. Töfluskrá.14. Heimildir. Skýrslan lögð fram til kynningar. Einnig fór Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri yfir verkefnin sem snúa að uppbyggingu á Bakka og þá aðila sem áhuga hafa sýnt á framkvæmdum þar. Unnið er að gerð lóðaleigusamnings og hafnarsamnings fyrir PCC.

Bæjarráð Norðurþings - 41. fundur - 15.03.2012

Fyrir bæjarráði liggur að skipa, fyrir hönd Norðurþings, í starfshóp um verkefnin sem snúa að uppbyggingu á Bakka. Starfshópurinn er skipaður fulltrúum frá iðnaðarráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, innanríkisráðuneytinu ásamt fulltrúum Norðurþings. Á seinni stigum verði fulltrúum velferðarráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins boðin þátttaka í starfshópnum.

Bæjarráð telur mikilvægt að farið verði í rannsóknir vegna vegtengingar milli hafnarsvæðisins á Húsavík og athafnarsvæðisins á Bakka, samkvæmt upplýsingum frá Vegargerðinni er gert ráð fyrir að kostnaður vegna þess sé á bilinu 11 til 13 m.kr. Bæjarráð lýsir sig reiðubúið að lána Vegagerðinni þessa fjármuni til að ljúka nauðsynlegum undirbúningi vegna framkvæmdarinnar.

Bæjarráð tilnefnir eftirfarandi aðila fyrir hönd Norðurþings í starfshópinn:

Bergur Elías Ágústsson - bæjarstjóri Norðurþings.
Jón Helgi Björnsson - formaður bæjarráðs Norðurþings.
Gunnlaugur Stefánsson - forseti bæjarstjórnar Norðurþings.

Bæjarráð Norðurþings - 49. fundur - 19.07.2012

Fyrir bæjarráði liggur málefni stóriðju á Bakka.Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri, lagði fram minnisblað til kynningar um verkefnin sem unnið hefur verið að undan farið.

Bæjarráð Norðurþings - 50. fundur - 27.07.2012

Fyrir bæjarráði liggur erindi um kostnaðarþátttöku Norðurþings vegna fornleifarannsókna á Bakka. Áætlaður kostnaður Fornleifastofnunar er um 5,6 m.kr. án vsk vegna rannsóknanna og annar kostnaður er upp á 1,4 mkr. Bæjarráð samþykkir fjárheimild að upphæð um 7 mkr. til verkefnisins.

Bæjarráð Norðurþings - 108. fundur - 26.06.2014

Eftirfarandi er ályktun bæjarráðs vegna uppbyggingar stóriðju á Bakka.
Undanfarin ár hefur Norðurþing, í samstarfi við sveitarfélög í Þingeyjarsýslum, unnið að uppbyggingu iðnaðar á Bakka við Húsavík. Meginmarkmið þessarar vinnu hefur verið að snúa við þeirri neikvæðu byggða- og atvinnuþróun sem átt hefur sér stað í Þingeyjarsýslum undanfarna tvo áratugi. Á þessari vegferð hafa Þingeyingar, í samstafi við hlutaeigandi aðila, lagt mikið undir í orkurannsóknum á háhitasvæðum, skipulagi fyrir virkjanir, vegi, línulagnir, hafnaframkvæmdir og iðnaðarlóðir svo eitthvað sé nefnt.
Staðan í dag er sú að unnið er að fullum krafti með Þýska fyrirtækinu PCC að uppbyggingu kísilverksmiðju í landi Bakka. Endanleg ákvörðun um framkvæmdir mun að líkindum liggja fyrir á næstunni. Þingeyingar hafa átt gott samstarf með stjórnvöldum og í samvinnu við þau tryggt fjármögnun á uppbyggingu nauðsynlegra innviða. Eftirlitsstofnun ESA hefur samþykkt aðkomu stjórnvalda að málinu án fyrirvara.
Núverandi bæjarstjórn Norðurþings leggur áherslu á að unnið verði áfram af fullum hug að uppbyggingu PCC á Bakka og því verkefni lokið. Jafnframt verður unnið að því að fá fleiri fyrirtæki til að fjárfesta í uppbyggingu á svæðinu. Stefnt er að því að iðnaðarsvæðið á Bakka verði vettvangur meðalstórra og minni iðnfyrirtækja. Fyrirtæki verði valin inn á svæðið m.t.t. til ásættanlegra áhrifa á umhverfi, samfélag og aðra atvinnuvegi. Markmiðið er að orka í Þingeyjarsýslu sé nýtt í héraðinu.

Bæjarstjóra falið að koma þessari bókun á framfæri við samstarfsaðila Norðurþings varðandi verkefni á Bakka ásamt upplýsingum um tengiliði sveitarfélagsins verkefnanna.

Bæjarráð Norðurþings - 112. fundur - 07.08.2014

Fyrir bæjarráði liggur til kynningar upplýsingar um stöðu mála vegna uppbyggingar iðjuvers á Bakka. Bæjarstjóri, Bergur Elías Ágústsson fór yfir og kynnti helstu upplýsingar um framgang verkefnisins en m.a. kom fram að Minjastofnun Íslands hefur lokið öllum fornleifarannsóknum og gerir hún ekki kröfu um frekari rannsóknir á lóð PCC. Lagt fram til kynningar.