Fara í efni

Áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma til ársins 2022

Málsnúmer 201710131

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Norðurþings - 230. fundur - 17.10.2017

Velferðarráðuneytið sendi út tilkynningu 17.10.2017 hvar kom fram ný áætlun heilbrigðisráðherra um byggingu 155 hjúkrunarrýma til ársins 2022 til viðbótar þeim 313 rýmum sem þegar eru á framkvæmdastigi samkvæmt eldri framkvæmdaáætlun. Alls munu því verða byggð eða endurgerð 468 hjúkrunarrými á tímabilinu ýmist til fjölgunar rýma eða til að bæta aðbúnað.

Alþingi samþykkti í júní síðastliðnum nýja fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Með henni skapaðist svigrúm til aukinnar uppbyggingar hjúkrunarrýma sem áætlun heilbrigðisráðherra miðast við.

Á höfuðborgarsvæðinu verður hjúkrunarrýmum fjölgað um 80 umfram gildandi áætlun og um 10 í Árborg. Uppbygging miðar einnig að því að bæta aðbúnað íbúa á nokkrum hjúkrunarheimilum þar sem þörf er á að færa aðbúnaðinn til nútímalegs horfs, í samræmi við viðmið velferðarráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila. Áætlað er að byggja 23 rými á Húsavík, 24 á Höfn í Hornafirði og endurgera 18 hjúkrunarrými í Stykkishólmi.

Áform um fjölgun rýma byggist á mati velferðarráðuneytisins á því hvar þörfin er mest og taka mið af fjárhagslegu svigrúmi gildandi fjármálaáætlunar. Áætlaður heildarkostnaður við uppbyggingu 155 hjúkrunarrýma er tæpir fimm milljarðar króna. Í áætluninni er miðað við lágmarksþátttöku hlutaðeigandi sveitarfélaga í framkvæmdakostnaðinum, þ.e. 15% á móti 85% kostnaði ríkissjóðs.
Byggðarráð fagnar fyrirhugaðri byggingu 23 nýrra hjúkrunarrýma á Húsavík eins og fram kemur í tilkynningu á vef velferðarráðuneytisins. Um er að ræða 23 ný hjúkrunarrými.

Byggðarráð Norðurþings - 273. fundur - 29.11.2018

Fyrir byggðarráði liggur frumathugunarskýrsla Framkvæmdasýslu ríkisins vegna nýs hjúkrunarheimilis á Húsavík.
Á fundi stjórnar Dvalarheimilis aldraðra á Húsavík þann 14. nóvember s.l. var bókað:
Stjórn lýsir yfir ánægju með málið og að það sé komið á þetta stig. Stjórn hvetur stjórnvöld til að halda þétt utan um framvindu þess svo að framkvæmdir geti hafist sem fyrst.

Byggðarráð Norðurþings tekur undir bókun stjórnar Dvalarheimilis aldraðra á Húsavík og telur mikilvægt að komið verði á samningi milli ríkisins og sveitarfélaganna í Þingeyjarsýslu um uppbygginguna og að verkefninu megi ýta úr vör með formlegum hætti sem fyrst.