Fara í efni

Frá Velferðarráðuneyti, áform um sameiningu heilbrigðisstofnana innan heilmbrigðisumdæma

Málsnúmer 201309087

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Norðurþings - 84. fundur - 10.10.2013

Fyrir bæjarráði liggur erindi frá velferðarráðuneytinu þar sem óskað er eftir viðbrögðum sveitarfélagsins við fyrirhuguðum áformum um sameiningu heilbrigðisstofnana inn heilbrigðisumdæmisins. Með lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 og reglugerð um heilbrigðisumdæmi nr. 785/2007 var landinu skipt í sjö heilbrigðisumdæmi. Samkvæmt 5. gr. laganna getur ráðherra, að höfðu samráði vð hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga, ákveðið að semeina heilbrigðisstofnanir innan heilbrigðisumdæmis með reglugerð. Allt frá gildistöku laganna hefur verið stefnt að því að innan hvers heilbrigðisumdæmis verði ein heilbrigðisstofnun sem veiti almenna heilbrigðisþjónustu í umdæminu. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi til laga um heilbrigðisþjónustu er talið að meginávinningurinn af sameiningu heilbrigðisstofnana sé styrkari stjórn og aukið sjálfstæði heilbrigðisstofnana, hagkvæmni og betri, öruggari og sveigjanlegri þjónusta við íbúana. Eigi það ekki síst við í jaðarbyggðum þar sem heilsugæslustöðvar og sjúkrahús verða hluti af heilbrigðisstofnun umdæmisins, sem ber ábyrgð á að tryggja fullnægjandi þjónustu fyrir íbúana.Til að ná fyrrgreindum markmiðum hefur ráðherra áform um að ljúka vinnu við sameiningu heilbrigðisstofnana innan hvers heilbrigðisumdæmis. Við þá vinnu verður lögð megináhersla á að tryggja hagkvæmni, gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar og jafnan aðgang að henni.

Bæjarráð Norðurþings leggst alfarið gegn fyrirhugaðri sameiningu heilbrigðisstofnana á Norðurlandi. Bæjarráð telur að með sameiningu allra stofnana á Norðurlandi muni stjórnun heilbrigðisþjónustu á svæðinu fjarlægjast íbúana.

Því ber að halda til haga að þessi tillaga er ekki ný af nálinni, sem hefur hingað til ekki náð fram að ganga. Ástæður fyrir því eru að ekki hefur tekist með fullnægjandi hætti að færa rök fyrir meintri hagræðingu í rekstri. Að mati bæjarráðs eru líkur á að enn eina ferðina skerðist sú grunnþjónusta sem veitt er í dag.

Bæjarráð veltir því fyrir sér hvort ekki felist þversögn í því að á sama tíma og boðað er fjölbreyttara rekstrarform í heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sé ætlunin að steypa alla heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi í eitt form þ.e. ein stofnun sem nær yfir um 35% af flatarmáli landsins. Nær sé að byggja á samstarfi innan svæða á svipaðan hátt og gert hefur verið milli Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga og Dvalarheimilis aldraðra í Þingeyjarsýslu.

Á undanförnum árum hefur átt sér stað mikil hagræðing í ljósi skertra fjárheimilda hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Þrátt fyrir þessa stöðu hefur starfsmönnum stofnunarinnar tekist að halda uppi viðunandi þjónustu. Fyrir þann árangur verður starfsmönnum seint fyllilega þakkað. Í ljósi framangreinds getur bæjarráð Norðurþings ekki með
nokkru móti mælt með að stofnunin sé sameinuð inn í stærri stofnun og leggst þar að leiðandi alfarið gegn slíkum áformum eins og áður er getið.



Jón Helgi Björnsson vék af fundi undir þessum lið.